Hafskip
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hafskip hf var íslenskt flutningsþjónustufyrirtæki, sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum með þeim afleiðingum að úr varð mikið dómsmál, Hafskipsmálið. Dómsmálið vatt mikið upp á sig og vildu margir meina að stjórnmálamenn hefðu haft óeðlileg áhrif á framvindu mála. Albert Guðmundsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði af sér 24. mars 1987 vegna þáttar síns í málinu.
Efnisyfirlit |
[breyta] Samkeppni í siglingum
Hlutafélagið Hafskip hf var stofnað 11. nóvember 1958 fyrir tilstuðlan Verslunarsambandsins. Stofnendur og hluthafar voru 35 talsins og stofnfé var 1.565.000 kr. Markmiðið var að bjóða upp á hagkvæmari flutninga fyrir kaupmenn innan Verslanasambandsins. Fyrsta skip félagsins M.s. Laxá var tilbúið í september 1959 og kom að heimahöfn sinni í Vestmannaeyjum með timburfarm frá Póllandi í desember það ár. Árið 1963 átti Hafskip þrjú skip og hóf að veita Eimskipum og öðrum skipafélögum samkeppni með áætlunarferðum til Hamborgar, Rotterdam og Hull. Forstjóri Hafskips á árunum 1958-70 var Sigurður Njálsson.
Framan af gekk rekstur félagsins vel en um miðbik áttunda áratugsins var fyrirtækið komið í fjárkröggur. Stuttu fyrr hafði Hafskip fjárfest í fimm nýjum skipum fyrir lán sem tekin voru erlendis upp á ábyrgð hjá Útvegsbankanum. Þá keypti Magnús Magnússon hlutafé í Hafskipi fyrir um 30 milljónir króna árið 1972 eða um 40% í fyrirtækinu. Í kjölfarið var hann kosinn stjórnarformaður 1973 og tók við starfi forstjóra 1974. Þá stefndi allt í að Eimskipafélagið keypti Hafskip og voru samningaviðræður hafnar en á elleftu stundu sleit Magnús viðræðunum.
Í lok ársins 1977 var stokkað upp innan fyrirtækisins og Björgólfur Guðmundsson fenginn til þess að taka við stöðu framkvæmdastjóra. Eftir aðalfund hluthafa 11. maí 1978 safnaðist nýtt hlutafé og kosin var ný stjórn fyrirtækisins undir formennsku Alberts Guðmundssonar. Hálfu ári síðar réð Björgólfur svo til sín Ragnar Kjartansson. Fljótlega kom í ljós að Magnús, stjórnarformaður, hafði falsað reikningana fyrir kaupunum á skipunum fimm og stungið mismuninum undan. Hann var kærður til rannsóknarlögreglunar í desember sama ár. Eftir hluthafafund í febrúar 1970 þar sem Magnús féll úr stjórn félagsins í stjórnarkjöri féllst hann á að skila fénu sem hann hafði dregið að sér og var því fallið frá kæru í júní sama ár. Rekstur fyrirtækisins vænkaðist mjög og árið 1983 voru starfsmenn orðnir um 370, skip félagsins 8-12 og svæðisskrifstofur voru í Kaupmannahöfn, Varberg, Hamborg, Rotterdam, Ipswich og New York.
[breyta] Á krossgötum
Þá hófust á ný erfiðleikar í rekstri félagsins. Í desember 1982 skrifaði Ragnar Kjartansson, framkvæmdastjóri Hafskips, grein sem birtist í Morgunblaðinu sem var eins konar ákall til íslenskra fyrirtækja um að þau þyrftu að herja á erlenda markaði ellegar lúta í lægra haldi fyrir utanaðkomandi samkeppni.[1] Í henni segir m.a. „Við stöndum m.a. andspænis því verkefni að koma í veg fyrir, að Ísland framtíðarinnar verði annarsflokks hjáleiga sem afleiðing fólks- og kunnáttuflótta. ... Stórátak á komandi árum um íslenska útrás - íslenska alþjóðasinnun (internationalisering) er verk sem þarf að vinna. ... Erlendum milliliðum og afætum skal fækkað. Enginn skal komast upp með að níðast á eða misbjóða íslenskum hagsmunum í skjóli fjarlægða og minni þekkingar viðsemjandans.“ Leiða má líkum að því að Ragnar hafi verið að tala um fyrirbæri sem í dag er þekkt sem hnattvæðing og segja má að grein hans hafi verið nokkuð framsýn.
