Bjarnarhöfn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarnarhöfn er bær og kirkjustaður í Hraunsvík, vestan Stykkishólms á Snæfellsnesi. Hún var landnámsstaður Bjarnar austræna. Margir merkismenn hafa búið á Bjarnarhöfn í gegnum tíðina. Hjörleifur Gilsson bjó á Bjarnarhöfn um árið 1200. Hann var faðir Arons Hjörleifssonar, sem getið er um í Sturlungasögu. Þar bjó einnig maður að nafni Marteinn Narfason. Hallgrímur Bachman læknir bjó þar frá 1773 til æviloka 1811. Hann varð fjórðungslæknir árið 1776. Hann hafði numið læknisfræði af Bjarna Pálssyni landlækni og einnig erlendis. Páll Melsted (1791-1861) var sýslumaður Snæfellinga 1849-1854 og bjó lengst af þeim tíma á Bjarnarhöfn.

Á eftir honum bjó þar Þoleifur Þorleifsson. (1801-1877). Hann var læknir á Snæfellsnesi á öldinni sem leið. Þorleifur var smáskammtalæknir og varð héraðslæknir. Hann var gæddur miklum hæfileikum; hann þótti mjög heppinnn læknir, aflasæll formaður, mikil skytta og dugandi bóndi. En það allra merkilegasta í fari hans var þó fjarsýnisgáfan. Margar sögur fara af því hvernig hann gat nýtt sér þennan hæfileika sinn til lækninga, sagt var að hann gæti séð það á fólki hverjir áttu von og hverjir ekki. Þórir Bergsson (1885-1970) rithöfundur, sem réttu nafni hét Þorsteinn Jónsson, átti heima á Bjarnarhöfn ásamt foreldrum sínum 1905-1907.

Thor Jensen (1863-1947) var verslunarstjóri í Borgarnesi frá 1889-1894 og á Akranesi til 1899. Flutti síðar til Reykjavíkur 1901 gerðist umsvifamikill útgerðar og kaupmaður og stóð m.a. að stofnun útgerðafélaga. Hann keypti Bjarnarhöfn og allt helsta nágrenni árið 1914. Thor rak þar mikið sauðfjárbú og lét reisa þar vönduð fjárhús fyrir 600 fjár, sem enn standa. Árið 1921 seldi hann svo Sveini Jóni Einarssyni jörðina og keypti sjálfur jörðina að Korpúlfsstöðum og kom þar upp stæsta kúabúi á Íslandi.


 

Þessi grein sem fjallar um landafræði Íslands er stubbur.
Þú getur hjálpað til með því að bæta við hana