Glerárhverfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Litið yfir Glerárhverfi út Eyjafjörð; Glerá sést neðst til vinstri á myndinni
Enlarge
Litið yfir Glerárhverfi út Eyjafjörð; Glerá sést neðst til vinstri á myndinni

Glerárhverfi er hverfi á Akureyri, til þess telst sá hluti bæjarins sem er norðan Glerár, í daglegu tali er það af sögulegum ástæðum oftast kallað Þorpið.

Hverfið skiptist í minni hverfi eftir endingum götunafnanna, þar eru Holtahverfi, Hlíðahverfi, Síðuhverfi og Giljahverfi sem eru að mestu íbúðahverfi en einnig eru atvinnusvæði við Krossanes, milli Austursíðu og Hörgárbrautar og við Óseyri þar sem er meðal annars smábátahöfn. Þrír grunnskólar eru í hverfinu, Glerárskóli, Giljaskóli og Síðuskóli. Í dag búa rúmlega 7000 manns í hverfinu.

[breyta] Saga

Framan af 20. öld voru bæjarmörk Akureyrar við Glerána. Heyrði svæðið norðan hennar undir Glæsibæjarhrepp og var því ekki innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins. Á seinni hluta 19. aldar fór að myndast vísir að þéttbýli á svæðinu nálægt ánni (þar sem nú er Langahlíð og Höfðahlíð) og þegar kom fram á 20. öld var komin þorpsmynd á svæðið sem fór að ganga undir heitinu Glerárþorp. Þorpið byggði einkum efnaminna fólk sem hafði ekki efni á því að reisa sér hús á Akureyri vegna byggingarreglugerða sem höfðu verið teknar upp þar sem bönnuðu m.a. byggingu torfbæja en nokkrir slíkir risu í Þorpinu á þessum árum. Fyrstu íbúar Þorpsins stunduðu sjálfsþurftarbúskap á litlum landskikum við hús sín og sóttu vinnu í iðnfyrirtæki á Akureyri þegar slíkt stóð til boða, sumir sóttu sjóinn.

Árið 1955 var Glerárþorp svo sameinað Akureyri og var þá kallað Glerárhverfi þó að þorpsnafnið hafi haldist allar götur síðan. Upp úr 1960 hófst skipulögð uppbygging í hverfinu sem þandist hratt út á áttunda, níunda og tíunda áratug 20. aldar.