Linkin Park

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipedia. Skoðaðu sýnigreinina og nafnavenjurnar til að bæta hana.

Linkin Park er númetal/rappmetal (sveitin blandar saman rappi, rokki og raftónlist)-hljómsveit frá Los Angeles í Bandaríkjunum. Sveitin er yfirleitt talin sigursælasta sveitin í sínum geira, aðallega fyrir sína fyrstu breiðskífu, Hybrid Theory, frá árinu 2000, en sú plata hefur selst í yfir 20 milljónum eintaka um allan heim.

Efnisyfirlit

[breyta] Saga

[breyta] Fyrstu árin

Tveir af núverandi meðlimum, Mike Shinoda og Brad Delson, stofnuðu sveitina í sinni fyrstu mynd, í kringum 1995 eða 1996. Þeir komu þá saman heima hjá Shinoda, þar sem hann átti smávegis búnað til taktsmíða, og Delson spilaði á gítar. Delson spilaði þá á gítarinn, tölva sá um að spila takt, og Shinoda rappaði yfir. Ekki löngu síðar kom gekk vinur þeirra Rob Bourdon til liðs við þá, og tók við trommuleiknum. Kumpánarnir þrír nefndust í fyrstu SuperXero, en breyttu nafninu fljótlega í Xero. Delson og Bourdon höfðu áður verið saman í hljómsveit sem nefndist Relative Degree. Tónlistin sem þeir þá spiluðu var einungis frumstætt form af því sem átti síðar eftir að verða. Þeir þrír voru saman í miðskóla, en þegar í háskóla kom, skildu leiðir. Delson kynntist í háskóla manni að nafni Dave Farrell, og urðu þeir herbergisfélagar. Farrell var bassaleikari, og áttu þeir tveir til að spila örlítið saman. Shinoda aftur á móti, kynntist plötusnúðnum Joseph Hahn í sínum háskóla. Farrell og Hahn voru svo teknir inn í sveitina sem bassaleikari og plötusnúður, og Mark Wakefield var fenginn til að syngja. Þetta var í kringum 1996.

Þarna var semsagt komin þessi 6 manna uppstilling sem átti að mestu eftir að haldast. Fyrir utan að spila rokk, var í sveitinni plötusnúður (Hahn) sem sá um tölvutakta, hljóðblöndun, hljóðgervil og hljómborð og framkallaði þannig fram hin ýmsu hljóð til viðbótar við metalhljóm sveitarinnar. Strax í þá daga var það fyrirkomulag komið á sem enn gildir yfirleitt, að rapparinn rappar erindin, en söngvarinn syngur og/eða öskrar viðlögin og millikaflana.

Sveitin reyndi fyrir sér á Los Angeles-svæðinu, þá með þeim hefðbundnu aðferðum að spila á litlum klúbbum, og að senda plötufyrirtækjum prufuupptökur af lögunum sínum. Þær tók sveitin upp á spólu, eða kassettu, og nefndist hún Xero demo tape, og voru á henni fjögur lög, Reading my eyes, Stick 'n' move, Rhinestone, og Fuse. Rhinestone átti síðan eftir að komast inn á Hybrid Theory, undir nafninu Forgotten (Rhinestone er yfirleitt af aðdáendum talið fyrsta demóið að Forgotten), og gítarleikurinn í Stick 'n' move varð grunnurinn að öðru lagi á Hybrid Theory, Runaway.

Spólan var tekin upp við vægast sagt slæmar aðstæður, sem greinilega endurspeglast í hljómgæðum spólunnar. Þrátt fyrir það eru lögin af henni talin skyldueign meðal "almennilegra" Linkin Park-aðdáenda, en margir hafa þó orðið til þess að biðja hljómsveitina að taka lögin upp á ný (þau 3 sem aldrei komust lengra), í almennilegu hljóðveri, og endurútgefa. Sveitin hefur lítið gefið fyrir þær óskir, en tók þó upp á því til gamans að spila eitt laganna, Reading my eyes, á tónleikum í Japan á Summer Sonic-hátíðinni um miðjan ágúst 2006, þegar sveitin kom saman til að spila, sína fyrstu tónleika í fullri lengd síðan snemma árs 2005.

