Héðinsfjarðargöng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Héðinsfjarðargöng eru tvenn fyrirhuguð jarðgöng sem grafa á á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með viðkomu í eyðifirðinum Héðinsfirði. Göngin verða 3,7 og 6,9 km löng en inni í framkvæmdinni eru einnig 440 metrar af vegskálum og 4 km af vegum. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er að minnsta kosti 7 milljarðar króna. Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verður 15 km þegar göngin eru tilbúin.

[breyta] Forsaga og útboð verksins

Upphaflega var ætlunin sú að göngin yrðu boðin út með Fáskrúðsfjarðargöngunum á Austurlandi en fallið var frá því og verkefnin voru því boðin út í sitthvoru lagi í mars 2003. Í júlí sama ár ákvað ríkisstjórn Íslands að hafna öllum tilboðum sem höfðu borist í verkið, að sögn vegna þenslu í efnahagslífinu og fresta því um óákveðinn tíma. Þetta gramdist íbúum og sveitarstjórnum á Siglufirði og Ólafsfirði sem litu svo á að þingmenn hefðu gefið loforð fyrir Alþingiskosningarnar í maí þetta sama ár um að ráðist yrði í gerð ganganna.

Frestunin hafði einnig málaferli í för með sér þar sem Íslenskir aðalverktakar og norska fyrirtækið NCC sem áttu saman lægsta tilboðið í verkið fóru fram á skaðabætur frá Vegagerðinni vegna þess að ákvörðunin um að hafna öllum tilboðum hafi verið ólögmæt. Kærunefnd útboðsmála leit svo á að ákvörðunin um að hafna tilboðunum hefði verið ólögleg og að Vegagerðin væri skaðabótaskyld í málinu vegna þess kostnaðar sem fyrirtækin lögðu í til að taka þátt í útboðinu. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði Vegagerðina af öllum kröfum sækjenda þann 15. apríl 2005.

Á borgarafundi á Siglufirði 19. mars 2005 tilkynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að göngin yrðu boðin út á ný haustið 2005, framkvæmdir gætu hafist um mitt ár 2006 og þeim lyki 2009.

[breyta] Deilur

Verkefnið er umdeilt bæði vegna kostnaðarins og umhverfisáhrifa. Margir andstæðingar þess benda á að það þjóni hagsmunum tiltölulega fárra miðað við mikinn kostnað og að önnur samgönguverkefni eigi að vera ofar í forgangsröðuninni. Einnig er umdeilt að fara eigi í framkvæmdir í Héðinsfirði sem er nánast ósnortinn af mannvirkjagerð í dag. Stuðningsmenn framkvæmdarinnar halda því fram hinsvegar að hún muni gera Siglfirðingum möguleika á að sameinast öðrum sveitarfélögum í Eyjafirði og styrkja Eyjafjarðarsvæðið í heild sinni. Siglufjörður og Ólafsfjörður hafa þegar sameinast í sveitarfélaginu Fjallabyggð frá árinu 2006.

[breyta] Tenglar