Upernavik

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rauði liturinn sýnir Upernavik sveitarfélagið á Grænlandskortinu
Rauði liturinn sýnir Upernavik sveitarfélagið á Grænlandskortinu

Upernavik, er bær á norðvesturströnd Grænlandi með tæplega 1200 íbúa. Bærinn er aðalbyggð í samnefndu sveitarfélagi sem hefur um 3000 íbúa. Fyrir utan aðalbæinn eru 10 minni byggðarlög. Sveitarfélagið er um 450 km frá norðri til suðurs og þekur um 200.000 km².

Norðurhluti sveitarfélagsins er einungis jöklar sem ganga í haf fram en syðst eru nokkur gróðurvæn svæði. Helsta atvinna er við fiskiveiði og fiskvinnslu en hefðbundin selaveiði er einnig stunduð. Ísbirnir eru algengir, sérlega að vetrarlagi.

Á svæðinu lýsir miðnætursól frá 12 maí fram til 1 ágúst og vetrarmyrkur ríkir frá 4 nóvember fram til 5 febrúar. Grænlenska nafnið Upernavik þýðir „vorstaðurinn“ enda söfnuðust inuítafjölskyldurnar þar þegar ísa leysti á vorin.

Rétt norðaustur af Upernavik-bæ, þar sem nú heitir Kingittorsuaq, fannst 1823 lítill rúnasteinn í vörðu með áletruninni: „Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok ... ....“. Samkvæmt rúnasérfræðingum er áletrunin sennilega frá lok 13. aldar og er þetta nyrsta heimild sem Grænlendingar hinir fornu skildu eftir sig.

[breyta] Ítarefni