Spjall:Ástæða
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ég er ekki viss um að hægt sé að segja að hegðunin sé alltaf viljastýrð (fer eftir því hvernig þú skilgreinir vilja). Hegðunin getur verið fullkomlega mekkanísk, en ástæður hennar getur maður gefið sér eftir á. --Heiða María 20. okt. 2005 kl. 09:59 (UTC)
- Við verðum að greina á milli þess að hafa ástæðu og að átta sig á að maður hafi ástæðu. Maður getur hafa haft ástæðu áður en maður framkvæmdi athöfn án þess að átta sig á þessari ástæðu og svo gæti maður áttað sig á þessari ástæðu eftir á og þá „gefið ástæðuna eftir á“; en það breytir svo sem engu um ástæðuna. Ef maður hafði hins vegar ekki ástæðuna áður en maður framkvæmdi athöfnina en finnur hana til eftir á einungis til að réttlæta sig, þá er ekki um raunverulega ástæðu að ræða, þ.e. ástæðan sem maður finnur eftir á til að réttlæta hegðun sína er ekki raunveruleg ástæða nema maður hafi haft hana (leynt eða ljóst) áður en maður framkvæmdi athöfnina. Ástæða sem maður hafði ekki áður en týnir til eftir á til að réttlæta sig er betur nefnd „eftir á réttlæting“.
- En það er hins vegar erfiður og vandasamur greinarmunur í þessari grein, nefnilega á ástæðuskýringum og orsakaskýringum. Ég held að það séu vel flestir heimspekingar orðnir sammála um að ástæður geti verið orsakir, þ.e.a.s. að orsök þess að ég geri x er einfaldlega sú að ég hef ástæðu til að gera x; m.ö.o. að ástæða mín til að gera x sé nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði þess að ég geri x. --Cessator 20. okt. 2005 kl. 15:16 (UTC)
-
- Miðað við það sem ég hef lesið er ástæða einmitt bara eftiráskýring, en kannski er það alls ekki viðtekið innan heimspeki. Svo er þetta reyndar eflaust bara spurning um mismunandi skýringarstig, allar ástæður eru líka orsakir en allar orsakir eru ekki ástæður. Ekki myndu samt allir sætta sig við að hægt sé að smætta ástæður í orsakir. --Heiða María 20. okt. 2005 kl. 15:37 (UTC)
-
-
- Ég held að það sé ekki verið að smætta ástæður í orsakir þegar sagt er að ástæður geti verið orsakir (það er ekki verið að segja að ástæðurnar séu ekkert nema orsakir; rétt eins og þegar sagt er að köttur sé spendýr, þá er ekki verið að smætta ketti í spendýr, heldur er verið að segja að þeir séu í hópi spendýra, að spendýr séu t.d. (en ekki einungis) kettir - á sama hátt er verið að segja að ástæður séu í hópi orsaka, að orsakir geti t.d. verið (en ekki einungis) ástæðurnar sem við höfum). En það er rétt að það eru ekki allar orsakir ástæður.
-
-
-
- Ástæður almennt eru auðvitað ekki allar eftir á skýringar. Ástæða til breytni er í raun bara skynsamlegt svar við spurningum eins og "Hvers vegna ætti ég að gera þetta?"; og ég get haft þetta svar áður en ég breyti. Þegar eitthvert svona "svar" á þátt í ákvörðun minni um að gera eitthvað, þá segjum við að ástæðan sé orsök. Eftiráskýring (ad hoc ástæða) væri það þegar við finnum svona "skynsamlegt svar" til að réttlæta hegðun okkar eftir á, þrátt fyrir að það hafi ekki átt neinn þátt í ákvörðun okkar á sínum tíma. Hvers vegna ætti ég t.d. að ganga í skóla? Hef ég einhverja ástæðu til þess? Mörg skynsamleg svör eru til við því (sem þurfa þó ekki að vera óumdeild eða þekkt af mér), t.d. að menntun auki lífshamingju, að menntun auki líkur á góðu starfi o.s.frv. Ef eitthvert þessara "svara" á þátt í ákvörðun minni um að ganga í skóla, þá segjum við að sú ástæða sé ein af orsökum þess að ég gangi í skóla (og ef þetta er tilfellið, þá verður skólaganga mín aldrei fullskýrð nema ástæðan sé tekin með í reikninginn). En ef ég vissi t.d. ekki að menntun kæmi mér í gott starf (eða hefði réttlætta skoðun að hún gerði það ekki, t.d. vegna þess að vinnumarkaðurinn í mínum geira er mettur), þá er ósennilegt að sú ástæða hafi mögulega getað verið raunveruleg ástæða til breytni eða hluti af orsök hennar. Áhugaverð spurning sem vaknar er hvort von (t.d. vonin um að það verði samt til atvinnutækifæri fyrir mig) geti verið ástæða. --Cessator 20. okt. 2005 kl. 16:10 (UTC)
-
-
-
- Ég gleymdi að geta þess að það eru auðvitað ekki allar ástæður orsakir, nefnilega ekki þær ástæður sem eiga ekki þátt í ákvörðunum okkar. Ég get t.d. haft ástæðu til að gera x og ástæðu til að gera ekki x, en augljóslega geri ég ekki hvort tveggja, x og ekki x, þannig að önnur ástæðan verður ekki þáttur í ákvörðun minni (sama hvað ég geri) og er þar með ekki orsök að neinu. Ég gæti t.a.m. haft ástæðu til að kjafta frá þegar ég kemst að því að vinur minn hafi svindlað á prófi og ég get haft ástæðu til að kjafta ekki frá (t.d. gæti prófið verið samkeppnispróf og ef ég kjafta eyk ég líkurnar á að ég komist áfram; eða einfaldlega að það er rétt að segja frá (m.ö.o. sú skoðun mín að það sé rétt); hins vegar hefði ég ástæðu til að kjafta ekki frá, því þá yrði vinur minn fúll eða reiður við mig; nú og kannski kjaftar hann þá frá mér - ef ég er að svindla líka - og þá hef ég heldur betur ástæðu til að halda kjafti). --Cessator 20. okt. 2005 kl. 16:20 (UTC)
-