Spjall:Calígúla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þetta er hlægileg byrjun, en samt eitthvað. Ráðsöldungur var Senetor, en hvað nefnum við Consul á íslensku aftur. Og hvort embættið var það nú sem hann veitti hest sínum, var það Consul eða Senetor? Hvað segir þú Cessator? - Hákarl

Ráðsöldungur eða öldungaráðsmaður (sennilega algengara). Consul heitir á íslensku ræðismaður og mig minnir að hann hafi veitt hesti sínum það embætti; man það ekki alveg. En við skulum sleppa þessari k-dellu sem náði tökum á sumum af eldri kynslóðinni; það hvarflar ekki að neinum manni að breyta Clinton í Klinton og hví skyldum við þá gera það í latneskum nöfnum þegar við gerum það ekki í öðrum nöfnum? Spurningin er retórísk, svarið er að við ættum ekki að gera það :) --Cessator 00:58, 28 mars 2007 (UTC)

Bíddu nú við. Ég er EKKI af eldri kynslóðinni, en mér finnst að Kalígúla hafi unnið sér tilverurétt á íslensku. Flest keisaraheiti hafa alltaf verið skrifuð svona næstum einsog þau eru fram borin (flest). Clinton er allt annað mál. Ekki hægt að bera það saman. Pólverjar skrifa Kaligula, en þeir skrifa Clinton. Undantekningarnar eru það sem gera tungumál að mannamáli - annars værum við vélar.

Ef ekki á að skrifa rómversku keisarana með íslenskum stöfum, afhverju þá að vera þýða konungaheitin evrópsku á íslensku - og afhverju að vera byggja á íslenskum arfi yfirhöfuð. Afhverju tölum við þá ekki bara sænsku - ja eða ensku? Hvað segi ég, bretar umorða eftir eigin tungumáli villt og galið, og er talið vera hefð. En afhverju þá ekki hafa hvortveggja, íslensku umritunina og þá latnesku? -

p.s. Ráðsöldungur er öllu þjálla heiti en öldungaráðsmaður. Það finnst mér alltént. - Hákarl.

Við ættum ekki að vera að breyta nöfnum því þá endar þetta með rungulreið. Aumingja enskurinn er að reyna að komast út úr þem nafnaruglingi sem hann er kominn í en á bágt með það. Það skiptir okkur líka engu máli hvað Pólverjar gera; við erum ekki Pólverjar. Ensku konungaheitin skipta mig engu máli heldur. Stundum er hefðin þó öllum reglum sterkari, svona eins og hjá Hómer og Virgli, sem munu alltaf heita Hómer og Virgill. Nánar um þetta hérna og hérna. --Cessator 02:02, 28 mars 2007 (UTC)

Hver er svo þungur á metum að hann leyfir sér að fullyrða eftirfarandi: Ekki er mælt með þessari aðferð á íslensku.??? Bíddu við erum einna frægust þjóða fyrir að hafa okkar hefðir (og kannski bara líkt og aðrir), en nú á að stafnvenda og fara hvert? Og það fyrir löngu látna menn. Sigurður A. Magnússon reyndi að móta aðferð til að skrifa grísku á íslensku, held að Árni Bergmann hafi einnig gert eitthvað álíka fyrir rússneskuna eða var það Ingibjörg Haraldsdóttir. En aðferðir þeirra voru of litaðar af því að halda tryggð við málin sem þeir reyndu að túlka. Helgi Hálfdánar hefur farið sína leið, og Laxness sína og ég er nær þeim en skeggstrokumönnum. Ég held að ef Kalígúla birtist ekki, þá erum við farin að strjúka íslenskunni andhæris en kítla undir hökuna á latínunnni um of. Auðvitað á rétt latneskt heiti að birtast, og þar er henni kítlað, en afhverju þá að gleyma því hvernig við sjálf skrifum þetta - eftir okkar bændaruslarahætti - eða hvað á að kalla það að vilja hefla útlandið aðeins af latínunni? - Hákarl.

Æ, fjandinn hafi það, úr því þetta er þarna: (Tilvísun frá Kalígúla) þá lifi ég þetta af. Alltént í bili, þar til kemur að nýju byltingunni. Hvaða bylting er það? Það veit ég ekki, ég vonast bara eftir henni. - Hákarl.

