Kennaraháskóli Íslands
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
![]() |
|
Stofnaður: | 1907 |
Gerð: | Ríkisháskóli |
Rektor: | Ólafur Proppé |
Nemendafjöldi: | 2.300 |
Staðsetning: | Reykjavík, Ísland |
Vefsíða |
Kennaraháskóli Íslands er háskóli fyrir kennaramenntun á Íslandi. Skólinn menntar fyrst og fremst stéttir sem starfa við kennslu og umönnunarstörf og rannsóknir. Nemendur skólans eru um 2300 á B.A., B.Ed. og B.S. sviði en einnig er hægt að stunda við skólann diplómunám og framhaldsnám til M.A. og doktorsprófs.
Efnisyfirlit |
[breyta] Fjarnám og upplýsingatækni
Kennaraháskólinn hefur lagt áherslu á fjarnám og nám sem notar ýmsa tæknimiðla. Rúmlega helmingur nemenda skólans stundar fjarnám.
[breyta] Saga
Kennaraskóli Íslands var stofnaður með lögum árið 1907 en kennslan hófst haustið 1908 í nýreistu húsi að Laufásvegi 81. Það hús er kallað Gamli kennaraskólinn og er nú friðað. Kennaramenntun á Íslandi hófst í Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1892, fyrst sem stutt námskeið og síðar sem viðbótarbekkur við gagnfræðaskóla. Kennaraskólinn var í fyrstu þriggja ára skóli en var lengdur í fjögur ár árið 1943. Við skólann var starfrækt æfingadeild fyrir æfingakennslu kennaranema. Frá árinu 1947 voru inntökuskilyrði í kennaranám landspróf og gagnfræðapróf en fram að þeim tíma var algengt að nemendur kæmu í skólann eftir eitt eða tvö ár í héraðsskóla, gagnfræðaskóla eða öðrum framhaldsskólum. Auk þess mátti ljúka kennaranámi á einu ári eftir stúdentspróf og var það gert í sérstakri stúdentsdeild.
Fyrsti áfangi nýbyggingar Kennaraháskólans við Stakkahlíð var tekinn í notkun árið 1962. Á lóð skólans var reistur barnaskóli sem tók við hlutverki æfingadeildarinnar. Hann hét áður Æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands en heitir nú Háteigsskóli og er einn af grunnskólum Reykjavíkur án sérstakra tengsla við Kennaraháskólann. Eftir 1990 hefur vaxandi áhersla verið lögð á framhaldsnám og útskrifuðust fyrstu nemendurnir með M.Ed. gráðu árið 1996.
Nýjar námsbrautir bættust við þegar Kennaraháskólinn, Fósturskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Þroskaþjálfaskólinn voru sameinaðir í ársbyrjun 1998. Nú fara fram viðræður um mögulega sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.
[breyta] Húsakynni
Aðalbygging Kennaraháskólans er við Stakkahlíð. Þar var tekin í notkun nýbyggingin Hamar árið 2002. Kennsla í list- og verkgreinum fer fram í Listgreinahúsi skólans í Skipholti 37. Skrifstofur margra kennara og stofnana innan skólans eru í Skipholti og Bolholti. Íþróttanám fer fram í Íþróttafræðasetri skólans á Laugarvatni.