Ásgarður (hverfi í Reykjavík)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ásgarður er heiti á hverfishluta í miðborg Reykjavíkur í brekkunni neðan við Skólavörðuholtið norðvestanmegin. Svæðið markast af Óðinsgötu/Urðarstíg í vestri og suðri, Njarðargötu í austri og Skólavörðustíg í norðri. Heiti hverfisins kemur til af því að allar göturnar heita í höfuðið á goðum og gyðjum í norrænni goðafræði.
Hverfið er fyrst og fremst íbúðahverfi, að Skólavörðustígnum undanskildum, en þar var lengi vel mikið af atvinnuhúsnæði í bland. Mikið af þessu húsnæði var breytt í íbúðarhúsnæði í upphafi 21. aldar en enn er þó töluvert af fyrirtækjum í hverfinu, einkum við Óðinsgötu og Freyjugötu. Á mörkum Óðinsgötu, Týsgötu og Þórsgötu er lítið torg, Óðinstorg, sem núna er bílastæði. Annað stórt opið svæði er leikvöllurinn við Freyjugötu.
[breyta] Götur
Götur í Ásgarði eru Bragagata, Freyjugata (að hluta), Haðarstígur, Lokastígur, Njarðargata, Nönnugata, Óðinsgata, Týsgata, Urðarstígur, Válastígur og Þórsgata.