Ágústa Eva Erlendsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ágústa Eva Erlendsdóttir (fædd 28. júlí 1982) er íslensk söng- og leikkona. Hún er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Silvía Nótt og sem söngkona hljómsveitarinnar Ske.

Ágústa er næstyngst fimm systkina. Hún ólst upp í Hveragerði en flutti á unglingsárunum til Hafnarfjarðar og gekk í Víðistaðaskóla. Hún hóf nám við Menntaskólann í Kópavogi en lauk ekki námi. Hún var virk í leiklist og söng, enda eru það hennar helstu áhugamál. Einnig er hún flink við að teikna og dundar sér oft við það.

Ágústa tók þátt í leiksýningum hjá Leikfélagi Kópavogs, t.d. Memento Mori.

Árið 2004 lék hún í Hárinu, en leikstjóri var Rúnar Freyr Gíslason og tónlistarstjóri Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Í hlutverki Bergers var Björn Thors.

Árið 2005 hlaut Ágústa og/eða Silvía Nótt, 2 Eddur á Edduverðlaununum. Silvía var valin sjónvarpsmaður ársins og þátturinn hennar Sjáumst með Silvíu Nótt var valinn skemmtiþáttur ársins.

Árið 2006 var hún fengin til að leika í bíómyndinni Mýrinni sem gerð var eftir samnefndri bók eftir Arnald Indriðason. Þar leikur hún dóttur Erlends, Evu Lind sem er fíkniefnaneytandi.

Á öðrum tungumálum