Spjall:Pegasos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Er ekki réttara að segja "Pegasus" á íslensku? Eins og t.d. Seifur en ekki Seus og Herkúles en ekki Herakles? Smá-google-könnun (á "pegasos"+"að" vs "pegasus"+"að") gefur mér 160 vs 19.500. Ég myndi ætla að það sé komin rík hefð á „Pegasus“ í íslensku... --Akigka 19:57, 11 september 2006 (UTC)

Mér finnst réttara að umrita grísk nöfn ekki eins og þau væru latnesk nöfn. Pegasos heitir Pegasos á grísku og er rækilega grísk goðsögn, sem átti sér enga hliðstæðu hjá Rómverjum áður en þeir heyrðu um hann hjá Grikkjum. Herakles þekktist hins vegar lengi meðal Rómverja en Herakles er eldra og grískara nafn og hann er grískari en hann er rómverskur. Í útgefnum leikritum eftir t.d. Evripídes (þýð. Helgi Hálfdanarson) heitir hann Herakles, svo sem í leikritunum Herakles og Börn Heraklesar. Mér finnst því að hann eigi að heita Herakles þegar vísað er beint til grísku goðsagnarpersónunnar og svo má hann heita Herkúles/Hercules annars staðar. Endingin -eifur er alveg sér á báti. Hún er almenn regla fyrir grísk nöfn sem enda á -eus og á miklu dýpri rætur í íslensku en latneska útg. af nafni Heraklesar eða Pegasosar. Í fljótu bragði sýnist mér google-niðurstöðurnar f. "Pegasus" á íslensku fjalla um flest annað en vængjaða hestinn í grísku goðafræðinni, t.d. fyrirtæki (pegasus + hestur gefur um 445 niðurstöður (ekki allar um goðsagnarveruna) og pegasus + grísk um 146). --Cessator 22:05, 11 september 2006 (UTC)
Hvernig væri að byrja greinina bara á „Pegasos (einnig ritað Pegasus)“? Þá er verið að gefa til kynna að Pegasos sé í raun réttara, en Pegasus sé þó líka notað. --Sterio 22:13, 11 september 2006 (UTC)
Mér finnst spurning hvort það sé „réttara“ að skrifa Pegasos. Vængjaði hesturinn, skáldfákurinn, er orðinn að þrælrótuðu minni í menningu fólks um allan heim. Þegar slíkt gerist kemst hefð á ritun nafnsins á viðkomandi tungumálum. Ég myndi hefja greinina Pegasus (gríska: Πήγασος, Pegasos) líkt og gert er í mörgum fleiri greinum. Það er fjöldi dæma um orð sem hafa borist inn í íslensku úr öðrum málum, þótt eina dæmið sem mér dettur í hug í svipinn sé parmesan sem er franskur ritháttur. Hvernig hefur þetta verið í þýðingum Sveinbjarnar og Helga t.d.? --Akigka 22:21, 11 september 2006 (UTC)
Ekii það að ég hafi neitt í sjálfu sér við orðið Pegasos að athuga. Orðið er þjált og auðþekkjanlegt. --Akigka 22:30, 11 september 2006 (UTC)
Þrælrótuðu minni um allan heim já, en aðallega þekktur í gegnum enskumælandi miðla. Og við eigum ekkert að vera að apa allt upp eftir þeim. Annars værum við nú að tala um Zeus núna en ekki Seif. Í Hómerskviðum er Herakles en ekki Herkúles en ég man ekki til þess að Pegasos komi þar fyrir, né heldur í leikritunum. Hann kemur fyrir í Goðakyni eftir Hesíódos, sem er þýtt verk en óútgefið. Ég er eiginlega alveg viss um að þar heiti hann Pegasos. Hún kemur út fyrr eða síðar. --Cessator 22:59, 11 september 2006 (UTC)
Það er nóg að hafa tilvísunina. Annars þyrfti að skrifa "einnig ritað..." víða annars staðar þar sem það ætti ekki að koma til greina.--Cessator 22:59, 11 september 2006 (UTC)
Aftur ósammála. Ætti ekki að koma til greina að skrifa Pegasus? Orðið hefur vafalaust komið inn í íslensku á miðöldum, og þá úr latínu - ekki ensku. Pegasus er líka ritað þannig á dönsku og norsku. Í þýsku útgáfunni eru báðir rithættir gefnir upp. Ég get eiginlega ekki varist þeirri tilhugsun að Pegasos sé tilraun til að „leiðrétta“ gamla hefð. Hins vegar má greinin heita Pegasos fyrir mér og vel kann að vera að nútímaþýðendur kjósi heldur að nota þann rithátt, sem þá er besta mál. Ekkert er óbreytanlegt. --Akigka 23:08, 11 september 2006 (UTC)
Það breytir engu hvernig orðin eru á norsku, sænsku, dönsku, frönsku og þýsku. Þeir hafa sínar hefðir og reglur, við höfum okkar. Enskurinn hefur t.d. þá almennu reglu að nota bara latínuna (sbr. Plato, Zeno, Herodotus, Hercules o.s.frv.) en hann er samt að reyna að breyta því; gengur illa og afleiðingin er glundroði. Almenna reglan hjá okkur er sú að nota ekki latneskar útgáfur grískra nafna. „Pegasos“ er ekki tilraun til að leiðrétta gamla hefð (ég sé ekki að hún sé fyrir hendi) en er hins vegar tilraun til að vera samkvæmur sjálfum sér. Eiginlega er ég viss um að kvikmyndafyrirtækið sem nefnir sig Pegasus hafi ekki leitað eftir innblæstri í íslenskar miðaldaheimildir, heldur í enskuna. --Cessator 23:45, 11 september 2006 (UTC)
Ég held við séum sammála um að það að taka rithátt orða úr þriðja máli gagnrýnislaust eftir enskunni sé ekki ásættanlegt og ég er fyllilega sammála því að samræmdar umritunarreglur ættu að gilda alls staðar þar sem umritað er úr öðrum ritkerfum ef ekki er komin rík hefð á annars konar rithátt. Mér finnst þessi tilraun til að leiðrétta gamla hefð umdeilanleg (ekki endilega röng). Við erum þá komin út í það að þröngva rétthugsun okkar samtíma upp á söguna og slíta jafnframt tengslin við eldri rit. Missum "samhæfingu afturábak" sem líka skapar glundroða.
