Spjall:Karl Marx

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Er orðið "þráttahyggja" viðtekið samheiti fyrir díalektík? Samkvæmt orðabanka íslenskrar málstöðvar má snúa enska orðinu dialectic sem "tvíhorfsþróun [skilgr.] sú þróun, að mál skýrast af rökræðu um andstæð sjónarmið". Ég finn engar heimildir um þráttahyggju (og raunar engar á netinu um notkun orðsins tvíhorfsþróun heldur). Hins vegar er eingin efi á að í íslenskri stjórnmálaumræðu og eins í heimspeki hefur þýska orðið dialektik (úr grísku dialektike), sem Hegel notaði sem og Marx og Engels, ekki verið þýtt heldur notað í forminu díalektík. - Masae 14. júlí 2006 kl. 22:13 (UTC)

Í heimspeki hefur verið talað um þráttarhyggju og þráttarefnishyggju. Orðið er komið frá Þorsteini Gylfasyni, sjá bókina Tilraun um manninn (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1970). Það er rétt að orðið „díalektík“ er líka notað en það er tvímælalaust óvandaðra mál. Mér finnst að díalektík ætti að verða tilvísun á þráttahyggju. --Cessator 14. júlí 2006 kl. 22:54 (UTC)
Í Orðabók háskólans fannst m.a. þessi tilvitnun í Skírnisgrein frá 1982: „Helstu þættir alræðishyggju er söguhyggja (e. historicism), heildarhyggja [e. holism] og þráttarhyggja (e. dialectic) - „hin vanheilaga þrenning“.“ Ég held að þetta sé meira að segja tilvísun í Þorstein Gylfason þótt það komi ekki fram. --Cessator 14. júlí 2006 kl. 23:13 (UTC)
Persónulega hef ég aldrei heyrt annað notað en díalektík. Hins vegar þykir mér þráttarhyggja vera ágætisorð (líkt og mörg fleiri nýyrði frá Þorsteini Gylfasyni), og ef það er almennt þekkt og notað meðal heimspekinga á Íslandi finnst mér engin ástæða til annars en nota það þótt það kunni að vera „nýtt“. Það hljómar einhvern veginn ekki sérstaklega vel (af sögulegum ástæðum) að íslenska latnesk og grísk orð beint - samanber að ef valið stendur milli þess að nota orðið kvikmynd og bíómynd í alfræðiriti myndu held ég flestir kjósa það fyrra sem greinarheiti þótt hugsanlega noti mun fleiri það síðara. --Akigka 15. júlí 2006 kl. 03:28 (UTC)
Eigi skal við Þorstein þræta. En þó er ég nú ekki sammála því að þráttarhyggja sé sérlega gott orð fyrir díalektíkina (þó að heimildir sé fyrir að sögnin þræta hafi áður einnig náð yfir rökræður er það ekki í skilningi venjulegra málnotenda). Og það má aðeins efast um að það hafi náð fótfestu meðal íslenskara málnotenda, hvort sem þeir eru heimspekingar eða ekki. Þar má annars vegar til telja að þrátt fyrir að orðið hafi fyrst verið notað 1970 er ekki hægt að sjá spor af því í netskrifum og hins vegar að Orðabanki íslenskrar málstöðvar gefur það ekki sem mögulega þýðingu. Og svo ég haldi mig við sama heygarðshornið, þá má velta fyrir sér hvort sé nýtara fyrir notendur uppsláttarverks að velja sem höfuðorð, tökuorð af grískum uppruna sem hefur langa notkunarhefð og margir nota eða íslenskt nýyrði sem fáir nota. Ekki síst þegar hvorugt orðið er gagnsætt. - Masae 17. júlí 2006 kl. 15:46 (UTC)
Orðið er ekki myndað af sögninni þræta heldur nafnorðinu þrátt. Annars hefur díalektík hér (þ.e. hjá Marx og Hegel) nánast ekkert með rökræður að gera heldur og tengsl þess við grískar rætur sínar þarfnast útskýringa hvort sem er. Orðabankinn er mjög takmarkaður, þægilegur þegar orðin eru til í honum en af vöntun þeirra skyldi ekki draga neinar ályktanir. Og netskrif manna eru auðvitað ekki mælikvarði á neitt heldur. --Cessator 17. júlí 2006 kl. 18:18 (UTC)
Ekki er beinlínis hægt að segja að þráttarhyggjan verði gagnsæjari við þessar upplýsingar og ekki skiljanleg án útskýringar frekar en það orð sem án efa er mun algengari í notkun, nefnilega díalektík. - Masae 17. júlí 2006 kl. 19:44 (UTC)