Gleyma hvernig við sjálf skrifum þetta? Þú ert að gefa þér að það sé til einhver séríslensk leið til að skrifa þessi nöfn. Hvenær varð hún til? Laxness og Helgi Hálfdánarson eru sérvitringar. Já, þeir eru það. Íslenskir fornfræðingar fara með nöfnin eins og þarna er getið um. Í íslenskum útgáfum á ritum Ciceros (sem heitir svo í útgáfum á eigin ritum) er t.d. í formála og þýðingunum talað um Octavianus Augustus, Catullus og Caesar, Marcus Antonius, Quintus Mucius Scaevola og Catilinu. Gríska: Það er til aðferð til að umrita grísku, sjá aftan við Siðfræði Níkómakkosar. Sú aðferð endurspeglar samkomulag einhverrar nefndar (birtist upphaflega í Málfregnum minnir mig). Hver er annars svo þungur á metum að geta fullyrt að svoleiðis samkomulag sé of litað af því að halda tryggð við málin sem menn reyna að túlka? --Cessator 02:50, 28 mars 2007 (UTC)

Það er kannski eitthvert vit í þessu hjá þér, en ég vildi þó óska að íslenskir rithættir nafnanna kæmu einhversstaðar fram, þó ekki væri nema einhversstaðar mjög neðarlega, falið undir ökklasíðu skeggi latínunnar t.d. - Já, og Laxness og Helgi sérvitringar? Mikið helvíti hafa þá sérvitringar afrekað miðað við menn sem hafa enga sérvisku. Það kallar þó enginn Birting Candide á íslensku, og aðeins tilgerðarlegir kjánar nefna Lér konung King Lear. Tilgerðin er þó fest á hvunndagsklæðin eftir því hvernig tískan er, og áður en nokkur tekur eftir því er tilgerð orðin vani. Svona er heimurinn furðulegur, og ég sjálfsagt tilgerðarmons í látum mínum að setja sérviskuna á brjóstið. En ég lifi vel og uni við þetta, enda maður sátta. - Hákarl.

Eins og ég segi, þá er hefðin stundum sterkari en allar reglur. Birtíngur er prýðilegt dæmi. Enginn myndi samt kalla Ödípús Bægifót eða Svellfeta, ekki í neinni alvöru. Svellfeti konungur eða Bægifótur í Kólonos - nei fjandinn! Og það sjá allir að þýðingar eru komnar langt út fyrir öll mörk þegar Díonýsísos frá Halikarnassos er kallaður Guðmundur frá Saltkjötsstöðum! Ég er hlynntur því að fylgja almennum reglum (já, svo maður geti vitað hvernig maður á að fara með nafn þegar maður sér það og svo sama reglan gildi um öll nöfn sem eru eins) þegar hefðin er ekki eins sterk og í tilvikum Birtíngs, sem er auðvitað skálduð persóna (gilda kannski önnur lögmál, veit ekki) og í tilviki t.d. Virgils. Oftast er bara alls ekki til nein rótgróin hefð um meðferð nafna og þá getum við bara leitt hjá okkur sérvisku eldri kynslóða. En svo er líka nafnmyndin eitt og ritháttur annað. Cato og Kató er t.d. sama nafnmyndin með ólíkri stafsetningu ólíkt t.d. Vergilius og Virgill. En hvað sérstöðu íslenskunnar varðar þá má geta þess að íslenskan hefur sérstöðu einmitt út af þessum reglum, út af því að við umritum grísku nöfnin skv. því hvernig þau eru á grísku en notum ekki latneskar nafnmyndir eins og enskurinn (Platon en ekki Plato, Sextos Empeirikos en ekki Sextus Empiricus); en vitaskuld ætti sama regla almennt að gilda um latínuna. ....Þetta er orðið allt of langt mál :) --Cessator 03:53, 28 mars 2007 (UTC)

Neinei, ekkert of langt mál. En það er margt til í þessu hjá þér. Ég held þó að ef ég væri að skrifa um um Calígúla þá myndi ég skrifa Kalígúla. En við verðum þá að skrifa það á sérvisku mína og reyna að halda hinu fræðilegu. En væri þá ekki hægt að láta íslensku stafsetninguna birtast einsog Tilvísun frá... eða mjög neðarlega í greininni? - Hákarl.

Jah, það má svo sem hafa nafnið með k-i í sviga mín vegna. --Cessator 04:23, 28 mars 2007 (UTC)
Hvernig líst þér á þetta eins og þetta er núna? En svo eru þetta tiltölulega fá nöfn þar sem það tekur því yfirleitt að geta „íslenska“ ritháttarins; Germanicus getur ekki verið Germanikus, engin hefð fyrir því. --Cessator 04:28, 28 mars 2007 (UTC)

Þetta er geggjað. Þakka þér fyrir höfðingi. - Hakarl.