Þjóðfundurinn 1851
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þjóðfundurinn 1851 var kallaður saman í stað reglulegs Alþingis, sem hafði verið endurreist 1845. Fundurinn var haldinn á Sal Lærða skólans í Reykjavík, sem nú heitir Menntaskólinn í Reykjavík. Á þessum fundi skyldi taka fyrir mál er vörðuðu stjórnskipun Íslands. Þar lagði Trampe greifi fram frumvarp sem fólst í því að Ísland yrði algerlega innlimað í Danmörku, Ísland myndi hafa sömu lög og reglur í Danmörku og Alþingi yrði amtráð en Íslendingar myndi fá að hafa 6 fulltrúa á danska þinginu. Hinir þjóðkjörnu fulltrúar voru algjörlega andvígir frumvarpinu en þeir konungskjörnu mótmæltu eigi. Trampe greifi sá fram á að þjóðkjörnu fulltrúarnir myndu fella það og sleit þá fundinum. Mótmælti Jón Sigurðsson þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi. Allir íslensku fulltrúarnir risu þá úr sætum og sögðu hin fleygu orð, sem síðan eru oft ranglega kennd við Jón Sigurðsson: „Vér mótmælum allir.“