Veður
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Veður er notað um hvers kyns fyrirbrigði sem geta átt sér stað í lofthjúp jarðarinnar (eða annarra reikistjarna). Yfirleitt er orðið veður aðeins notað um skammtímafyrirbrigði, sem sjaldan vara í meira en nokkra daga. Fyrirbrigði í lofthjúpnum sem vara í mikið lengri tíma eru vanalega kölluð loftslag eða veðurfar.
Veðurfyrirbrigði eiga oftast rætur sínar að rekja til hitamismunar á mismunandi stöðum á hnettinum, sem orsakast meðal annars af því að svæði nálægt miðbaug fá meiri orku frá sólinni en svæði sem eru nær heimskautunum. Önnur orsök hitamismunar á jörðinni er að mismunandi yfirborð, svo sem úthöf, skóglendi og jöklar, drekka í sig mismikið ljós og hitna því mismikið þegar sólin skín á þá.
Mismunandi hitastig veldur því að heitara eða kaldara loft rís eða sekkur. Þegar heitt loft þenst út og lyftist upp vegna minni eðlisþyngdar, sogast kaldara loft inn í staðinn, sem veldur vindum á yfirborðinu. Vegna Coriolis kraftsins leitar loft sem ferðast eftir yfirborðinu til vinstri eða hægri (eftir því hvort það er á norðurhveli eða suðurhveli), og verða því til veðrakerfi, svokallaðar hæðir og lægðir. Ef lægðir eru öflugar geta þær orðið að hvirfilbyljum.