Hræðslubandalagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hræðslubandalagið var kosningabandalag Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í Alþingiskosningunum 24. júní 1956. Flokkarnir gerðu með sér samkomulag um að stilla ekki fram frambjóðendum í sömu einmennings og tvímennings kjördæmum. Bandalagið tók nafn sitt af þeirri staðreynd að Sósíalistar höfðu tekið höndum saman með Forseta Alþýðusambands Íslands og fyrrum formanni Alþýðuflokksins, Hannibal Valdimarssyni og öðrum í málfundafélagi jafnaðarmanna og myndað Alþýðubandalag. Hræðslubandalagið stefndi að uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Bandalagið var stofnað í kjölfar þess að Framsóknarflokkurinn rauf stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn 27. mars.

Að loknum Alþingiskosningunum 1956 myndaði Hræðslubandalagið stjórn með Alþýðubandalaginu 24. júli. Þrátt fyrir að formaður Alþýðuflokksins, Haraldur Guðmundsson, hefði lýst því yfir að stjórnarsamstarf við Alþýðubandalagið kæmi ekki til greina. Ráðherrar Hræðslubandalagsins voru: Hermann Jónasson sem tók að sér forsætis, dóms og landbúnaðarmál auk orku og vegamála. Guðmundur Í Guðmundsson sem tók að sér utanríkismál auk tryggingarmála. Eysteinn Jónsson sem tók að sér fjár og samgöngumál. Gylfi Þ. Gíslason sem tók að sér mennta og iðnaðarmál. Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra,og Hannibal Valdimarsson félagsmálaráðherra sem voru fyrir Alþýðubandalagið. 4. desember 1958 slitnaði upp úr samstarfi flokkanna í bandalaginu, eftir að hafa fært landhelgina út í 12 mílur 1. september 1958, án þess þó að hafa lokið málinu gagnvart Bretum. Alþýðuflokkurinn, undir forystu Emils Jónssonar myndaði stjórn með hlutleysi Sjálfstæðisflokks 23. desember. Ekki var varnarsamningum sagt upp þó að því hefði verið stefnt.