Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Reykjavíkurborg
Skjaldarmerki sveitarfélagsins
Staðsetning sveitarfélagsins
0000
Kjördæmi Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður
Flatarmál
 – Samtals
51. sæti
274 km²
Mannfjöldi
 – Samtals
 – Þéttleiki
1. sæti
116.446
424,99/km²
Borgarstjóri Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Þéttbýliskjarnar Reykjavík (íb. 115.420)
Grundarhverfi (íb. 582)
Póstnúmer 101-155
Vefsíða sveitarfélagsins
Tjörnin í Reykjavík
Tjörnin í Reykjavík

Reykjavík er höfuðborg lýðveldisins Íslands, fjölmennasta sveitarfélag þess og eina borgin. Ingólfur Arnarson, sem talinn er fyrsti landnámsmaður Íslands, settist að á Íslandi árið 874, að því talið er, og bjó sér ból og nefndi Reykjavík, þar sem borgin stendur nú. Nýlegir fornleifafundir á horni Aðalstrætis og Suðurgötu í miðborg Reykjavíkur eru taldir vera leifar af bæ Ingólfs. Sagan segir að hann hafi gefið bæ sínum nafnið vegna reykjarstróka sem ruku úr hverum í grenndinni.

Efnisyfirlit

[breyta] Saga

Eins og áður hefur komið fram var Ingólfur Arnarson fyrsti landnámsmaðurinn á Íslandi og settist hann að í Reykjavík. Hann kom hingað frá Noregi ásamt konu sinni Hallveigu Fróðadóttur, syni sínum Þorsteini og tveimur þrælum Vífli og Karli. Vífli og Karli veitt hann frelsi frir að finna öndvegissúlurnar sem hann varpaði frá borði og setti Vífill að á Vífilsstöðum, skammt frá. Í tíð og tíma byggðist fleiri bæir í kring og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn

Á miðöldum er frá litlu að segja af Reykjavík. Við Aðalstræti var Víkurkirkja byggð einhverntíman á ofanverðri þrettándu öld. Árið 1226 hófst byggð á Viðey þegar munkar af Ágústínusarreglu stofnuðu þar klaustur.

Á 17. öld keypti Kristján 4., konungur Vík. Ekki fór að myndast þéttbýli að ráði í Reykjavík fyrr en á 18. öld, en fram að því lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Á 6. áratug 18. aldar var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík að frumkvæði Skúla Magnússonar fógeta. Þetta fyrirtæki sem var kallað Innréttingarnar markaði þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttingananna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var byggt steinhús, sem í dag er Stjórnarráð Íslands, á árunum 1761-71 sem varð fyrsta fangelsi landsins.

Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786, í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í miðbæinn. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur, Páll Einarsson, tók til starfa 1908. Reykjavíkurhafnir voru byggðar í áföngum á árunum 1913-17 bættu mjög skipaaðstöðu. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni.

[breyta] Borgarstjórn

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er borgarstjóri í Reykjavík. Hann tók við starfinu 13. júní 2006 af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við af R listanum, sameiginlegu framboði flokkanna á miðju og til vinstri í pólitíkinni, sem hafði verið við völd í 16 ár í höfuðborginni. Vilhjálmur Þ. var 1. maður á framboðslista sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum 27. maí 2006. Listinn fékk 7 menn kjörna en vantaði 1 til þess að hafa hreinan meirihluta. Framsóknarflokkurinn leggur þann mann til meirihlutasamstarfsins, sinn eina fulltrúa í borgarstjórn, Björn Inga Hrafnsson sem verður forseti borgarstjórnar.

Hallgrímskirkja í miðbæ Reykjavíkur.
Hallgrímskirkja í miðbæ Reykjavíkur.

[breyta] Hverfaskipting

Hverfaskipting í Reykjavík
Hverfaskipting í Reykjavík

Samkvæmt Samþykkt um skiptingu Reykjavíkur í hverfi (staðfest af borgarráði 16. júní 2003) skiptist Reykjavík í tíu hverfi, hvert með sínu hverfisráði. Þau eru (með tilheyrandi hverfahlutum):

Hverfi 1 – Vesturbær

Gamli Vesturbærinn, Bráðræðisholt, Grandar, Hagar, Melar, Skjól, Grímsstaðaholt, Skildinganes og Litli Skerjafjörður.

Hverfi 2 – Miðborg

Tjarnarbrekka, Víkin, Arnarhóll, Skuggahverfi, Laufás, Spítalahlíð, Þingholt, Ásgarður, og Tungan.

Hverfi 3 – Hlíðar

Norðurmýri, Hlíðar, Hlemmur, Holt, Suðurhlíðar, Öskjuhlíð og Nauthólsvík.

Hverfi 4 – Laugardalur

Tún, Teigar, Lækir, Laugarnes, Sund, Heimar, Langholt, Vogar, Skeifan og Fen.

Hverfi 5 – Háaleiti

Háaleiti, Múlar, Kringlan, Bústaðir, Fossvogur, Smáíbúðahverfi og Blesugróf.'

Hverfi 6 – Breiðholt

Hólar, Fell, Berg, Sel, Skógar, Bakkar, Stekkir og Mjódd.

Hverfi 7 – Árbæjarhverfi

Selás, Árbær, Ártúnsholt, Bæjarháls, Norðlingaholt og Grafarholt.

Hverfi 8 – Grafarvogur

Hamrar, Foldir, Hús, Rimar, Borgir, Víkur, Engi, Spöng, Staðir, Höfðar, Bryggjuhverfi, Geirsnef, Gufunes og Geldinganes.

Hverfi 9 – Kjalarnes

Kjalarnes og Álfsnes.

Hverfi 10 – Úlfarsfell

(Enn er ekki farið að byggja í hverfinu og fellur það undir hverfisráð Árbæjar til að byrja með).

[breyta] Heimildir

[breyta] Tenglar