Spólan fékk dræmar viðtökur, ef einhverjar, og stuttu seinna hætti Wakefield sem söngvari til að einbeita sér að vinnu sinni. Hljómsveitin hélt þá prufur til að finna nýjan söngvara, en lítið gekk. Það var ekki fyrr en athygli þeirra beindist að söngvara sem var í leit að hljómsveit sem hjólin fóru að snúast. Það var sameiginleg lögfræðiskrifstofa, sem sá um mál beggja, sem leiddi þá saman. Söngvari þessi hét Chester Bennington.

Þegar félagarnir höfðu náð sambandi við Bennington sendu þeir honum upptökur af lögunum sínum, án söngs. Söngvarinn var það hrifinn að lögum þeirra að hann yfirgaf sína eigin afmælisveislu og stökk beint inn í hljóðver þar sem hann samdi og tók upp sína parta fyrir lögin. 12 tímum síðar hringdi hann í Xero-menn og spilaði upptökurnar með sínum viðbótum fyrir þá í gegnum símann, og þeir hrifust af rödd hans og buðu honum að fljúga til Los Angeles með möguleika á að ganga til liðs við sveitina, sem hann svo gerði, ekki löngu síðar.

Með Bennington innanborðs sá sveitin sér leik á borði og sendi plötufyrirtækjum nýjar upptökur með nýjum lögum, en lítið gekk. Einnig kom það í ljós að Áströlsk hljómsveit frá 8. og 9. áratugnum bar nafnið Xero, og neyddist sveitin því til að skipta um nafn, og varð "Hybrid Theory" fyrir valinu. Mannabreytingum var ekki lokið, því á þessum tíma tók bassaleikarinn Farrell sér frí frá Hybrid Theory til að fara á tónleikaferðalag með sinni gömlu sveit, The Snax. Um svipað leyti var EP kynningarplata tekin upp og gefin út af sveitinni sjálfri, og við bassaleiknum á þeirri plötu tóku gítarleikarinn Delson, og annar bassaleikari að nafni Kyle Christner. EP platan hlaut nafn sveitarinnar, og er í dag kölluð Hybrid Theory EP. Þetta var árið 1999. Hún var einungis gefin út í um 1000 eintökum upphaflega, og þykir einstaklega verðmætur safngripur meðal Linkin Park-aðdáenda. Til eru dæmi um að eintök hafi selst á allt upp í nokkur hundruð þúsund íslenskar krónur. Nánast öll af þessum 1000 eintökum fóru annaðhvort til plötufyrirtækja, eða meðlima þess sem kallað er "street team" á ensku, sem var þá nýstofnað. "Street team" sér um að kynna hljómsveitina, með hinum ýmsu aðferðum, svo sem á netinu, á götum úti með veggspjöldum og fleiru.

EP platan varð til þess að sveitin fékk samning hjá Warner Brothers þetta sama ár. Annar þáttur sem þykir hafa skipt sköpum er sá að gítarleikarinn Delson var á þessum tíma lærlingur hjá útsendara hjá WB. Samningurinn kom sveitinni á kortið, og við tóku löng tónleikaferðalög um öll Bandaríkin, og víðar. Um bassaleik þar sá maður að nafni Scott Kozial, en honum sést bregða fyrir í myndbandi Linkin Parks við lagið "One step closer", af plötunni Hybrid Theory.

