Ólafsfjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafsfjarðarbær (til 2006), áður Þóroddsstaðahreppur
Enlarge
Ólafsfjarðarbær (til 2006), áður Þóroddsstaðahreppur

Ólafsfjörður er bær við samnefndan fjörð utarlega á Tröllaskaga í sveitarfélaginu Fjallabyggð. Bærinn byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi en landbúnaður er stundaður í dalnum þar inn af.

Þéttbýli fór að myndast í Ólafsfjarðarhorni undir lok 19. aldar og varð það að löggiltum verslunarstað 20. október 1905. Árið 1917 var nafni hreppsins breytt í Ólafsfjarðarhrepp, en fram til þess hafði hann heitið Þóroddsstaðahreppur, eftir bænum Þóroddsstöðum sem er í miðri sveit. Kaupstaðarréttindi fékk Ólafsfjörður árið 1945. Í janúar 2006 samþykktu Ólafsfirðingar og Siglfirðingar að sameina bæina tvo í eitt sveitarfélag. Sameiningin gekk í gildi 11. júní 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum 27. maí. Í kosningu um nýtt nafn sem fór fram samhliða varð tillagan Fjallabyggð ofaná.

Eina heilsársvegtenging bæjarins er í gegnum Múlagöng austur í Eyjafjörð en til vesturs liggur vegur yfir Lágheiði yfir í Fljót sem oft er ófær á veturna. Í bígerð er að bæta tengingu til Siglufjarðar með Héðinsfjarðargöngum og var það ein helsta forsenda þess að af sameiningu bæjarfélaganna gæti orðið.

[breyta] Tengill

Á öðrum tungumálum