Sumarið 1983 hóf Hafskip svo í samvinnu við Eimskip að reka bílaferjuna Eddu sem sigldi milli Íslands, Bretlands og Þýskalands. Þetta framtak borgaði sig ekki og tap á rekstri ferjunnar var 40 milljónir sem féll jafnt á fyrirtækin tvö. Hafskip mátti illa við fjárhagslegum áföllum. Næsta ár töpuðu bæði fyrirtækin (Eimskip og Hafskip) flutningssamningum við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sem hefði orðið þeim mikil lyftistöng.
|
|
Þá hóf Hafskip Atlantshafssiglingar, nýja þjónustu, flutning varnings milli Evrópu og Norður-Ameríku, án viðkomu á Íslandi. Þessar siglingar hófust 15. nóvember 1984. Útvegsbankinn hafði nýlega hætt að veita fyrirtækinu lán. Í febrúar 1985 var leitað eftir frekar fé til fjárfestinga á hluthafafundi. Fundurinn nefndist „Á krossgötum“ og á honum söfnuðust 80 milljónir króna. Fyrirtækinu virtist borgið fyrir horn.
[breyta] Óvægin gagnrýni
Þessi tilraun Hafskips h.f. dugði þó ekki til þess að rétta úr kútnum. Þann 6. júní 1985, daginn fyrir aðalfund Hafskips hóf Helgarpósturinn að fjalla um mál Hafskips. Þjóðviljinn í ritstjórn Össurar Skarphéðinssonar hóf einnig að gagnrýna fyrirtækið og tengsl stjórnar þess við Sjálfstæðisflokkinn. Ásakanir komu fram um að stjórnarmenn Hafskips færu í dýrar utanlandsferðir þar sem í engu væri til sparað. Helgarpósturinn birti á forsíðu sinni mynd af golfboltum með merki Hafskips undir fyrirsögninni HÉGÓMI. Menn skiptust í flokkspólitískar línur hvað mál Hafskips varðaði. Á þessum tíma var Björgólfur Guðmundsson formaður og Ragnar Kjartansson framkvæmdastjóri Varðar - fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna. Í Helgarpóstinum og öðrum blöðum var því haldið fram að það væri einvörðungu tímaspursmál hvenær það yrði lýst gjaldþrota. Sumir vilja meina að þessi neikvæða umræða hafi öðru fremur orðið til þess að svo fór sem fór.
[breyta] Gjaldþrot og sakamál
Fundið var að því að Albert Guðmundsson, iðnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði í rúm tvö ár, frá byrjun árs 1981 og fram í júní 1983 verið formaður stjórnar Hafskips og formaður bankastjórnar Útvegsbankans, helsta viðskiptabanka Hafskips. Í desember 1985 var Hafskip lýst gjaldþrota og allar eignir seldar helsta keppinautnum, Eimskipafélagi Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var varaþingmaður Alþýðubandalagins tók til máls á Alþingi nokkrum dögum síðar, en áður hafði Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins veist harkalega að Hafskipi í ræðum á Alþingi. Í ræðu sinni sakaði Ólafur forsvarsmenn Hafskips um að nýta fé Hafskips í önnur verkefni og að á þjóðina þyrfti því að leggja sérstakan Hafskipsskatt til þess að greiða aftur tapið. Hann nefndi þetta mál „stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins“ og varðandi tengsl Sjálfstæðisflokksins fór hann fram á að „[þ]essi stærsti flokkur þjóðarinnar [yrði] þess vegna að vera reiðubúinn til samvinnu við þingheim allan og þjóðina til að leiða í ljós skýrt og skorinort að ekkert óeðlilegt, ekkert sem talist getur óeðlileg fyrirgreiðsla, óeðlileg hjálp, hafi átt sér stað hjá þeim forustumönnum [Sjálfstæðisflokksins] sem skipuðu stjórnendastöður innan Hafskips.“[2] Ummæli sem þessi eru til merkis um hversu miklar áhyggjur voru af umfangi málsins og hversu mikið óöryggi það leiddi af sér. Sumir töldu að gjaldþrot Hafskips og þar með Útvegsbankans myndi þýða keðjuverkun gjaldþrota hjá mörgum stærri fyrirtækjum. (Sjá ræðu Ólafs [2])