Í ljós kom svo að sveitin þyrfti aftur að skipta um nafn. Í þetta skiptið vegna deilna um höfundarrétt við breska raftónlistarsveit sem nefndist Hybrid. Þess má geta að á hinni ensku Wikipediu er það sérstaklega tekið fram að sú sveit sé að stórum hluta þekkt fyrir að vera sveitin sem neyddi Linkin Park til að breyta um nafn. Nokkrar tillögur um ný nöfn voru í gangi meðal hljómsveitarmeðlima, svo sem Ten P.M. Stocker (þeir tóku oft upp seint á kvöldin við götu sem nefnist Stocker Street), Platinum lotus foundation, Probing lagers, og Clear, en að lokum varð Linkin Park fyrir valinu, að tillögu söngvarans, Benningtons, en á hverjum degi fyrir upptökur keyrði hann fram hjá garði í Santa Monica sem hét Lincoln Park, en garður þessi heitir í dag Christine Reed Park. Almenningsgarðar að nafni Lincoln Park eru að sögn algengir um gervöll Bandaríkin, og pælingin hjá hljómsveitinni á víst að hafa verið sú að undir þessu nafni myndi fólk á tónleikunum þeirra halda að þeir væru heimamenn, ekki aðkomuhljómsveit. Stafsetningunni var breytt til að sleppa við þann mikla kostnað sem fælist í að kaupa lénið lincolnpark.com, en markaðssetning á netinu hefur alla tíð verið stór þáttur hjá sveitinni. Fyrstu árin var venjan að prufuupptökur fengjust á þáverandi heimasíðu sveitarinnar, og eru þær í dag eign margra Linkin Park-aðdáenda, en með því að samningur fékkst hjá Warner Brothers var klippt á allt slíkt, og prufuupptökur fyrir seinni plötur sveitarinnar eru ófáanlegar. Plötusnúðurinn Hahn grínast oft með að þær séu grafnar í garðinum hjá honum.

[breyta] Á toppinn

24. október árið 2000 kom fyrsta breiðskífa sveitarinnar út, Hybrid Theory, og 17. desember spilaði hljómsveitin á sínum fyrstu virkilega stóru tónleikum þegar hún tók þátt í atburði sem nefndist Almost Acoustic Christmas, sem útvarpsstöðin KROQ stóð fyrir. Shinoda samdi lag sérstaklega fyrir viðburðinn sem nefndist My December, og hefur það oft verið kallað jólalag sveitarinnar, þó það sé einungis að litlum hluta tengt jólum (hvað texta varðar) og sé spilað á velflestum tónleikum sveitarinnar í seinni tíð, og þá allan ársins hring. Hljóðversútgáfa af laginu birtist á fyrstu smáskífunni af Hybrid Theory, One step closer, sem og nokkrum útgáfum af Hybrid Theory víða um heim, en ekki í Bandaríkjunum.

Snemma árs sneri bassaleikarinn Dave "Phoenix" Farrell aftur frá verkefnum með The Snax. Um þessar mundir kom önnur smáskífa út, Crawling, og vann hún til Grammyverðlauna sem besta þungarokksframmistaðan árið eftir, 2002. Hljómsveitin lék á Ozzfest 2001 ásamt hljómsveitum á borð við Black Sabbath og Slipknot. Þetta sumar kom þriðja smáskífan, In the End, og reyndist hún stærsti smellur Linkin Park til þessa, en smáskífunni fylgdi frægt myndband, og þá að stórum hluta fyrir mikla grafík, eða meiri en hafði þekkst til þessa. Lagið er enn þann dag í dag vinsælasta lag sveitarinnar, og er iðulega leikið sem síðasta eða næstsíðasta lag fyrir uppklapp, en titilinn mætti einmitt þýða sem "að lokum". Um svipað leyti gaf sveitin út DVD-disk sem nefndist Frat party at the Pankake festive. Hann samanstóð af öllum tónlistarmyndböndum sveitarinnar ásamt heimildarmynd um lífið á ferðalögum hennar um heiminn til að kynna Hybrid Theory.

Í nóvember lagði vinur sveitarinnar til að stofnaður yrði opinber aðdáendaklúbbur. Það var og gert, og nefndist hann Linkin Park Underground, oft stytt í LPU. Fyrir árgjaldið sem greiða þarf fæst LPU-pakkinn, sem samanstendur af bol, dagatali, gítarnöglum, límmiðum, plaggötum, og geisladiski, en á disknum eru oft áðuróútgefin lög eða hliðarverkefni eða tónleikaupptökur, svo dæmi séu tekin. Þau eru þá ætluð dyggustu aðdáendunum til hlustunar, þeim sem tilbúnir eru að borga sérstaklega, en iðulega hefur lögunum verið leikið innan örfárra daga eða vikna eftir að meðlimir hafa fengið diskinn í hendur.

