Eykt
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eykt á við um tímabil sem mun upprunalega hafa samsvarað nokkurn veginn þeim tíma dags sem seinna var kallaður nón, þ. e. um kl. 15 að sönnum sóltíma. Sú átt eða kennileiti sem sólina bar við á þessari stundu nefndist eyktarstaður og markaði upphaf helgitíma (helgidags-eykt).
Um eyktarstað virðist hafa átt að gilda sú regla, að hann væri röskar 50 gráður frá suðri, þ.e. milli áttanna SV og VSV, en menn greinir á um það hvernig beri að skilja ákvæðin eða hversu nákvæmlega þeim hafi verið fylgt. Síðar urðu eyktirnar fleiri, eða 8 talsins, og réðu menn tímann af því hvenær sól eða önnur himintungl bar yfir ákveðin kennileiti (eyktamörk, dagsmörk). Nöfnin á eyktunum voru þessi: ótta (um kl. 3 að sönnum sóltíma), miður morgunn eða rismál (um kl. 6), dagmál (um kl. 9), miðdegi eða hádegi (kl. 12), nón (um kl. 15), miður aftann eða miðaftann (um kl. 18), náttmál (um kl. 21) og miðnætti eða lágnætti (kl. 24).
Eins og eyktanöfnin gefa til kynna, var sólarhringnum skipt í fjóra hluta: morgun (frá óttu til dagmála), dag (frá dagmálum til nóns), aftan (frá nóni til náttmála) og nótt (frá náttmálum til óttu). Auk þeirrar merkingar orðsins eykt, sem hér hefur verið lýst, fékk orðið einnig aðra merkingu og rýmri og táknaði þá tímaskeið. Skiptist dagurinn þá í átta eyktir, en mörk þeirra skeiða virðast ekki hafa verið sérlega fastmótuð í vitund manna. Skýring orðsins eykt er óviss, en helst álitið að það sé skylt orðinu ok.