Norðurvegur ehf.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norðurvegur ehf. er félag sem stofnað var í febrúar 2005 í þeim tilgangi að undirbúa mögulega lagningu hálendisvegar til þess að stytta vegalengdina á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands. Stærsti hluthafinn í félaginu er KEA en Akureyrarbær á einnig stóran hlut. Nokkur önnur fyrirtæki með starfsemi á Akureyri eiga minni hlut, þar á meðal Hagar sem er stærsta fyrirtæki landsins á sviði smásöluverslunar.
[breyta] Stórisandur
Upphaflega var félagið stofnað í kringum tillögu um veg sem lagður yrði á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar með það að markmiði að stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Vegurinn yrði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, Stórasand og sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð þar sem hann tengist núverandi Þjóðvegi 1 í Norðurárdal. Vegur frá Borgarfirði um Kaldadal að Þingvöllum myndi svo stytta leiðina um aðra 40 km eða 82 kílómetra alls.
Einn helsti stuðningsmaður framkvæmdarinnar og sá sem stakk upp á heitinu „Norðurvegur“ er Halldór Blöndal sem ásamt fleiri þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu um verkefnið um vorið 2004. Gert var ráð fyrir að lagning vegarins á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar yrði einkaframkvæmd og að veggjald yrði innheimt á þeim kafla en kostnaðurinn við þann kafla var áætlaður 4,5 milljarðar króna. Vegurinn um Kaldadal yrði hinsvegar ríkisframkvæmd en sá vegur er reyndar nú þegar á vegaáætlun.
[breyta] Kjölur
Á aðalfundi félagsins 24. mars 2006 var tilgangi þess breytt þannig að í stað vegar yfir Stórasand muni það beita sér fyrir vegalagningu úr Skagafirði, yfir Eyvindastaðarheiði og yfir Kjöl en slíkur vegur myndi stytta leiðina á milli Akureyrar og Reykjavíkur um 35-40 kílómetra (styttingin á milli Norðurlands og Suðurlandsundirlendisins er meiri). Fallið var frá hinni upphaflegu hugmynd um Stórasandsveg vegna andstöðu við þá framkvæmd af umhverfisástæðum en sá vegur hefði legið í gegnum eitt stærsta ósnortna víðernið sem eftir er á hálendi Íslands auk þess sem hann hefði leitt mikla umferð í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum. Einnig komu upp efasemdir um að rétt væri að leggja veg í eins mikilli hæð og þau áform gerðu ráð fyrir.