Kvennaskólinn í Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kvennaskólinn í Reykjavík, eða Kvennó í daglegu tali, er íslenskur framhaldsskóli í Reykjavík. Kvennaskólinn býður upp á hefðbundið fjögurra ára bóknám til stúdentsprófs á þremur námsbrautum; félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut. Skólinn byggir á bekkjakerfi þó verður einhver skörun síðustu tvö árin er nemendum býðst takmarkað val. Í skólanum eru um 550 nemendur og starfsmenn eru 55. Skólameistari er Ingibjörg Guðmundsdóttir og Oddný Hafberg aðstoðarskólameistari.

Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður af hjónunum Þóru og Páli Melsteð árið 1874, hann er þvi einn af elstu skólum landsins. Ingibjörg H. Bjarnason tók við starfi skólameistara um 1906 eftir að hafa kennt þar þrjú undanfarin ár. Eins og nafnið gefur til kynna var skólinn eingöngu fyrir stelpur, en því var breytt 1977 þegar piltum var veitt innganga til náms við skólann. Í dag eru piltar tæpur þriðjungur nemenda. Skólinn varð framhaldsskóli 1979 og fyrsti árgangurinn útskrifaðist 1982. Skólinn er til húsa að Fríkirkjuvegi 9 og Þingholtsstræti 37. Þetta hús er í daglegu tali kallað Uppsalir. Íþróttakennslan fer fram í líkamsræktarstöðinni World Class og í íþróttahúsi KR. Nokkrar sérstofur eru í skólanum, t.d. fyrir líffræði, efna- og eðlisfræði, listgreinar og nokkur tungumál. Skólinn vinnur mörg alþjóðlega samskiptaverkefni á hverju ári. Á síðustu árum hefur skólinn t.d. unnið með skólum frá Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Írlandi, Rúmeníu og Tékklandi. Nemendur, kennarar og stjórnendur hafa fengið heimsóknir frá og farið í heimsóknir til viðkomandi landa.

[breyta] Tengill