Hveravellir
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hveravellir er jarðhitasvæði í um það bil 650 metra hæð á hálendi Íslands og jafnframt algengur áningarstaður þegar ferðast er um Kjöl. Elstu lýsingar af staðnum eru frá 1752 þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson rituðu um hann í ferðabók sinni.
Um 12 tíma reið er frá Mælifelli í Skagafirði á Hveravelli og álíka langt neðan úr byggð á Suðurlandi. Á Hveravöllum bjó Fjalla-Eyvindur og Halla kona hans þegar þau voru í útlegð. Sjást þar ýmsar minjar eftir búsetu þeirra, svo sem rúst af Eyvindarkofa og í hver einu sjást mannvirki sem virðast hafa verið notuð til suðu matvæla.
Ferðafélag Íslands reisti sæluhús á Hveravöllum árið 1938 og er það eitt af fáum sæluhúsum á landinu sem hituð eru með hveravatni. Nýtt hús var reist árið 1980 og nýtast bæði húsin ferðamönnum.
Veðurstofa Íslands hóf að reka mannaða veðurathugunarstöð á Hveravöllum árið 1965 og bjó þar fólk allt fram á 21. öld þegar mannaða stöðin var lögð niður og tekin upp sjálfvirkni í staðinn.