Holdsveiki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Holdsveiki á fingrum
Enlarge
Holdsveiki á fingrum

Holdsveiki (einnig kallað líkþrá) er smitsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Mycobacterium leprae sem er skyld berklabakteríu (M. tuberculosis). Holdveikibakterían leggst sérstaklega á kaldari svæði líkamans svo sem fingur, tær, eyru og nef. Holdsveikibakterían finnst í mönnum, beltisdýrum og sumum apategundum.

Holdsveiki hefur verið útrýmt á Íslandi. Holdsveiki er þó ennþá landlægur sjúkdómur í mörgum löndum, sérstaklega á Indlandi. Talið er að holdsveiki smitist við snertingu, í gegnum innöndun, af smituðum jarðvegi eða gegnum bit skordýra. Meðgöngutími sjúkdómsins getur verið langur eða frá 1-2 árum upp í 40 ár. Holdsveiki leggst á taugar í útlimum og getur valdið tilfinningaleysi, krepptum vöðvum og lömunum. Nú er til auðveld lækning við holdsveiki en skemmdir á taugum og öðrum vefjum eru þó varanlegar.

Hallgrímur Pétursson skáld dó úr holdsveiki. Fyrstu ljósmyndirnar af Íslendingum voru teknar af holdsveikisjúklingum. Sérstakt herbergi er í lækningasafninu í Nesstofu um holdsveiki.

[breyta] Líf holdsveikra fyrr á öldum

Líkþrár maður hringir bjöllu til að aðrir geti forðað sér. Myndskreyting í handriti frá um 1400
Enlarge
Líkþrár maður hringir bjöllu til að aðrir geti forðað sér. Myndskreyting í handriti frá um 1400
Íslenskur holdsveikisjúklingur. Myndskreyting úr bók um  Íslandsleiðangur Paul Gaimard, gefin út í París 1851
Enlarge
Íslenskur holdsveikisjúklingur. Myndskreyting úr bók um Íslandsleiðangur Paul Gaimard,
gefin út í París 1851

Holdsveikir voru útskúfaðir úr samfélaginu og oft einangraðir í sérstökum holdsveikranýlendum.

Holdsveikir menn þurftu að bera með sér rellu eða bjöllu og gefa til kynna komu sína svo aðrir gætu forðast samneyti við þá. Fyrr á öldum var algengt að allir sem þjáðust af húðsjúkdómum svo sem sóragigt, húðkrabbameini eða kýlum væru taldir holdsveikir. Á tólftu öld voru holdsveikissjúklingar í Evrópu einangraðir í sérstökum húsum.

Holdsveiki var talin merki um syndir mannsins. Stundum var settur sérstakur lágur gluggi í kirkjur fyrir holdsveika þannig að þeir gætu fylgst með guðsþjónustum án þess að smita þá sem inni voru. Holdsveikir þurftu á miðöldum að vera í sérstökum klæðnaði og urðu að búa utan borgarmarka á afmörkuðum svæðum og strangar reglur giltu um samneyti þeirra við aðra borgara. Á tuttugustu öldinni voru holdsveikir einnig neyddir til að búa í einangrun, oft í sérstökum holdsveikranýlendum.

[breyta] Holdsveikraspítalar á Íslandi

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi
Enlarge
Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi

Holdsveikraspítalar á Íslandi voru heimilaðir með konungsbréfi 1651, einn í hverjum landsfjórðungi. Þessir staðir voru ekki líkir spítölum nútímans, þangað kom fátækt fólk, hreppsómagar og flækingar. Þessir staðir voru aflagðir með konungsúrskurði 12. ágúst 1848. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður árið 1898 en spítalahúsið brann 1943. Síðustu íslensku holdsveikisjúklingarnir voru vistaðir á Kópavogshæli og voru þar í einangrun.

[breyta] Heimildir

Wikimedia Commons merkið
Margmiðlunarefni tengt Holdsveiki er að finna á Wikimedia Commons.


Þessi grein er stubbur sem ekki hefur verið settur í undirflokk.
  Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana, eða með því að flokka hana betur.