Ítalía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Repubblica italiana
Fáni Ítalíu Skjaldarmerki Ítalíu
(Fáni Ítalíu) (Skjaldarmerki Ítalíu)
Kjörorð: ekkert
Þjóðsöngur: Il Canto degli Italiani
Kort sem sýnir staðsetningu Ítalíu
Höfuðborg Róm
Opinbert tungumál ítalska (einnig þýska í Suður-Týról og franska í Ágústudal m.m.)
Stjórnarfar Lýðveldi
Giorgio Napolitano
Romano Prodi
Sjálfstæði
Sameining
Stofnun lýðveldis

17. mars 1861
1. janúar 1948
Aðild að Evrópusambandinu 25. mars 1957

Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

71. sæti
301.230 km²
2,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2005)
 • Þéttleiki byggðar
22. sæti
58.462.375
197/km²
VLF (KMJ)
 • Samtals
 • á mann
áætl. 2005
1.620.454 millj. dala (8. sæti)
27.984 dalir (21. sæti)
Gjaldmiðill Evra (€)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Þjóðarlén .it
Alþjóðlegur símakóði 39

Ítalía er land í Suður-Evrópu. Landið er aðallega staðsett á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á fótlegg. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía. Einnig eru tvö sjálfstæð ríki umlukin af Ítalíu, það eru San Marínó (sem er nálægt austurströndinni og Rímíní) og Vatíkanið (Páfagarður), sem er hluti af Róm. Rómarborg er höfuðborgin og stærsta borgin. Hún er ein af söguríkustu og merkustu borgum Evrópu og er stundum kölluð „borgin eilífa“. Aðrar stórar borgir eru t.d. Mílanó, Flórens, Genúa, Tórínó, Feneyjar (Venezia), Veróna, Bologna, Rímíní, Napólí og Palermó. Gjaldmiðillinn er evra síðan 1999, en var áður líra. Íbúafjöldinn er um 58 milljónir manna og stærð landsins er þreföld miðað við Ísland.

Gervihnattamynd af Ítalíu
Gervihnattamynd af Ítalíu

Efnisyfirlit

[breyta] Saga

Á Ítalíu hafa komið upp mörg menningarsamfélög frá því í fornöld en hugmyndin um Ítalíu sem ríki var þó ekki til fyrr en með sameiningu Ítalíu (risorgimento) um miðja 19. öld. Frá þeim tíma má því segja að hin eiginlega „saga Ítalíu“ hefjist. Þrátt fyrir það er alvanalegt að fjalla um sem hluta sögu Ítalíu hluti eins og sögu Stór-Grikklands (Magna Grecia), sögu Rómaveldis, miðaldir, þegar Býsans, Frankaveldi og fleiri tókust á um yfirráð á skaganum, sögu borgríkjanna á Norður-Ítalíu og ítölsku endurreisnina.

Nútímaríkið Ítalía fæddist 17. mars 1861 þegar meirihluti ríkjanna á Ítalíuskaganum sameinuðust í eitt konungsríki undir stjórn konungs af Savoja-ættinni, Viktors Emmanúels II, eftir yfir þrjátíu ára baráttu fyrir sameiningu. Fyrst um sinn stóðu Róm og nærliggjandi héruð utan við ríkið þar sem þau töldust hluti Páfaríkisins (Patrimonium Petri), en 20. september 1870 var borgin hertekin eftir stutt átök og gerð að höfuðborg ríkisins. Afleiðing þessa varð sú að páfinn neitaði að viðurkenna Ítalíu sem ríki fram að Lateransamningunum 1929.

Ítalía barðist með bandamönnum gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum í Fyrri heimsstyrjöldinni, en við friðarsamningana fengu Ítalir ekki svæði sem þeir töldu sig eiga að fá með réttu. Vonbrigði með niðurstöðu styrjaldarinnar og erfiðleikar í kjölfar hennar, auk ótta við mögulega byltingu bolsévika, leiddu til fæðingar fasismans og valdatöku Benito Mussolinis eftir Rómargönguna 1922. Mussolini varð einræðisherra 1925 og ríkti sem slíkur til 1943. Á tímum fasismans stundaði Ítalía árásargjarna heimsvaldastefnu gagnvart Albaníu, Líbýu, Eþíópíu og Sómalíu og studdi falangista í Spænsku borgarastyrjöldinni. Ítalía gerði bandalag við Þýskaland Hitlers (Stálbandalagið) og varð eitt af Öxulveldunum í Síðari heimsstyrjöldinni. Eftir fullnaðarsigur bandamanna í styrjöldinni var ný stjórnarskrá samin og lýst yfir stofnun lýðveldis árið 1948.

Margir stjórnmálamenn sem höfðu haft embætti í fasistastjórinni gengu í endurnýjun lífdaga í nýstofnuðum miðjuflokki, Kristilega demókrataflokknum sem fór síðan óslitið með völd til 1993.

