Eggert Ólafsson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eggert Ólafsson (1726-1768) var bóndasonur úr Svefneyjum á Breiðafirði.
Eggert nam náttúruvísindi við Hafnarháskóla, og lagði auk þess stund á fornfræði, málfræði, lögfræði, lögspeki og búfræði.
Eggert ritaði um ýmis efni, sem ekki hefur allt verið gefið út. Hann er og talinn frumkvöðull að því að semja samræmdar réttritunarreglur, en þær reglur eru fremur ólíkar þeim sem við fylgjum í dag. Einnig er hann talinn vera mesti málverndarsinni 18. aldar auk þess að vera þjóðræktarmaður.
Eggert fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta. Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta - líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772. Tveimur árum síðar kom bókin út á þýsku, á frönsku árið 1802 og hlutar hennar á ensku 1805. Á íslensku kom hún út árið 1943.
Eggert drukknaði á Breiðafirði árið 1768, ásamt konu sinni Ingibjörgu Halldórsdóttur, systur séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Voru þau á leið heim úr vetursetu í Sauðlauksdal. Um drukknun hans orti Matthías Jochumsson erfiljóðið Eggert Ólafsson.
[breyta] Útgefin rit
- 1772: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar
[breyta] Heimildir
Silja Aðalsteinsdóttir, 1993, Bók af bók, Mál og menning Reykjavík, prentun frá 2003.