Ívar Bárðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ívar Bárðarson var norskur prestur sem þekktastur er fyrir að hafa skilið eftir hina einu eiginlegu samtíðalýsingu á byggðum norrænna manna á Grænlandi. Þessi frásögn er helsta gagn sagnfræðinga í rannsóknum á sögu Grænlendinga hinna fornu. Hákon biskup í Björgvin (Bergen) sendi hann sem fulltrúa sinn að biskupssetrinu á Görðum 1341 og kom hann þangað 1347. Ívar var á Grænlandi sem officialis, umboðsmaður eða staðgengill biskups, enda enginn Grænlandsbiskup á þessum árum. Hann virðist hafa snúið aftur til Noregs um 1360. Upphafleg lýsing Ívars, sem gerð var á norsku, er týnd en er til í danskri þýðingu frá 17. öld í allmörgum afritum. Best varðveitt er handrit það í Den Arnamagnæanske Samling (Stofnun Árna Magnússonar) sem nefnt er AM 777 a 4to. Heitir ritið „Enn kortt Beschriffuellse om Grønnland, Om Segladsenn did henn saa och om Landtzens Beschriffuelse“ („Stutt lýsing á Grænlandi, siglingum þangað og lýsinga á landinu“). Er lýsingin oftast nefnd Det gamle Grønlands beskrivelse.

Ívar festi ekki sjálfur frásögn sína á blað heldur hefur einhver annar gert það, sennilega einhver handgenginn biskupi eða kóngi. Eða eins og segir í handritinu: „Jtem dette alt som forsagt er, sagde oss Jffuer Baardtsen Grønlænder, som war forstander paa biskobs garden, i Gardum paa grønnland udi mange aar, att hand haffde alt dette seett“. („Allt það sem hér er frá sagt var okkur sagt af Ívari Bárðarsyni Grænlendingi, sem var forstöðumaður á biskupssetrinu á Görðum í mörg ár, að hann hafði séð allt þetta.“).

Ekki er vitað hvenær frásögn Ívars var skrifuð og þá ekki heldur hversu löngu eftir það að hann sneri frá Grænlandi. Það gæti því eitt og annað hafa skolast til í minningunni og einnig gæti skrásetjari og líka þýðendur og endurritarar hafa bætt inn í eða brenglað frásögnina. Því taka sagnfræðingar Det gamle Grønlands beskrivelse með vissum fyrirvara. En ótvíræðar heimildir eru um að biskupinn í Bergen sótti ár 1341 um leyfi til að senda Ívar til Grænlands [1] og jafnframt að hann var orðinn kanúki við Kirkju postulana tólf í Björgvin árið 1364 [2].

Í Det gamle Grønlands beskrivelse lýsir Ívar nokkuð nákvæmlega byggð í Eystribyggð, telur upp firði og nefnir nokkur önnur landslagsheiti ásamt bæjarnöfnum og sérlega telur hann upp kirkjur og gerir sóknarlýsingar. Ívar er á Grænlandi um það bil 100 árum áður en byggð norrænna manna fer í eyði en ekki er á lýsingu hans að sjá annað en að í Eystribyggð hafi verið blómleg byggð og mikið mannlíf. Hins vegar er Vestribyggð þá farin í eyði og er byggðinni þar ekki í neinu lýst. Hins vegar er sagt frá för Ívars þangað: „hand war en aff dennem som war wdneffender aff Lagmanden at fare till westerbijgden emod de skrelinge att wddriffue de skrellinge, wdaff westerbijgd, och da de komme didt da funde de ingen mand, endten Christenn eller heden wden noget willdt fæ och faaer, och bespissede sig aff det willtt fæ, och toge saa meget som skiuene kunde berre och zeijlede saa der med hiemb och for(schreffne) Jffer war der med.“ („Hann var einn þeirra, sem voru tilnefndir af lögmanni að fara í Vesturbyggð á móti skrælingjunum, til að reka burtu skrælingjanna úr Vesturbyggð. En þegar þeir komu þangað fundu þeir enga menn, hvorki kristna né heiðna heldur einungis nokkra villta nautgripi og kindur. Átu þeir nokkra nautgripi og tóku svo mikið með sér sem skipin gátu borið og sigldu síðan heim. Í þessari ferð var áðurnefndur Ívar með.“)

Aftan við sjálfa lýsingu Ívars er í Det gamle Grønlands beskrivelse lýsing á hvernig sigla skuli frá Björgvin til Grænlands. Er álitið að sú frásögn sé eftir einhvern annan en Ívar.

Frásögn Ívars hefur verið prentuð í tveimur útgáfum:

Grönlands historiske Mindesmærker, gefin út af Det kongelige nordiske Oldskrift-Selskab, ritstjórar Finnur Magnússon og C. C. Rafn, København, 1838-45, III, blaðsíðurnar 248–264.

Det gamle Grønlands beskrivelse af Ívar Bárðarson, ritstjóri Finnur Jónsson, Levin & Munksgaards Forlag, København, 1930.

[breyta] Heimildir

[breyta] Tengill