Vilmundur Gylfason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vilmundur Gylfason (fæddur 7. ágúst 1948, látinn 19. júní 1983) var íslenskur stjórnmálamaður, bókmennta- og sagnfræðingur, og skáld. Hann var sonur Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur.

Efnisyfirlit

[breyta] Fjölskylda

Faðir Vilmundar var Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður, ráðherra og prófessor. Móðir hans var Guðrún Vilmundardóttir, húsfreyja og á tímabili blaðamaður.

Systkini Vilmundar, einungis bræður, voru Þorsteinn Gylfason, prófessor og Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur.

Vilmundur var kvæntur Valgerði Bjarnadóttur, viðskiptafræðingi.

[breyta] Ævi og störf

Vilmundur hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1964. Þar var hann ritstjóri skólablaðsins einn vetur, var inspector scholae veturinn 1967-1968 og tók virkan þátt í félagslífi skólans. Hann lauk stúdentsprófi af málabraut vorið 1968.

Eftir stúdentspróf fór hann til Englands, þar sem hann lauk B.A.-prófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1971 við háskólann í Manchester. M.A.-prófi lauk hann við Exeter-háskóla árið 1973 í sama fagi.

Er hann kom heim frá Englandi árið 1973, var hann ráðinn kennari í sagnfræði við Menntaskólann í Reykjavík, og samhliða vann hann að fréttaskýringa- og viðtalsþáttum ásamt því að skrifa greinar í dagblöð. Vilmundur kenndi í Menntaskólanum í Reykjavík til æviloka.

Vilmundur sá um gerð útvarpsþátta um listir og menningarmál, var hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins, setti á stofn og ritstýrði Nýju landi og gaf út tvær ljóðabækur; Myndir og ljóðbrot árið 1970 og Ljóð árið 1980.

[breyta] Stjórnmálamaðurinn

Á meðan Vilmundur var í Englandi í námi mótuðust skoðanir hans á stjórnmálum og fréttamennsku mjög mikið. Taldi hann fréttamennsku í Englandi vera mjög til fyrirmyndar.

Í kosningum árið 1971 var Vilmundur í framboði fyrir Alþýðuflokkinn á Vestfjörðum. Hann tók virkan þátt í starfsemi flokksins og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann. Hann var og ritstjóri Alþýðublaðsins á sumrin um árabil. Í kosningum árið 1978 var Vilmundur í framboði í Reykjavík, fyrir sama flokk, og var hann þá fyrst kosinn á þing. Frá október 1979 til febrúar 1980 var Vilmundur dóms-, kirkju- og menntamálaráðherra í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins.

18. nóvember 1982 skráði Vilmundur sig úr Alþýðuflokknum, og jafnframt tilkynnti hann stofnun nýs flokks, Bandalags jafnaðarmanna, sem var stofnað 15. janúar 1983. Í Alþingiskosningum 1983 hlaut bandalagið kosningu fjögurra þingmanna, en flokkurinn var í framboði í öllum kjördæmum.

Hann þótti afkastamikill, vandvirkur við undirbúning mála og flutti þau vel - hann þótti og góður ræðumaður, vel lesinn, orðheppinn, einstaklega laginn við að spá fyrir um stjórnmálabaráttuna og virðist hafa verið næmur á skoðanir/vilja almennings. [1]

[breyta] Tilvísanir

  1. ^  Morgunblaðið, 28. Júní 1983, ýmis dæmi á bls. 14, 15, 35 og 36.

[breyta] Heimildir

Á öðrum tungumálum