Búrfellsvirkjun
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Búrfellsvirkjun er vatnsaflsvirkjun í Þjórsá utarlega í Þjórsárdal í Gnúpverjahreppi kennd við fjallið Búrfell. Virkjunin var fyrsta stórvirkjun Íslendinga og markaði upphaf svonefndrar stóriðjustefnu.
Vatnasvið: | 6400 km |
---|---|
Meðalrennsli: | 340 m/s |
Virkjað rennsli: | 260 m/s |
Fallhæð: | 115 m |
Afl: | 270 MW |
Efnisyfirlit |
[breyta] Forsaga
Um og uppúr aldamótunum 1900 voru uppi ýmsar vangaveltur um virkjanir hér á landi þar sem byrjað var að virkja fallvötn í Noregi, Svíþjóð og víðar í Evrópu. Árið 1914 stofnaði Einar Benediktsson „Fossafélagið Titan“ í því augnamiði að rannsaka möguleika virkjunar á Íslandi. Þær rannsóknir framkvæmdi norskur vélfræðingur, Gotfred Sætersmoen að nafni, á árunum 1915-17. Hann skilaði af sér drögum að virkjunum í Þjórsá, m.a. við Búrfell. Ljóst var að til þyrfti stóriðju til þess að réttlæta virkjun því almenn eftirspurn eftir rafmagni var ekki mikil. Til greina kom að byggja áburðarverksmiðju en ekkert varð úr þeim áætlunum og söfnuðu þær ryki næstu áratugina. Áhugi íslenskra viðskiptamanna á virkjunum íslenskra fallvatna var töluverður á fyrri hluta 19. aldar en ytri aðstæður voru óhagstæðar sbr. fyrri heimstyrjöldin og kreppan mikla.
[breyta] Stóriðja
Uppúr miðri síðustu öld voru „fossamálin“ aftur komin í umræðu og hafði hið svissneska fyrirtæki Alusuisse (í dag ALCAN) frumkvæði að samningaumleitunum. Þá var það stefna Viðreisnarstjórnarinnar að styrkja íslenskt efnahagslíf og auka hagvöxt sem var farið að dala eftir uppgang eftirstríðsáranna og var stóriðja talin tryggja áhuga erlendra fjárfesta. Jafnframt voru möguleikar kjarnorku umtalaðir um þessar mundir sem ódýrs orkugjafa og drógu margir þá ályktun að best væri að virkja á meðan eftirspurn væri til staðar. Svokölluð stóriðjunefnd sá um rannsóknarvinnu og samskipti við erlend stórfyrirtæki og til greina kom að semja við franska og bandaríska aðila. Til þess að fjármagna framkvæmdina voru tekin lán hjá Alþjóðabankanum sem krafðist sterks aðhalds og stöðugs eftirlits, kannski í ljósi þess að ekki voru fordæmi fyrir viðlíka framkvæmdum á Íslandi. Hið opinbera fyrirtæki Landsvirkjun var stofnað 1965 og var Búrfellsvirkjun fyrsta stórframkvæmd þess. Bygging virkjunarinnar var af meiri stærðargráðu en áður þekktist á Íslandi. Mest unnu tæplega 800 manns við byggingu hennar og á tímabili urðu verktafir vegna skorts á vinnuafli. Þann 28. mars 1966 var samið við svissneska fyrirtækið Alusuisse um byggingu og rekstur Álversins í Straumsvík og átti Búrfellsvirkjun að sjá því fyrir rafmagni. Lög þess efnis voru sett 13. maí [1] og í júní hófst bygging virkjunarinnar. Bandaríska fyrirtækið Harza Engineering Co. Int. (í dag Montgomery Watson) var fengið til þess að hanna virkjunina og var hún fullgerð 1969, helsti byggingarverktaki var Fosskraft. Miklar deilur urðu um álsamningana og urðu þeir tíðræddir í fjölmiðlum sem á Alþingi.
[breyta] Virkjunin
Miðlunarlón Búrfellsstöðvar nefnist Bjarnalón, en á þessum stað voru Bjarnalækur og Bjarnalækjarbotnar, og er 1 km² að stærð. Vestan við Bjarnalón er Sámsstaðamúli og sunnan er Búrfell. Stíflan við austurenda lónsins er útbúin sérstöku ísskolunarmannvirki og útsýnishús sem kallast Ísakot. Þessi varrúðarráðstöfun var nauðsynleg vegna mikillar ísmyndunar í ánni, sem þó hefur horfið eftir tilkomu Sultartangavirkjunar. Aðrennslisgöng lónsins að Búrfellsstöð eru u.þ.b. 1,5 km löng og staðsett í vesturenda lónsins, fallhæðin er 115 m. Frá virkjunarstöðinni rennur vatnið í Fossá sem svo sameinast Þjórsá 2 km sunnar. Á framhlið stöðvarhússins er stór lágmynd eftir Sigurjón Ólafsson og fyrir framan það er einnig verkið „Hávaðatröllið“ eftir hann. Við stöðina starfa 35 manns, í næsta nágrenni við hana er þjóðveldisbærinn Stöng, Hjálparfoss, Háifoss og Gjáin.
[breyta] Heimildir
- Helgi Skúli Kjartansson. Ísland á 20. öld. Sögufélag, 2002. ISBN 9979905972, bls 297-301
- Sigrún Pálsdóttir (ritstj.). Landsvirkjun 1965-2005: Fyrirtækið og umhverfi þess. Hið Íslenska Bókmenntafélag, 2005. ISBN 9979661658
- „Búrfellsvirkjun“. Sótt 13. ágúst 2006.
- „Landsvirkjun - Búrfellsstöð“. Sótt 13. ágúst 2006., ítarlegri upplýsingabæklingur á PDF-formi