París

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eiffelturninn er eitt af táknum Parísarborgar
Eiffelturninn er eitt af táknum Parísarborgar

París (franska: Paris, áður Lutèce úr Latínu: Lutetia) er höfuðborg Frakklands og höfuðstaður héraðsins Île-de-France. Íbúafjöldinn í borginni er 2.147.857 (1999) á höfuðborgarsvæðinu búa 11.174.743 íbúar. Borgin byggðist upp út frá eyju í ánni Signu þar sem er hinn sögulegi miðbær og dómkirkjan Notre Dame.

[breyta] Saga borgarinnar

Þegar Rómverjar lögðu undir sig Gallíu árið 52 f.Kr. bjó gaulverskur ættflokkur á svæðinu sem Rómverjar kölluðu Parisii. Rómverjar nefndu sína borg Lutetia. Um Krists burð hafði borgin breiðst yfir á vesturbakka Signu þar sem núna er Latínuhverfið, og fengið nafnið París.

París var höfuðborg Mervíkinga frá árinu 508. Á 9. öld varð borgin fyrir ítrekuðum árásum víkinga en umfangsmesta umsátrið um borgina fór fram undir stjórn Ragnars nokkurs, sem sumir vilja meina að sé Ragnar loðbrók, sem rændi borgina þann 28. mars árið 845 og fékk mikið lausnargjald fyrir að hafa sig á brott.

Á 11. öld breiddist borgin yfir á austurbakkann og óx hratt næstu aldirnar. Árið 1257 var Sorbonne-háskóli stofnaður með sameiningu nokkurra skóla sem fyrir voru. Loðvík XIV færði aðsetur konungsins frá borginni til Versala árið 1682.

1789 hófst franska byltingin með því að Parísarbúar réðust á fangelsið Bastilluna 14. júlí. Fransk-Prússneska stríðið 1870 endaði með sigri Prússa og umsátri um borgina. Í umsátrinu var Parísarkommúnan stofnuð, en gafst upp eftir tvo mánuði. Eftir þetta stríð voru breiðgötur Parísar búnar til með því að rífa hluta gömlu borgarhverfanna, meðal annars til þess að auðveldara væri að koma her inn í borgina.

Borgin átti visst blómaskeið undir lok 19. aldar þegar menningarlíf blómstraði þar.

París var hernumin af Þjóðverjum 1940 og frelsuð af bandamönnum í ágúst árið 1944. 1968 átti stúdentauppreisnin sér stað í París.


 

Þessi grein sem fjallar um landafræði er stubbur.
Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana

Wikimedia Commons merkið
Margmiðlunarefni tengt Paris er að finna á Wikimedia Commons.