Álft

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wikipedia:Hvernig á að lesa flokkunarfræðilegar upplýsingar
Hvernig á að lesa flokkunarfræðilegar upplýsingar
Álft
Ástand stofns: Í lítilli hættu

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Gásfuglar (Anseriformes)
Ætt: Andaætt (Anatidae)
Ættkvísl: Cygnus
Tegund: C. cygnus
Fræðiheiti
Cygnus cygnus
(Linnaeus, 1758)

Álft eða svanur (fræðiheiti: Cygnus cygnus) er stór fugl af andaætt og stærsti fugl Íslands. Hún er sundönd og er alfriðuð enda stofninn ekki stór. Íslenskar álftir dvelja flestar á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina en kringum tíundi hluti hefur vetursetu á Íslandi. Samkvæmt talningum hefur álftastofninn verið frá 15.000 upp í 19.000 fuglar hin síðari ár og varpstofninn hér á landi mun einungis vera um 2.500 til 3.000 pör. Síðsumars fella fuglarnir fjaðrirnar og eru þá ófleygir

[breyta] Einkenni

Lengd: 118 - 132 sm. | Þyngd: 8 - 12 kg. | Vænghaf: 2,2 – 2,4 m.

Álftir eru mjög áberandi fuglar enda alhvítar með svartar fætur og dökk augu. Kynin eru eins í útliti en karlfuglinn er þó stærri og þyngri. Goggurinn er svartur með gulri rót, langan, beinan háls, flatan búk og afturhallandi stél á sundi. Unginn er ljósgrábrúnn og nef ljósrautt með kökkum oddi. Á sumrin geta fuglarnir verið meira eða minna gráir eða ryðrauðir af mýrarrauða úr vatninu. Röddin er líkust hljómmiklum lúðrablæstri.

[breyta] Fæða

Álftir eru jurtaætur sem nærast mest á vatna- og mýrargróðri ásamt því sem þær sækja í tún og eru taldar miklir skaðvaldar af landeigendum.

[breyta] Varp

Á vorin hópa þær sig gjarnan áður en varp hefst og eru þá auðfundnar. Álftin verpir um land allt bæði á láglendi og á hálendi og heldur sig við vötn, tjarnir, í mýrum og flóum. Þær gera sér háa dyngju með djúpri skál til að verpa í. Dyngjan er úr ýmsum gróðri sem þær finna í nágrenni við hreiðrið. Eggin eru oftast fjögur til sex. Varp hefst missnemma og fer það eftir því hvort álftirnar eru á láglendi eða hálendi.