Hljóðfæri
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hljóðfæri er tæki sem notað er til að spila tónlist. Í raun og veru getur allt sem framkallað hljóð verið hljóðfæri og verið stjórnað af tónlistarmanni. Venjan er hinsvegar sú að miða við það sem er sérstaklega gert til þess. Hljóðfærum er skipt upp í nokkra flokka eftir því hvernig þau búa til hljóð:
- Ásláttarhljóðfæri framkalla hljóð þegar þau eru slegin, þó hljóðið sem kemur getur bæði haft skýra tónhæð eður ei, þetta fer þó eftir hljóðfærinu.
- Blásturshljóðfæri mynda hljóðið með titringi loftsúlu innan í þeim. Tíðni bylgjunnar sem kemur fer eftir lengd loftsúlunnar og lögun hljóðfærisins, á meðan hljómblær hljóðsins fer eftir byggingu hljóðfærisins og hvernig hljóðið er framkallað. Þessi flokkur hljóðfæra er venjulega skipt niður í Tréblásturshljóðfæri og Málmblásturshljóðfæri
- Rödd , þ.e.a.s. mannsröddin er oft flokkað sem hljóðfæri út af fyrir sig. Söngvari framkallar hljóð þegar loftflæði frá lungum kemur af stað titringi í raddböndum.
- Strengjahljóðfæri framkalla hljóð þegar strengur er plokkaður, strokinn, sleginn, og svo framvegis. Tíðnin bylgjunnar fer eftir lengd þess hluta strengsins sem titrar, massa hans, spennu og á hvaða punkti strengurinn er örvaður. Hljómblærinn fer síðan eftir hönnun þess rýmis sem hljóðið hermast í.
- Rafhljóðfæri búa til hljóðið með því að beita raftækni. Oft líkja þau eftir öðrum hljóðfærum í hönnun, einkum hljómborð.
- Hljómborðshljóðfæri eru öll þau hljóðfæri sem nota hljómborð til spilunar. Hver lykill gefur eitt eða fleiri hljóð frá sér, mörg hljóðfæri bjóða upp á möguleika til þess að hafa áhrif á hljóðin, t.d. píanó hefur pedala til þess. Hljóðfærin geta framkallað hljóðin með blástri (orgel), titringi strengja sem geta þá verið slegnir (píanó) eða plokkaðir (semball).