Ævar Örn Jósepsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ævar Örn Jósepsson (fæddur 25. september 1963 í Hafnarfirði) er íslenskur útvarpsmaður og rithöfundur.
Efnisyfirlit |
[breyta] Menntun
Ævar gekk í Lækjarskóla og lauk grunnskólanámi (9. bekk, sem samsvarar 10. bekk nútímans) í Flensborg eins og aðrir Hafnfirðingar í þá tíð. Flutti í Skilmannahreppinn ásamt foreldrum og hundi sumarið 1979 og stundaði nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi (nú Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi). Skrapp sem skiptinemi til Belgíu með ICYE (nú AUS) sumarið 1981 og dvaldi meðal Belga fram á sumarið 1982. Þar lærði hann að meta bjór og franskar með majónesi að verðleikum.
Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðabraut í desember 1983, eftir 7 anna nám. Þá flutti hann til Reykjavíkur strax í janúar 1984 og hóf störf við Landsbanka Íslands, í gjaldeyrisdeildinni í aðalbankanum.
Hann lauk Magisterprófi frá Albert-Ludwigs Universität í Freiburg í Þýskalandi, 1994, í heimspeki og enskum bókmenntum. Áður stundaði hann nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki við háskólann í Stirling, Skotlandi á árunum 1986 til 1987.
[breyta] Starfsferill
Ævar hefur annast dagskrárgerð í útvarpi, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1995, aðallega í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum. Jafnframt var hann umsjónarmaður Sunnudagskaffis Rásar 2 veturinn 2004 – 2005 og spurningakeppni fjölmiðlanna páskana 2004, 2005 og 2006.
Einnig hefur hann unnið við blaðamennsku með hléum, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1994, m.a. á Morgunpóstinum, Vísi.is, tímaritinu Skýjum o.fl.
Þýðingar í lausamennsku, ýmsar greinar, skýrslur, sjálfshjálparbækur o.fl. Bankastarfsmaður frá 1984 – 1986, dagskrárgerð í sjónvarpi 1986 (Poppkorn með Gísla Snæ Erlingssyni), og í útvarpi 1987 og 1988. Poppskríbent Þjóðviljans einhvern tímann á þessu tímabili.
[breyta] Útgefið efni
- Sá yðar sem syndlaus er; (2006). Skáldsaga, útgefandi Uppheimar.
- Blóðberg; (2005). Skáldsaga, útgefandi Mál og Menning.
- Línudans; (2004). Smásaga, birt í Tímariti Máls og menningar og þýsku smásagnasafni.
- Svartir englar; (2003). Skáldsaga, útgefandi Almenna bókafélagið. Útvarpsleikrit unnið upp úr sögunni og flutt sumarið 2004. Útgáfuréttur seldur til Þýskalands og Hollands.
- Skítadjobb; (2002). Skáldsaga, útgefandi Mál og menning.
- Taxi; (2002). 101 saga úr heimi íslenskra leigubílstjóra. Útgefandi Almenna bókafélagið.
[breyta] Viðurkenningar
- 2004: Svartir englar tilnefndir til Glerlykilsins 2005 sem besta íslenska glæpasagan.
- 2006: Blóðberg tilnefnd til Glerlykilsins 2007 sem besta íslenska glæpasagan.
[breyta] Annað
Ævar var kjörinn formaður SKS, Skandinaviska Kriminalsällskapet, 2004, og endurkjörinn árin 2005 og 2006.