Fyrsta túrnum þar sem Linkin Park lék sem aðalnúmerið var hleypt af stokkunum árið 2002, og nefndist Projekt revolution. Sveitir á borð við Cypress Hill og Adema tóku þátt fyrsta árið, auk þess sem fleiri stór nöfn á borð við Korn hafa tekið þátt.

Snemma árs 2002 hafði Shinoda fengið í hendur slatta af EHB (endurhljóðblöndunum) af lögum sveitarinnar, og ákvað í kjölfarið að gefa út EP plötu með slíkum. Hann ætlaði sér í fyrstu einungis að endurhljóðblanda örfá lög, en ákvað síðar í samráði við hina í sveitinni að gera meira úr verkefninu. Úr þessu varð heljarinnar LP-plata, með 20 lögum. Platan innihélt EHB af lögum Hybrid Theory, auk laganna My December og High Voltage, intrós, og nokkurra milli"laga". Margir reyndu fyrir sér, en ekki komust allir á plötuna, svo sem Marilyn Manson, Chrystal Method, og Team Sleep, en meðal tónlistarmanna sem fengu inni á plötunni voru Jonathan Davis, Stephen Carpenter, Aaron Lewis, Black thought, Jay Gordon, og Stephen Richards. Platan hlaut nafnið Reanimation og var gefin út 30. júlí 2002. Hún hefur verið kölluð "cult favorite" upp á enska tungu, og hefur notið góðs fylgis neðanjarðar, en árangur í poppheiminum hefur reynst takmarkaður, en platan þykir einmitt æði tilraunakennd og hiphop-skotin.

[breyta] Meteora, Live in Texas, Collision Course

Sumarið 2002 hélt sveitin á ný í hljóðver, þar sem taka átti upp nýja plötu, sem átti að fylgja eftir Hybrid Theory. Platan hlaut nafnið Meteora, eftir frægum grískum kletti, sem hljómsveitarmeðlimir rákust á tímariti, að sögn. Fyrsta smáskífan, Somewhere I belong, kom út í febrúar 2003 við góðar viðtökur gagnrýnenda, og 25. mars kom breiðskífan síðan út. Meteora seldist í 810.000 eintökum fyrstu vikuna, og hefur í dag selst í hátt í 11 milljónum eintaka.

Til að kynna plötuna var öðru ári af Projekt Revolution hleypt af stokkunum, en upphitunaratriði fyrir sveitina voru meðal annarra Mudvayne og Xzibit. Önnur smáskífa, Faint kom út um það leyti sem PR lauk, og Linkin Park var stuttu síðar boðið að hita upp fyrir Metallicu á Summer Sanitarium túrnum fyrir árið 2003. Þar léku Mudvayne, Deftones, Linkin Park, Limp Bizkit og Metallica, í þessari röð á einum tónleikum hvern dagskrárdag túrsins, en þeir stóðu yfirleitt frá síðdegi og fram á kvöld.

[breyta] Meðlimir

[breyta] Núverandi

Brad Delson - gítar, bassi (lék einungis á bassa meðan bassaleikara vantaði) (frá 1996)

Rob Bourdon - trommur, slagverk (frá 1996)

Mike Shinoda - rapp, söngur, gítar, hljómborð, taktar, sömpl (frá 1996)

Chester Bennington - söngur, gítar (frá 1999)

Dave Farrell - bassi, selló, fiðla (1996-9 og frá 2001)

Joseph Hahn - skífuþeytingar, hljóðgervill, hljómborð, taktar, sömpl, gítar (frá 1996)

[breyta] Fyrrverandi

Scott Koziol-bassi/Kyle Christener-bassi/Mark Wakefield-söngur

[breyta] Útgefið efni

Xero Demo Tape - 1997, gefin út af sveitinni sjálfri

Hybrid Theory EP - 1999, gefin út af sveitinni sjálfri

Hybrid Theory - 2000, Warner Brothers

Reanimation - 2002, Warner Brothers/Machine Shop

Meteora - 2003, Warner Brothers/Machine Shop

Live in Texas - 2003, Warner Brothers/Machine Shop

Collision Course (ásamt Jay-Z) - 2004, Warner Brothers/Machine Shop/Roc-a-Fella Records

(væntanleg, hefur ekki enn hlotið nafn) - 2007, Warner Brothers/MachineShop