Sólarhringur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sólarhringur er tímaeining, sem miðast við möndulsnúningstíma jarðar um sólu og er nú yfirleitt átt við 24 klukkustundir. Er ekki SI-mælieining. Sólarhingur var upphaflega ákvarðaður út frá gangi sólar, þ.e. sönnum sóltíma og samkvæmt jarðmiðjukenningunni var þá einn sólarhringur sá tími sem það tók sólina að far einn hring á himninum. Réttara er að tala um tímann sem það tekur jörðina að snúast einn hring um möndul sinn (sbr. sólmiðjukenningu). Sólarhringur þannig mældur er ekki nákvæmlega 24 klukkustundir og munar þar um fjórum mínútum. Í raun tekur einn möndulsnúningur jarðar 23 klukkustundir, 56 mínútur og 4,091 sekúndur. En á þeim tíma hefur jörðin færst á braut sinni um sólu, og því hefur afstaða jarðar og sólar breyst. Það þýðir að jörðin þarf að snúast örlítið lengra til að sólin virðist á sama stað á himninum, en það tekur 3 mínútur og 55,909 sekúndur. Þess vegna er sólarhringurinn nákvæmlega 24 klukkustundir (sem eru 1440 mínútur, eða 86400 sekúndur), þótt einn snúningur jarðar sé í raun aðeins styttri. Nú er venja að telja sólarhringinn byrja klukkan 0:00:00 og enda einni sekúndu eftir klukkan 23:59:59, en þá er klukkan annað hvort 24:00:00 eða 0:00:00 næsta sólarhrings og er þessi tími kallaður miðnætti. Klukkur dagsins miðast við s.k. meðalsóltíma, en ekki sannan sóltíma.

Dagur er sá hluti sólarhrings, sem varir frá sólarupprás til sólarlags, en nótt er frá sólarlagi til sólarupprásar.

[breyta] Heimild