Davíð Stefánsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Davíð Stefánsson skáld, sem kenndur er við Fagraskóg, fæddist í Fagraskógi þann 21. janúar árið 1895. Faðir Davíðs var Stefán Stefánsson bóndi og síðar alþingismaður og móðir hans var Ragnheiður Davíðsdóttir frá Hofi í Hörgárdal.

Davíð lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1911. Á árunum 1915–1916 dvaldist Davíð í Kaupmannahöfn og hófst skáldaferill hans þar. Síðar hóf hann nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1919, en það ár kom fyrsta ljóðabók hans út, hún ber heitið Svartar fjaðrir.

Davíð dvaldist öðru hvoru erlendis, m.a. í nokkra mánuði á Ítalíu árið 1920 og svo í Noregi 1923. Árið 1925 tók Davíð við föstu starfi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri, hann lét formlega af störfum sem bókavörður árið 1951.

Davíð samdi ekki einungis ljóð heldur gaf hann einnig út nokkur leikrit og skáldsögur.

  • Munkarnir á Möðruvöllum, 1926
  • Gullna hliðið,
  • Sólon Íslandus I-II, 1941 (Skáldsaga um Sölva Helgason).
  • Vopn guðanna, 1944
  • Landið gleymda, frumsýnd árið 1953 en gefið út 1956.

Alls komu út 10 ljóðabækur eftir Davíð, en þær eru (í réttri röð)

  1. Svartar fjaðrir, 1919
  2. Kvæði, 1922
  3. Kveðjur, 1924
  4. Ný kvæði, 1929
  5. Í byggðum, 1933
  6. Að norðan, 1936
  7. Ný kvæðabók, 1947
  8. Ljóð frá liðnu sumri, 1956
  9. Í dögun, 1960
  10. Síðustu ljóð, 1966 (gefið út eftir dauða Davíðs)


Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lést á Akureyri þann 1. mars árið 1964. Hann er grafinn á Möðruvöllum í Hörgárdal en þar hvíla einnig foreldrar hans og önnur ættmenni.

[breyta] Heimildir

Ljóðasafn Davíðs Stefánssonar sem Vaka-Helgafell gaf út árið 1995