Ágúst H. Bjarnason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ágúst H. Bjarnason (20. ágúst 187522. september 1952), var sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal og Jóhönnu K. Þorleifsdóttur. Ágúst var frumkvöðull í kennslu í sálarfræði og ritun bóka um sálarfræði á Íslandi. Hann samdi meðal annars fyrstu bókina um sálarfræði á íslensku.

Efnisyfirlit

[breyta] Menntun

Ágúst lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1894. Bylting varð í sögu sálfræði og heimspeki á Íslandi þegar Ágúst hélt svo ásamt Guðmundi Finnbogasyni til náms í Hafnarskólann í sálarfræði og heimspeki. Þeir luku báðir meistaraprófi árið 1901 og luku svo doktorsprófi árið 1911. Báðir höfðu þeir sálfræði sem aðalgrein. Lærifaðir Ágústs hét Harald Hoffding en hann var heimspekiprófessor við Hafnarháskólann og samdi gagnmerka kennslubók, psykoligi I omrids, sem var ein helsta kennslubók í sálfræði á vesturlöndum, en hún kom út árið 1882. Doktorsritgerð Ágústs fjallaði um franska heimspekinginn Jean-Marie Guyau.

[breyta] Kennsla, skriftir og skólastjórnun

Ágúst ritaði fjölda greina en hans kunnasta og áhrifamesta rit er Yfirlit yfir sögu mannsandans, sem byggðist á fyrirlestrum Hannesar Árnasonar og kom út í Reykjavík í fimm bindum á árunum 1905–1915, og síðar í endurskoðaðri, en ófullgerðri, útgáfu undir nafninu Saga mannsandans á árunum 1949-1954.

Ágúst var skipaður prófessor í heimspeki árið 1911 við Háskóla Íslands. Hann var rektor skólans frá 1918 til 1928 og skólastjóri Gagnfræðaskóla Reykjavíkur 1928 til 1944.

Ágúst samdi bækur bæði fyrir heimspeki og sálfræði en bók hans Almenn sálarfræði sem kom út árið 1916 var fyrsta íslenska frumsamda sálfræðibókin. Í bókinni er meðal annars komið inn á bakgrunn sálfræðinnar í heimspeki, rannsóknaraðferðir greinarinnar, einstök rannsóknarsvið eins og sáleðlisfræði Fechners, minnisransóknir Ebbinghaus og kenningar James og Lange um eðli tilfinninga. Bókin var byggð á kennslu hans í skólanum. Hann samdi einnig merkilegt rit um tilfinningar og kom að rannsóknum um dulræn fyrirbæri.

[breyta] Rit

  • Almenn rökfræði (1913, 1925)
  • Almenn sálarfræði (1916, 1938)
  • Um tilfinningalífið (1918)
  • Siðfræði (1924–1926)
  • Heimsmynd vísindanna (1931)
  • Vandamál mannlegs lífs (1943–1945)

[breyta] Heimildir