Dragnót
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dragnótin var fundin upp í Danmörku árið 1848 af Jens Væver. Sagan segir, að Jens þessi hafi verið á leið í apótekið, þegar sú hugmynd heltók hann, að unnt væri að fiska með strandvoð þeirra tíma, lengra frá ströndinni og draga voðina upp í bát, sem lægi við festar. Jens, þá 26 ára var fljótur að hrinda hugmynd sinni í framkvæmd. Gekk þetta hálfbrösuglega í byrjun, eins og títt er með tilraunir, en bráðlega hafði hann þróað hugmynd sína það vel að 4000 kolar á dag var orðin afar viðráðanleg stærð. Gat Jens nú gengið inn í hvaða starf sem var, þar á meðal herinn auk þess sem hann var gerður að heiðursborgara í bæ sínum, Skive. Eru þeir fáir frumkvöðlarnir í veiðarfærabransanum sem hafa hlotið viðlíka upphefð.
Skilgreining dragnótar, eða snurvoðar, er því eins og um ádráttarnet væri að ræða, að því frátöldu, að veiðarfærið er ekki dregið upp á þurrt heldur upp í veiðiskip. Dragnótin er ávallt útbúin með poka og sérstökum dragstrengjum, oft býsna löngum. Hún er mest notuð til flatfiskaveiða, en er einnig notuð til botnfiskveiða. Dragnótin er notuð allt í kringum land á 30-120 metra dýpi, þó langmest sé veitt á dýpi frá 40-60 metra.
Net dragnótarinnar getur verið sett upp á sama hátt og um botnvörpu væri að ræða. Má þar nefna V-trollið, sem ýmist er notað með hlerum sem troll, eða án hlera sem dragnót. Oftar er þó nokkur munur á netinu, og er þar fyrst að nefna að vængir dragnótar eru hlutfallslega lengri en vanalega tíðkast um troll.
Lágmarksmöskvastærð í dragnót er eins og í botnvörpum ýmist 135 mm eða 155 eftir veiðisvæðum. Við dragnótaveiðar verður að leggja annan dragstrenginn fyrst, síðan voðina sjálfa og loks hinn strenginn.
Eftir að kastað hefur verið, er um tvær mismunandi veiðiaðferðir að ræða. Sú eldri er að draga voðina að bátnum liggjandi fyrir föstu. Sú aðferð er víða algeng, en er þó á undanhaldi og þekkist alls ekki á Íslandi núorðið. Hin aðferðin er að hafa bátinn lausan, og er það kallað að draga fyrir lausu.
Þar sem dragnótin er dregin fremur hægt er tiltölulega auðvelt fyrir kafara að fylgjast með henni í drætti og athuga viðbrögð fiska við veiðarfærinu. Þegar dráttarstrengirnir nálgast skarkolann hrekkur nánast allur kolinn hornrétt út frá tóginu inn að voðinni. Þannig smalast kolinn saman í átt að netopinu. Ýsan hegðast sér öðruvísi að því leyti að hún syndir á ská út frá tóginu en stundum áræðir hún þó að synda yfir það og sleppur.
Eins og öll önnur veiðarfæri hefur dragnótin bæði sína kosti og galla. Svo að fyrst sé vikið að göllunum þá er þessi veiði mjög bindandi fyrir áhöfn. Við íslenskar aðstæður tekur um 15 mínútur að kasta, þegar mjög grunnt er togað, upp í 30 mínútur að draga og loks tekur um 20 mínútur að hífa. Því er ljóst, að híft er á um það bil klukkustundar fresti, en við togveiðar er oft ekki híft nema 4-6 sinnum á sólarhring, ef verið er á góðum botni. Þá dregur það úr ágæti dragnótaveiða, að þær eru að mestu einskorðaðar við góðan botn og grunnt vatn, auk þess sem veiðarfærið er all dýrt.
Helstu kostir dragnótar eru þeir, hversu góðum fiski hún skilar. Smáfiskur veiðist því í minna mæli en í botnvörpu af sömu möskvastærð. Einkum á þetta við um þorsk. Unnt er líka að nota afllítil skip við þessar veiðar og nýta smábleyður, þar sem trolli verður tæpast komið við. Dragnótin eyðileggur botninn ekki eins mikið og þung botntroll geta gert.