Styrkt vín
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Styrkt vín er vín sem þar sem vínandastyrkur hefur verið aukinn með utanaðkomandi vökva, oftast í formi koníaks. Algeng styrkt vín eru sérrí, púrtvín, vermút, marsalavín og madeiravín.
Upphaflega var áfengi bætt út í léttvín til að auka líftíma þess, þar sem viðbætt áfengi áður en gerjunartímanum er lokið, drepur gerjunina og skilur þannig eftir hærra sykurinnihald. Hvort tveggja, meira áfengismagn og hærra sykurinnihald hefur svo þau áhrif að varðveita vínið betur.
Mjög margar tegundir styrktra vína eru til í heiminum, og eru þau yfirleitt drukkin sem lystauki á undan mat, eða með eftirréttinum, þar sem þau geta verið bæði mjög sæt og krydduð. Einnig eru dæmi um að slík vín séu notuð sem bragðbætir í sjálfri matargerðinni.
Gera þarf greinarmun á styrktu víni og líkjörum sem unnir eru úr víni eða vínberjahrati. Fyrri tegundin fæst með því að bæta áfengi við hefðbundið léttvín, en sú síðari með því að eima léttvín eða gambra sem gerður er úr gerjuðu hrati.