Kókaín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kókaín er eiturlyf og öflugt fíkniefni.

Kókaín er eitt áhrifamesta náttúrulega örvandi efnið. Það er búið til úr blöðum kókajurtarinnar sem finnst á hásléttum Andesfjalla í Suður-Ameríku. Upphaflega var kókaíns neytt sem deyfilyfs í Þýskalandi um miðja 19. öldina og var notað sem slíkt nokkuð fram á síðustu öld, sérstaklega meðal tann- og augnlækna.

[breyta] Hættur við neyslu

Það er mikil hætta fólgin í því að nota kókaín, hvort heldur það er tekið gegnum nef, sprautað eða reykt. Stórir skammtar kókaíns geta valdið flogi og dauða vegna öndunartruflana, heilablóðfalli, blæðingum eða hjartabilunum. Ekki er til mótefni sem hægt er að nota ef of stórir skammtar kókaíns eru teknir.

Ýmislegt bendir til þess að þeir sem reykja eða sprauta sig með kókaíni séu í meiri hættu en þeir sem taka það í gegnum nefið [heimild vantar]. Þeir sem reykja það þjást oft af öndunarerfiðleikum og verkjum í brjósti sem tengjast lungnavandmálum og blæðingum. Að auki er meiri hætta á ávanabindingu ef kókaínið er reykt en ef það er tekið í gegnum nefið [heimild vantar]. Þeir sem sprauta sig eru í mun meiri hættu við að fá sjúkdóma sem breiðast út með blóðblöndun, s.s. eyðni. Mikil notkun kókaíns í gegnum nef getur hins vegar brennt upp brjóskið sem aðskilur nasaholin og jafnvel valdið því að það hverfur.

[breyta] Notkun kókaíns

Kókaín hefur stundum verið kallað „fíkniefni ríka fólksins“ vegna þess að það þykir dýrt miðað við mörg önnur fíkniefni.

Notkun kókaíns hefur verið mikil í Bandaríkjunum og ræðst það af nokkrum þáttum s.s. efnahag Bandaríkjanna og nálægð landsins við Suður-Ameríku. Tilkoma krakks jók neyslu kókaíns gífurlega í Bandaríkjum og árið 1982 er talið að 5,6% bandarísku þjóðarinnar hafi notað kókaín [heimild vantar].

Kókaín er ekki mikið notað á Íslandi en vísbendingar eru um að notkun þess fari vaxandi. Kókaín hefur þótt mjög dýrt á Íslandi og mun dýrara en til að mynda amfetamín sem er annað örvandi fíkniefni. Engar vísbendingar hafa fundist um krakknotkun á Íslandi [heimild vantar].

Þessi grein er stubbur sem ekki hefur verið settur í undirflokk.
  Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana, eða með því að flokka hana betur.