Nasismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nasismi eða þjóðernisjafnaðarstefna (e. national socialism) er sú skoðun, að venjulegir jafnaðarmenn hafi rangt fyrir sér um það, að mannkynið greinist í stéttir, sem hafi ólíka hagsmuni. Þjóðirnar skipti meginmáli, vilji þeirra og þróttur. Í stað þess að leggja kapítalismann niður eigi að beita honum til að efla vöxt og viðgang þjóðanna. Ríkið eigi ekki að láta atvinnulífið afskiptalaust, eins og frjálshyggjumenn 19. aldar hafi hugsað sér, heldur stýra því styrkri hendi.

Í Þýskalandi náðu nasistar undir forystu Adolfs Hitlers völdum 1933 og héldu þeim fram til 1945 þegar Þýskaland var sigrað í Seinni heimstyrjöldinni. Nefndist flokkur þeirra „Die National-Sozialistische Deutsche Arbeiterpartei“ (Hinn þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkur), skammstafað N. S .D. A. P. Er orðið „nasisti“ runnið þaðan. Flokkar með svipaða stefnu höfðu völdin víða í Evrópu árin milli stríða, 1918-1939. Þótt nasistar hafi sjálfir kennt sig við jafnaðarstefnu eða sósíalisma, vilja venjulegir jafnaðarmenn ekkert við þá kannast, enda hafi þeir aðeins notað jafnaðarhugtakið í áróðursskyni. Í yfirlitsritum um stjórnmálastefnur er nasismi því oft ekki talinn með jafnaðarstefnum. Flokkur þjóðernissinna starfaði á Íslandi á 4. áratug, en hafði sáralítið fylgi.