Skúli Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skúli Magnússon (11. desember 1711 - 9. nóvember 1794), oft kallaður Skúli fógeti, var landfógeti Íslands og einn helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna.

Skúli fæddist að Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu árið 1711. Hann stundaði nám við háskólann í Kaupmannahöfn 1732-34 án þess þó að ljúka prófi. Hann varð sýslumaður í Skaftafellssýslu árið 1734 og í Skagafjarðarsýslu 1737. Í desember 1747 varð hann landfógeti og var hann fyrsti Íslendingurinn til að gegna þeirri stöðu. Fékk hann Viðey til ábúðar og var Viðeyjarstofa reist sem embættisbústaður á árunum 1753-55.

Skúli var helsti frumkvæðismaður að stofnun Innréttinganna í Reykjavík og hefur hann því oft verið nefndur faðir Reykjavíkur.

Skúli lét af embætti fyrir aldurs sakir árið 1793 og lést ári síðar í Viðey.