Ólafur hafði einnig á orði grunsemdir sínar um óeðlileg viðskipti milli Hafskips og Reykvískrar endurtryggingar. Björgólfur Guðmundsson og Ragnar Kjartansson áttu hvor fyrir sig 18% hlutdeild í tryggingarfyrirtækingu Reykvísk endurtrygging. Ólafur furðaði sig á því að þrátt fyrir að Hafskip væri mjög skuldsett skuldaði það Reykvískri endurtryggingu, sem Hafskip stundaði viðskipti við, ekki neitt. Sömuleiðis sá hann sérstaka ástæðu til þess að benda á að fyrirtæki í eigu Björgólfs og Ragnars hefði nýlega keypt húsið við Sóleyjargötu 1, þar sem í dag er skrifstofa forseta Íslands. Ólafur vandaði þeim félögunum ekki kveðjurnar og sagði þá hafa „séð til þess af óskammfeilni sinni að það sé flóðlýst á hverju kvöldi svo dýrðin fari nú ekki fram hjá neinum og allir geti skoðað sérstaklega, kjósendur [Framsóknarflokksins] og flokksmenn [Sjálfstæðisflokksins] allt í kringum landið, hvert peningarnir úr Útvegsbankanum fóru“.[2]
[breyta] Rannsókn
Eftir að endurskoðendur höfðu farið yfir bókhald fyrirtækisins komust þeir að þeirri niðurstöðu 6. maí 1986 að sjö starfsmenn Hafskips „[kynnu] að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi“. Þórður Björnsson ríkissaksóknari sendi málið samstundis áfram til Rannsóknarlögreglu ríkisins og um tveim vikum seinna voru sex menn handteknir og látnir sæta gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu næstu vikurnar. Hinir handteknu voru þeir Björgólfur forstjóri, Ragnar stjórnarformaður, Páll Bragi Kristjónsson viðskiptafræðingur, sem verið hafði framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hafskips til ársloka 1984 en þá gerst forstjóri Skrifstofuvéla hf., Helgi Magnússon viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi Hafskips, Sigurþór Charles Guðmundsson viðskiptafræðingur, aðalbókari Hafskips, og Þórður H. Hilmarsson rekstrarhagfræðingur, forstöðumaður hagdeildar Hafskips. Fjölmiðlar, sér í lagi „stjórnarandstöðublöðin“, gerðu sér að sjálfsögðu mat úr þessu og því var haldið fram að fjárhæðirnar sem um ræddi næmu tugum ef ekki hundruðum miljóna. Ennfremur þóttu mönnum eins og Ólafi Ragnari Grímssyni, Svavari Gestssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni sem að hér væri komin sönnun þess að hugmyndafræði sjálfstæðismanna, frjálshyggja, væri stórgölluð.[3]
Þann 17. júní kom í ljós að Guðmundur J. Guðmundsson, þingmaður Alþýðubandalagsins og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, hefði þegið greiðslur frá Eimskipafélaginu og Hafskip, samanlagt 120 þúsund krónur að upphæð. Ástæðan fyrir peningagreiðslunum var sú að Guðmundur glímdi við heilsuvandamál og vinir hans, þ.á.m. Albert Guðmundsson ákváðu að styrkja hann til heilsubótarferðar til útlanda. Eftir umfjallanir fjölmiðla ákvað Guðmundur að segja af sér þingmennsku.
