Adam Smith

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vestræn heimspeki
Heimspeki 18. aldar
(Nýaldarheimspeki)
Adam Smith
Nafn: Adam Smith
Fædd/ur: 5. júní 1723 í Skotlandi
Dáin/n: 17. júlí 1790 í Edinburgh í Skotlandi
Skóli/hefð: Frjálshyggja
Helstu ritverk: Auðlegð þjóðanna
Helstu viðfangsefni: hagfræði, stjórnspeki, siðfræði
Markverðar hugmyndir: Frjáls viðskipti, ósýnilega höndin
Áhrifavaldar: Aristóteles, Thomas Hobbes, John Locke, Bernard de Mandeville, Francis Hutcheson, David Hume, Montesquieu
Hafði áhrif á: Thomas Malthus, David Ricardo, John Stuart Mill, Karl Marx, Friedrich Engels, John Maynard Keynes, Friedrich A. von Hayek

Adam Smith (skírður 5. júní 1723 - 17. júlí 1790) var skoskur heimspekingur og er meðal áhrifamestu hagfræðinga allra tíma. Smith er einnig einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar. Rit hans Auðlegð þjóðanna (Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) var ein fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun verslunar og iðnaðar í Evrópu. Smith greiddi þannig veginn fyrir tilurð hagfræðinnar en auk þess er rit hans enn þá eitt helstu rita kapítalisma og frjálshyggju og ein þekktasta vörn frjálsrar verslunar.

Efnisyfirlit

[breyta] Ævi og störf

Smith fæddist í smábænum Kirkcaldy í Skotlandi, faðir hans var tollgæslumaður en hann lést um hálfu ári fyrir fæðingu Adams. Svo segir sagan að hópur sígauna hafi rænt Adam þegar hann var fjögurra ára gamall en tekist hafi að endurheimta hann heilu og höldnu. Adam sýndi góða greind frá unga aldri og stundaði fyrst nám í Háskólanum í Glasgow, en síðan í Oxford-háskóla. Hann var skipaður prófessor í rökfræði í Háskólanum í Glasgow 1751, ári síðar gerðist hann einnig prófessor í siðfræði. Nokkrum árum síðar var hann skipaður skólameistari.

Adam gaf út fyrstu bók sína Kenningu um siðferðiskenndirnar (e. A Theory of Moral Sentiments) 1759. Bókin náði talsverðum vinsældum, hún var m.a. rædd í Þýskalandi. Smith gerðist einkakennari sonar hertogans af Buccleuch, Henry Scotts vegna þess að kaupið var betra en við kennslu. Á árunum 1764-1766 ferðuðust þeir til Frakklands og Sviss. Í Frakklandi hittu þeir fyrir Voltaire, Turgot, D'Alembert, Francois Quesnay, lækni við hirð Loðvíks 15. o.fl. sem höfðu mikil áhrif á þá. Adam safnaði efni í bók um lögmál hagsældarinnar, sem tók hann 12 ár að ljúka. Auðlegð þjóðanna (e. An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) kom út 1776. Tveimur árum síðar var Smith boðin staða tollstjóra í Skotlandi. Hann tók hana og settist að í Edinborg, þar sem hann bjó til dauðadags. Til marks um vinsældir Auðlegð þjóðanna var hún þýdd á dönsku, frönsku, þýsku, ítölsku og spænsku fyrir dauða Adam Smiths.

[breyta] Hagfræði

Auðlegð þjóðanna felur í sér tvær meginhugmyndir. Önnur er, að eins gróði þurfi ekki alltaf að vera annars tap. Allir geti grætt á frjálsum viðskiptum, því að í þeim nýti þeir sér ólíka aðstöðu og hæfileika hver annars. Verkaskiptingin sé helsta orsök auðlegðar þjóðanna. Hin hugmyndin er, að atvinnulífið geti verið skipulegt án þess að þurfa að vera skipulagt. Sjálfstýring á markaði geti komið í stað miðstýringar, frjáls viðskipti í stað valdboðs. Þetta náttúrlega jafnvægi sem hér er lýst stýrist af lögmálum framboðs og eftirspurnar.

Segja má, að þessar tvær hugmyndir myndi stofninn í hagfræði sem vísindagrein, þótt flest það, sem Smith sagði, hefði að vísu komið fram áður. Hugmyndir Smiths fóru sigurför um heiminn á skömmum tíma, í kjölfar iðnbyltingarinnar er talað um gullöld (hnattrænna), frjálsra viðskipta á árunum 1870-1914. Á fyrri hluta 20. aldar olli fyrri heimsstyrjöldin, Rússneska byltingin og heimskreppa því að tekin var upp viðskiptastefna einangrunar og hafta. Eftir seinni heimsstyrjöldina var stækkaði umfang ríkisins mikið alveg fram að 9. áratugnum þegar hugmyndafræði frjálshyggju fékk enn á ný byr undir báða vængi.

[breyta] Siðfræði

Einn kjarninn í kenningu Smiths í Auðlegð þjóðanna er, að „ósýnileg hönd“ leiði menn til að vinna að almannahag, þegar þeir ætli sér aðeins sjálfir að vinna að eigin hag. Til þess að græða verði þeir að fullnægja þörfum annarra. Ein þekktasta tilvísunin í Auðlegð þjóðanna er dæmi sem Adam Smith nefnir þar sem hann útskýrir hvernig það sé ekki manngæsku slátrarans, bruggarans eða bakarans sem við fáum mat að borða heldur síngirni þeirra. Í viðskiptum reynist náungakærleikurinn ekki eins vel og matarástin. Þetta hefur sumum þótt ganga þvert á boðskap Smiths í Kenningu um siðferðiskenndirnar um, að siðferðisvitund manna mætti rekja til samúðar með öðru fólki. Töluðu þýskir spekingar á 19. öld um „Das Adam Smith Problem“ í þessu sambandi. En þessa þversögn má leysa með því að gera greinarmun á tvenns konar gildissviði hugmynda. Í frjálsum viðskiptum á alþjóðlegum markaði, þar sem menn þekkja ekki hver annan og eru ekki vandabundnir, hugsa þeir um eigin hag. Í samskiptum innan fjölskyldu eða í þröngum vinahóp, gilda aðrar reglur, þar sem menn eru vandabundnir. Hvort tveggja á sinn eðlilega vettvang, matarástin og náungakærleikurinn.

[breyta] Helstu verk

  • A Theory of Moral Sentiments (1759).
  • The Wealth of Nations (1776).

[breyta] Tenglar

[breyta] Heimildir

  • Heilbroner, Robert L.. The Worldly Philosophers (7. útg). Simon & Schuster, 1995. ISBN 068486214x
Þetta er gæðagrein