Jón Arnór Stefánsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Arnór Stefánsson (fæddur 21. september 1982 í Skövde í Svíþjóð) er íslenskur körfuknattleiksmaður.
Efnisyfirlit |
[breyta] Ferill Jóns Arnórs
[breyta] Yngri flokkar
Jón Arnór lék alla yngri flokka með KR áður en hann fór í "high school" í Bandaríkjunum. Skólinn sem hann var í úti fór hins vegar ekki alveg eftir settum reglum og því þurfti Jón Arnór að yfirgefa skólann fyrr en til stóð.
[breyta] 1999-2000: Íslandsmeistari
Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum lék Jón Arnór með KR í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik vorið 2000, og átti drjúgan þátt í að liðið varð Íslandsmeistari það ár. Hann skoraði átta stig að meðaltali á 17,4 mínútum í leik, aðeins sautján ára gamall.
[breyta] 2000-2001: Besti nýliðinn
Þetta var fyrsta tímabil Jóns Arnórs í úrvalsdeild, en þá lék hann 30,2 mínútur að meðaltali í leik, skoraði 16,8 stig, tók 3,2 fráköst, gaf 3,6 stoðsendingar og stal boltanum 2,1 sinni í þeim 20 leikjum sem hann lék. Hann var í kjölfarið valinn besti nýliði úrvalsdeildar það árið.
[breyta] 2001-2002: Besti leikmaðurinn
Jón Arnór bætti um betur á þessari leiktíð, lék 34,5 mínútur að meðaltali, skoraði 20,7 stig, gaf 4,8 stoðsendingar, tók 6,1 frákast, var með 2,6 stolna bolta og 1,25 varið skot í 20 leikjum. Að auki var hann með 40% þriggja stiga nýtingu. Þetta dugði til að hann var valinn besti leikmaður deildarinnar.
[breyta] 2002-2003: Atvinnumaður í Þýskalandi
Nú tók atvinnumennskan við. Jón Arnór gekk til liðs við þýska úrvalsdeildarliðið Trier. Þar lék hann 24 deildarleiki og skoraði 13,5 stig að meðaltali á 29,7 mínútum. Hann var einnig með 2,9 fráköst, 2,8 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta.
[breyta] 2003-2004: NBA
Jón Arnór söðlaði heldur betur um sumarið 2003 og samdi við NBA liðið Dallas Mavericks. Þar með var hann annar Íslendingurinn, á eftir Pétri Guðmundssyni, til að komast á mála hjá NBA liði. Þrátt fyrir að hafa, að margra mati, staðið sig vel á undirbúningstímabilinu fékk Jón Arnór aldrei að spreyta sig í deildarleik. Hann lék þó í nokkrum sumarmótum sumarið 2004, en ákvað í samráði við stjórnendur félagsins að framlengja ekki samninginn að svo stöddu.
[breyta] 2004-2005: Rússland og Evrópukeppnin
Það voru nokkur vonbrigði fyrir Jón að fá ekki að spila í NBA deildinni, og hann ákvað því að semja við rússneska liðið Dynamo St. Peterburg. Jón Arnór var valinn í byrjunarlið Evrópuúrvalsins í stjörnuleik FIBA Europe, þar sem hann skoraði 10 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu á 21 mínútu. Hann lék stórt hlutverk undir lok leiksins, en lið hans tapaði þó fyrir Heimsúrvalinu 102-106.
Lið Jóns Arnórs tók þátt í FIBA Europe League og þann 28. apríl 2005 varð Jón fyrsti íslenski körfuknattleiksmaðurinn til að verða Evrópumeistari með liði sínu, þegar Dynamo St. Peterburg vann BC Kyiv 85-74. Jón Arnór lék í 29 mínútur og skoraði níu stig. Í undanúrslitaleiknum gegn BC Khimki skoraði hann 14 stig og tók fjögur fráköst á 35 mínútum. Dynamo vann alla leiki sína í Evrópukeppninni.
[breyta] 2005-2006: Ítalía
Sumarið 2005 samdi Jón Arnór við ítalska félagið Carpisa Napoli. Áður höfðu lið á Spáni og í Bandaríkjunum sýnt honum áhuga. Napoli varð bikarmeistari þann 19. febrúar eftir sigur á Lottomatica Roma í framlengdum úrslitaleik, 85-83. Jón Arnór lék 35 mínútur í leiknum, skoraði níu stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Liðið komst í undanúrslit um ítalska meistaratitilinn og tapaði þar fyrir ClimaMio Bologna í fimm leikjum; 3-2.
[breyta] 2006-2007: Spánn
Í júlíbyrjun 2006 skrifaði Jón Arnór undir þriggja ára samning við spænska félagið Pamesa Valencia.
[breyta] Fjölskyldan
Jón Arnór er einn fjögurra systkina sem eru öll íþróttamenn. Elsti bróðir Jóns er Ólafur Stefánsson, landsliðsfyrirliði í handbolta til margra ára, næstur í röðinni er Eggert Stefánsson, knattspyrnumaður, næstyngst systkinanna er Stefanía Stefánsdóttir, tennisleikari, og yngstur er Jón Arnór.