Cristiano Ronaldo
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cristiano Ronaldo (fullt nafn Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro) er heimsþekktur knattspyrnumaður, fæddur 5. febrúar 1985. Hann hefur verið liðsmaður Manchester United frá árinu 2003 er hann var keyptur þangað fyrir 12.24 milljónir punda.
Ronaldo kemur upphaflega frá Funchal á Madeira-eyjum. Þegar hann var tólf ára var hann farinn að hlaupa af sér fullorðna menn og gat því hæglega spilað með eldri flokkum í félagi sínu. Ferilinn hóf hann hjá Nacional en fór fljótlega til Sporting Lissabon og í fyrsta leik sínum skoraði hann tvö mörk, draumabyrjun hjá liðinu sem hann hafði alla tíð haldið með. Alex Ferguson tók eftir honum í æfingaleik sem Manchester United spilaði við Sporting, og fékk strax áhuga á að fá hann til liðs við Manchester United. Lærisveinar hans sögðu við hann að hann yrði að kaupa þennan dreng og svo fór að hann var keyptur haustið 2003, fyrsti Portúgalinn í herbúðum United.
Ronaldo er framliggjandi miðjumaður/hægri kantmaður. Treyja hans er númer 7, en margar hetjur hafa einmitt borið þetta númer hjá liðinu, t.d. David Beckham og Eric Cantona. Leikni Ronaldo með boltann er mikil og er hann jafnvígur á báða fætur og getur því spilað báðum megin á vellinum. Hann er þekktur fyrir skærin sem hann tekur og fær bæði hrós og gagnrýni á þau. Á öðru tímabili sínu hjá Manchester breyttist leikstíllinn úr einmenningsleik í liðsleik en líklega er Maradona ein af fyrirmyndum hans hvað varðar sólun og skæri.
Fyrsti landsliðsleikur Ronaldo var fyrir Portúgal gegn Kasakstan haustið 2003 og skoraði hann eina mark liðs síns í upphafsleik Evrópumeistaramótsins 2004 gegn Grikkjum.