Þrískipting ríkisvaldsins
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þrískipting ríkisvaldsins er viðhöfð í mörgum þeim löndum sem teljast vera lýðveldi. Því er almennt trúað, að þessi þrískipting stuðli að því, að enginn einn hópur fólks ráði öllu sem snertir hið opinbera og dragi þannig úr hættu á spillingu. Venjulega er valdinu skipt í löggjafarvald (þeir sem semja, eða að minnsta kosti setja lögin), framkvæmdavald (þeir sem sjá um framkvæmd þeirra) og dómsvald (þeir sem dæma eftir þeim).
Kenningar um þrískiptingu ríkisvaldsins eru raktar til 18. aldar heimspekinga Upplýsingarinnar, Montesquieus sem setti fram hugmyndir sínar þess efnis í bók sinni Andi laganna og John Lockes.
[breyta] Aðstæður innan ríkja
[breyta] Ísland
Á Íslandi deilir Alþingi löggjafarvaldinu með forseta Íslands, ráðherrar fara með framkvæmdavaldið í umboði forseta og síðan sjá dómstólar (héraðsdómur ásamt Hæstarétti) um dómsvaldið. Ferlið er þannig að Alþingi semur lögin (oftast eru lögin þó samin af nefndum í umboði ríkisstjórnar) og samþykkir þau með eða án breytinga. Þau öðlast gildi, þegar forsetinn hefur samþykkt þau. Ráðherrar bera síðan ábyrgð á opinberum stofnunum sem framkvæma lögin, ásamt því að hafa heimild til að semja nánari reglugerðir varðandi þau. Athuga ber að þrátt fyrir að ráðherrar taki þátt í störfum Alþingis, þá hafa þeir ekki atkvæðisrétt nema þeir séu þingmenn líka, en mjög sjaldgæft er að ráðherra sé ekki jafnframt þingmaður. Því er í raun ekki viðhöfð bein skipting á löggjafar- og framkvæmdavaldi á Íslandi. Þetta hafa ýmsir gagnrýnt, þar á meðal Siv Friðleifsdóttir, sem sagði að ráðherrar ættu að segja af sér sem þingmenn eftir að taka við ráðherrastöðu. Þetta gerði hún hins vegar ekki þegar að hún tók við stöðu umhverfisráðherra á sínum tíma, né þegar hún var gerð að heilbrigðisráðherra fyrr á þessu ári (2006). Héraðsdómur og Hæstiréttur sjá síðan um dómsvaldið og dæma í málum samkvæmt túlkun þeirra á lögunum.
Til að forðast að einhver hluti af þrískiptingunni geti haft áhrif á laun annarra hluta ríkisvaldsins, eru þau ákvörðuð af kjaradómi. Reynt er eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að einhver þessara þriggja hluta hafi óeðlileg áhrif á einhvern annan.