Davíð Stefánsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Davíð Stefánsson skáld, sem kenndur er við Fagraskóg, fæddist í Fagraskógi þann 21. janúar árið 1895. Faðir Davíðs var Stefán Stefánsson bóndi og síðar alþingismaður og móðir hans var Ragnheiður Davíðsdóttir frá Hofi í Hörgárdal.

Davíð lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1911. Á árunum 1915–1916 dvaldist Davíð í Kaupmannahöfn og hófst skáldaferill hans þar. Síðar hóf hann nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1919, en það ár kom fyrsta ljóðabók hans út, hún ber heitið Svartar fjaðrir.

Davíð dvaldist öðru hvoru erlendis, m.a. í nokkra mánuði á Ítalíu árið 1920 og svo í Noregi 1923. Árið 1925 tók Davíð við föstu starfi sem bókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri, hann lét formlega af störfum sem bókavörður árið 1951.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi lést á Akureyri þann 1. mars árið 1964. Hann er grafinn á Möðruvöllum í Hörgárdal en þar hvíla einnig foreldrar hans og önnur ættmenni.

[breyta] Ritverk

Davíð samdi ekki einungis ljóð heldur gaf hann einnig út nokkur leikrit og skáldsögur.

  • Munkarnir á Möðruvöllum, 1926
  • Gullna hliðið,
  • Sólon Íslandus I-II, 1941 (Skáldsaga um Sölva Helgason).
  • Vopn guðanna, 1944
  • Landið gleymda, frumsýnd árið 1953 en gefið út 1956.

Alls komu út 10 ljóðabækur eftir Davíð, en þær eru (í réttri röð)

  • Svartar fjaðrir, 1919
  • Kvæði, 1922
  • Kveðjur, 1924
  • Ný kvæði, 1929
  • Í byggðum, 1933
  • Að norðan, 1936
  • Ný kvæðabók, 1947
  • Ljóð frá liðnu sumri, 1956
  • Í dögun, 1960
  • Síðustu ljóð, 1966 (gefið út eftir dauða Davíðs)

[breyta] Heimildir

  • Ljóðasafn Davíðs Stefánssonar sem Vaka-Helgafell gaf út árið 1995
Á öðrum tungumálum