Alþingi skipaði rannsóknarnefnd undir forsæti Jóns Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns sem skilaði skýrslu í nóvember 1986. Í henni var Útvegsbankinn gagnrýndur harðlega fyrir lánveitingar til Hafskips. Í mars 1987 upplýsti skattrannsóknarstjóri að Albert Guðmundsson hefði þegið tvær greiðslur frá Hafskipi á árunum 1984-85, að upphæð 117 og 130 þúsund krónur, án þess að telja þær fram til skatts. Albert sagði þessar greiðslur vera afslætti vegna viðskipta við heildsöluverslun sem sonur hans, Ingi Björn, ræki. Hann sagði svo af sér sem iðnaðarráðherra 23. mars., hann hafði þó engu að síður dyggan stuðning innan Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fljótlega eftir það í viðtali að Albert yrði ekki ráðherra Sjálfstæðisflokksins aftur. Albert brást við þessu með því að draga til baka nafn sitt af framboðslista Sjálfstæðisflokksins og stofna Borgaraflokkinn sem hlaut 10,9% atkvæða kosningarnar 1987.
[breyta] Ákærur og dómar
Í apríl 1987 gaf Hallvarður Einvarðsson, ríkissaksóknari, út ákærur á hendur 11 mönnum. Það voru forstjóri Hafskips, stjórnarformaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs ásamt endurskoðanda félagsins og auk þess voru ákærðir allir þrír bankastjórar Útvegsbankans, þrír fyrrverandi bankastjórar hans og einn aðstoðarbankastjóri. Málið var dæmt ómerkt í Hæstarétti í júlí 1987 og Hallvarður dæmdur vanhæfur sem ríkissaksóknari vegna skyldleika við bankaráðsmann í Útvegsbankanum.
Þetta urðu þó ekki endalok Hafskipsmálsins. Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti, var skipaður sérstakur ríkissaksóknari og í nóvember 1988 gaf hann út ákærur gegn sex fyrrverandi starfsmönnum Hafskips og endurskoðenda, þremur bankastjórum Útvegsbankans, einum aðstoðarbankastjóra, bankaráðsmönnum og endurskoðanda bankans. Í júlí 1990 sýknaði sakadómur Reykjavíkur 14 af 17 ákærðu; Björgólfur fékk fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, Páll Bragi tvo mánuði skilorðsbundið og Helgi 100 þúsund kr. sekt. Jónatan sagði af sér að þessu loknu en ákæruvaldið áfrýjaði dómunum þrem auk sýknudómsins yfir Ragnari Kjartanssyni til Hæstaréttar. Þann 5. júní 1991 þyngdi Hæstiréttur dóm Björgólfs í 12 mánuði. Ragnar fékk fimm mánaða skilorðsbundinn dóm og dómi Páls Braga var breytt í skilorðisbundinn fangelsisdóm í tvo mánuði. Loks var sekt Helga hækkuð í 500 þúsund krónur.
[breyta] Tilvísanir
- ↑ Íslensk alþjóðasinnun - öflug útrás: Nauðsyn vakningar og samstillts átaks (png). Morgunblaðið (2. desember 1982). Skoðað 31. mars, 2007.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar í utandagsrkárumræðu á Alþingi, 10. desember 1985. Skoðað 28. febrúar, 2007.
- ↑ Harmsaga Alþýðubandalagsins - máttlítil siðavöndun., bloggfærsla Björns Bjarnasonar um Hafskipsmálið.
[breyta] Heimildir
- Helgi Magnússon. Hafskip: gjörningar og gæsluvarðhalds. Frjálst framtak hf., 1986.
- Hafskipsmálið, Grein eftir Örnólf Árnason úr bókinni Ísland í aldanna rás 1900-2000
- Björn Jón Bragason. „Pólitískar afleiðingar Hafskipsmálsins“. Þjóðmál. 2 (4) (2006): 33-45.
- Útvegsbankaþáttur Hafskipsmálsins, erindi eftir Lárus Jónsson, fyrrverandi bankastjóra Útvegsbankans.
- Utandagskrár umræður um Hafskipsmálið á Alþingi, 10. desember 1985.