Steypireyður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steypireyður
Steypireyður við Asóreyjar.
Steypireyður við Asóreyjar.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Ætt: Reyðarhvalir (Balaenopteridae)
Ættkvísl: Reyðar (Balaenoptera)
Tegund: Steypireyður (B. musculus)
Fræðiheiti
Balaenoptera musculus
Linnaeus (1758)

Steypireyður (fræðiheiti: Balaenoptera musculus), einnig kölluð bláhvalur, er hvalategund.

Steypireyður er stærsta spendýr jarðar. Fullvaxin getur hún orðið rúmlega 30 metrar að lengd. Hún getur orðið allt að 150 tonn á þyngd og allt að 200 tonn þegar hún gengur með afkvæmi.

Steypireyður lifir á svifum og étur um 4 tonn af þeim á dag. Hún gerir það með því að gleypa mikinn sjó og spýta honum út úr sér aftur í gegnum skíðin. Á skíðunum eru hár sem svifin festast í og verða þannig eftir í munni steypireyðarinnar. Að lokum kyngir hún svifunum.

Steypireyðar lifa í öllum höfum jarðar. Talið er að heildarfjöldi steypireyða á jörðinni sé á bilinu 6500 til 14000. Tegundin var ofveidd á síðustu öld og fækkaði gífurlega og er nú talin í útrýmingarhættu. Steypireyður er alfriðuð frá árinu 1966.

Meðgöngutími steypireyða er rúmlega 11 mánuðir og langalgengast er að steypireyðarkýrin gangi með einn kálf í einu, þó stöku sinnum sjáist til steypireyðar með tvo kálfa. Um 2-3 ár líða á milli burða hjá hverri steypireyði. Við fæðingu eru steypireyðarkálfar 7-8 metrar að lengd og um 2 tonn á þyngd. Kálfarnir vaxa hratt og þyngjast um u.þ.b. 90 kg á sólarhring, enda drekka þeir um 300 lítra af mjólk á dag. Kálfarnir eru á spena í 6 til 8 mánuði. Að þeim tíma loknum eru þeir orðnir um 16 metrar langir.

Talið er að steypireyðar geti náð um 80-90 ára aldri.

Steypireyður gefur frá sér lágtíðnihljóð sem mannseyrað greinir ekki. Tarfar í makaleit gefa frá sér baul sem mælist allt að 188 desibel og er það hæsta hljóð sem dýr gefur frá sér á jörðinni.

[breyta] Heimildir

[breyta] Tenglar