Kolkuós

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kolkuós eru eyðijörð og forn verslunarstaður í Skagafjarðarsýslu á Íslandi, staðsett 15 km frá Sauðárkróki og 10 km frá Hofsósi

Efnisyfirlit

[breyta] Verslun í Kolbeinsárós

Eldra nafn Kolkuóss og hið löggilda verslunarnafn er Kolbeinsárós. Kolbeinsárós var aðalverslunarhöfn Skagfirðinga á landnámsöld. Þar var vörum skipað á land sem fluttar voru til biskupsstólsins á Hólum. Nokkru fyrir 1600 tekur Hofsós við sem aðalverslunarstaðurinn á þessum slóðum og verslun á Kolbeinsárós legst af.Verslun hófst aftur á Kolbeinsárós árið 1881 en þá verður staðurinn löggild verslunarhöfn. Kaupmenn á Sauðárkróki höfðu þar útibú og um áramótin 1900 voru þar fjögur verslunarhús.

[breyta] Landhættir

Hafnarstæði er gott frá náttúrunnar hendi í Kolkuósi, þar er tangi sem er eins og náttúruleg bryggja en vafasamt er að hafskip hafi getað siglt inn í sjálfan ósinn því þar er klöpp sem hindrar skipaferðir. Um 300 metra vestur frá tanganum er allhár klapparhólmi, Elínarhólmi.

[breyta] Fornminjar

Talið er að á Kolkuósi hafi nokkru fyrir siðskipti verið bænhús eða bjálkakirkja sem kaupmenn hafi reist.Mun það vera eina hús þeirrar gerðar á Íslandi.

[breyta] Búseta

Föst búseta hófst í Kolkuósi 1891, þá settust þar að Tómas Ísleiksson og Guðrún Jóelsdóttir. Þau fluttust seinna til Vesturheims. Árið 1901 fluttust Hartmann Ásgrímsson og Kristín Símonardóttir í Kolkuós og byrjuðu þar verslun. Þau byggðu íbúðarhús á árunum 1903-4. Það hús stendur enn. Þar standa einnig sláturhús sem byggt var árið 1913 og yfirbyggð rétt fyrir sláturfé sem byggð var 1914. Stofnað hefur verið félag sem vinnur að varðveislu Kolkuóss og enduruppbyggingu þessara bygginga.

Hartmann og Kristín bjuggu í Kolkuós til 1942. Sigurmon sonur þeirra og Haflína Björnsdóttir tóku þá við búinu. Þau bjuggu í Kolkuósi til 1985. Sigurmon var landskunnur fyrir hrossarækt sína á Svaðastaðastofni.

[breyta] Tengill