Steingrímur (jólasveinn)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steingrímur er heiti á jólasveini sem kemur fyrir í tveimur nafnaþulum sem Jón Árnason fékk frá Guðmundi Gísla Sigurðssyni (f. 1835) sem alist hafði upp á Stað í Steingrímsfirði.

Fyrri þulan er svona:

Tífill, Tútur,
Baggi, Lútur,
Rauður, Redda,
Steingrímur og Sledda,
Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur,
Bjálmans barnið,
Litlipungur, Örvadrumbur.

Síðari þulan er svona:

Tífall og Tútur,
Baggi og Hnútur,
Rauður og Redda,
Steingrímur og Sledda,
sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,
Bitahængir, Froðusleikir,
Gluggagægir og Syrjusleikir.

Hugsanlega er Steingrímur jólasveinn eða tröll sem orðið hefur til út frá sögnum um landnámsmanninn Steingrím trölla sem í Landnámu er sagður hafa numið Steingrímsfjörð.