Fósturbarn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fósturbarn (öðru nafni kjörbarn) er barn sem hefur verið ættleitt af öðrum en náttúrulegum foreldrum sínum. Það hefur víðast hvar sömu stöðu sem væri það náttúrulegt barn fósturforeldra sinna. Misjafnt er hversu gömul börn eru þegar þau eru tekin í fóstur, eða hverjar ástæður þess eru að þau alast ekki upp hjá blóðforeldrum sínum. Meðal ástæðna má nefna fátækt, óreglu og geðveiki. Börn eru líka yfirleitt tekin í fóstur ef þau verða munaðarlaus. Börn hafa verið tekin í fóstur frá örófi alda.
[breyta] Ættleiðingar á Íslandi
Á Íslandi er það vel þekkt að börn séu tekin í fóstur, en þó nokkru fátíðara en í mörgum öðrum löndum, eða um 20-35 börn á ári. Fyrir breytingar á lögum um ættleiðingar sem gengu í gildi á árinu 2006 gat einhleypt fólk ekki tekið barn í fóstur, og það gátu samkynhneigð pör ekki heldur (nema annar aðilinn getur gengið barni hins í foreldris stað), en lagabreytingarnar árið 2006 breyttu ýmsum forsendum ættleiðingar. Ef fólk vill ættleiða barn á Íslandi er miðað við að væntanlegir fósturforeldrar séu 25-45 ára, séu heilbrigðir andlega og líkamlega, hafi hreina sakaskrá og geti framfleytt fjölskyldu. Fólk sem er í óvígðri sambúð þarf að hafa búið saman í fimm ár, en gift fólk í þrjú ár.