Ég benti einfaldlega á Norður-Evrópumálin af því að þaðan höfum við í gegnum söguna fengið mikið af okkar umritunum á "framandi" orðum. Ekki að það gildi um orðið sem hér um ræðir sem hefur komið inn í íslensku þegar þekking á latínu var almenn meðal lærðra íslendinga. Mér finnst það í hæst máta ólíklegt að orðið Pegasus sé nú til dags svo sjaldséð og fáheyrt í íslensku að umrætt fyrirtæki hafi þurft að leita út fyrir landsteinana eftir réttritun þess. Pegasus er einfaldlega almennt og vel þekkt orð í íslensku, Pegasos er hins vegar nýmæli sem kann vissulega að eiga rétt á sér, en það breytir hinu ekki að Pegasus er vel þekkt orð í íslensku og ætti því að koma fram í upphafi greinar (líkt og gerist í þýsku greininni). --Akigka 09:38, 12 september 2006 (UTC)
Ég einmitt sé ekki að það sé svo rík hefð fyrir því að tala um Pegasus og jafnvel þótt það væri til orð í málinu komið af þessu nafni, þá er nafnið á þessari goðsagnarveru samt Pegasos; og ég fullyrði að það er engin „rík“ hefð fyrir því að hún heiti Pegasus (sbr.google-niðurstöður). Og þótt það fyndist tilfelli þar sem einhver talar um Pegasos sem Pegasus, þá væri það ekki nóg til að rík hefð sé fyrir hendi. Þú ert alltaf að segja að Pegasus sé vel þekkt orð í íslensku (það er ekki að finna í Orðabók Háskólans) en hvaðan hafa Íslendingar þekkingu sína á goðsagnarverunni? Upp úr hvaða ritum? Auðvitað getur þekking varðveist munnlega en mér finnst það nú samt miklum mun ólíklegri kenning í þessu tilfelli. Þetta er bara enskusletta og/eða sletta úr öðrum erlendum málum. --Cessator 13:13, 12 september 2006 (UTC)
Orðið kemur t.d. fyrir í heimskringlu. Ég fer ekki ofanaf því að Pegasos er nýmæli í íslensku, en Pegasus hinn hefðbundni ritháttur. Þyrfti samt að athuga það í útgefnum bókum til að styðja mál mitt. --Akigka 13:41, 12 september 2006 (UTC)
Já já, Pegasus er eflaust eldra en þótt slettan sé eldri er hún engu betri. Og þótt orðið komi fyrir hjá Snorra, tekið úr latínu, þá breytir það litlu. Í fyrsta lagi er ekki þar með komin rík hefð. Í öðru lagi förum við ekki einu sinni alltaf með íslensk nöfn nákvæmlega eins og Snorri og félagar skrifuðu þau. Og í þriðja lagi er engu betra að taka grískt nafn úr latínu en t.d. frönsku, þýsku og ensku. Það er hins vegar áhugavert út af fyrir sig að Snorri skuli tala um blessaðan hestinn, rétt eins og að hann skuli tala um Akkilles og Hektor í Eddu. Hvar er þetta í Heimskringlu? Mér tókst ekki að finna það. --Cessator 14:17, 12 september 2006 (UTC)
Ég rakst á þetta í textasafni orðabókarinnar en finn ekki í netútgáfunni á Heimskringlu, hvernig sem á því stendur: „undir hestlegur hlutur Centauri, höfuð Hydre en upp rennur Pegasus , hestur. Þá er fiskar renna upp ganga undir allur líkamur Hydre og eftir“ sem þætti nú vart góð íslenska í dag. Verst að ritmálsleitin hjá þeim virðist dottin út. Hún var einstaklega gagnleg. Svo finn ég "pegasus" í beygingalýsingunni en ekki "pegasos". --Akigka 14:30, 12 september 2006 (UTC)