Ítalía varð félagi í NATO árið 1949 og gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1955. Mikill vöxtur var í efnahagslífinu frá 1958 til 1963 og Ítalía var ekki lengur með fátækustu þjóðum Evrópu (Ítalska efnahagsundrið). Á 8. áratugnum bar mikið á misskiptingu auðs og hryðjuverkum af hálfu vinstri- og hægrisinnaðra öfgahópa (Blýárin). Einnig bar mikið á misvægi milli Suður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið var bundið við landbúnað, stöðnun ríkti og skipulögð glæpastarfsemi blómstraði, og hinnar iðnvæddu og ríku Norður-Ítalíu, þar sem efnahagslífið byggði á framleiðsluiðnaði.

1992-1993 fór fram víðtæk rannsókn á spillingu í ítölskum stjórnmálum (Mani pulite) sem batt endi á valdatíma Kristilegra demókrata. Þetta gerðist á sama tíma og Ítalir tókust á við efnahagslegar og stjórnarfarslegar umbætur sem voru undanfari þátttöku í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Spillingarrannsóknin skapaði stjórnmálakreppu sem ruddi brautina fyrir stjórnmálaferil fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvios Berlusconis, og myndun nokkurs konar „tvíflokkakerfis“ þar sem tvö stór kosningabandalög, hvort um sig myndað úr einum stórum miðjuflokki og smærri flokkum á vinstri og hægri væng stjórnmálanna, takast á í kosningum.

[breyta] Stjórnsýslueiningar

Ítalía skiptist í tuttugu héruð (regioni) sem hvert hefur sinn höfuðstað. Fimm héraðanna (Friúlí, Sardinía, Sikiley, Trentínó og Ágústudalur) hafa takmarkaða sjálfsstjórn sökum menningarlegrar sérstöðu. Héruðin skiptast í nokkrar sýslur (province) sem aftur skiptast í mörg sveitarfélög (comuni) sem árið 2001 voru 8.101 talsins.

[breyta] Héruð

  • Ágústudalur (Valle d'Aosta, höfuðstaður: Aosta)
  • Fjallaland (Piemonte, höfuðstaður: Tórínó)
  • Langbarðaland (Lombardia, höfuðstaður: Mílanó)
  • Trentínó-Suður-Týról (Trentino-Alto Adige, höfuðstaðir: Trento og Bolzano)
  • Venetó (Veneto, höfuðstaður: Feneyjar)
  • Friúlí (Friuli-Venezia Giulia, höfuðstaður: Trieste)
  • Lígúría (Liguria, höfuðstaður: Genúa)
  • Emilía-Rómanja (Emilia-Romagna, höfuðstaður: Bologna)
  • Toskana (Toscana, höfuðstaður: Flórens)
  • Marke (Le Marche, höfuðstaður: Ankóna)
  • Úmbría (Umbria, höfuðstaður: Perugia)
  • Latíum (Lazio, höfuðstaður: Róm)
  • Abrútsi (Abruzzo, höfuðstaður: Aquila)
  • Kampanía (Campania, höfuðstaður: Napólí)
  • Mólíse (Molise, höfuðstaður: Campobasso)
  • Basilíkata (Basilicata, höfuðstaður: Potenza)
  • Apúlía (Puglia, höfuðstaður: Barí)
  • Kalabría (Calabria, höfuðstaður: Catanzaro)
  • Sikiley (Sicilia, höfuðstaður: Palermó)
  • Sardinía (Sardegna, höfuðstaður: Cagliari)

[breyta] Landafræði

Mynd tekin úr alþjóðlegu geimstöðinni af eldgosi í Etnu árið 2002.
Mynd tekin úr alþjóðlegu geimstöðinni af eldgosi í Etnu árið 2002.

Ítalía er að stærstum hluta langur skagi (Appennínaskagi) sem skagar langt út í Miðjarðarhafið, auk tveggja stórra eyja; Sikileyjar og Sardiníu. Skaginn og eyjarnar afmarka hafsvæði eins og Adríahaf austan við skagann, Jónahaf í suðaustri, Tyrrenahaf í vestri og Lígúríuhaf í norðvestri.

Norðurlandamæri Ítalíu eru í Alpafjöllunum, en frá þeim liggja Appennínafjöllin eftir endilöngum skaganum. Hæsti tindur Ítalíu er Mont Blanc (4.810 m) en hæsti tindur Appennínafjallanna er Gran Sasso (2.912 m).

Stærsta samfellda undirlendi Ítalíu er Pódalurinn þar sem áin Pó rennur ásamt þverám sínum úr Alpafjöllunum, Appennínafjöllunum og Dólómítunum 652 km leið út í Adríahaf. Önnur þekkt fljót á Ítalíu eru Arnó, Adige og Tíberfljót.

Á Ítalíu eru nokkur virkustu eldfjöll Evrópu eins og Etna, Vesúvíus og Strombólí. Jarðskjálftar eru ekki óalgengir og þó nokkur jarðhiti er á mörgum stöðum.


Wikimedia Commons merkið
Margmiðlunarefni tengt Ítalíu er að finna á Wikimedia Commons.
Á öðrum tungumálum