Flokkaspjall:Kynferði
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hérna... hvað er þetta? --Stefán Vignir Skarphéðinsson 17:36, 7 mar 2005 (UTC)
- Þetta var víst út af pistlinum sem var hérna áður. --Stefán Vignir Skarphéðinsson 17:38, 7 mar 2005 (UTC)
Hér á eftir fylgir pistillinn sem var sem settur var inn áðan af nafnlausum notanda, ég veit ekki hvaðan þetta kemur eða hvort við getum notað það en hér hafið þið það:
Samkynhneigð, tvíkynhneigð og klæðskipti fyrr á öldum
Samkynhneigð hefur, eins og allar aðrar hvatir sem hafa með kynlíf og kynferði að gera, alltaf verið til í mannlegu samfélagi. Oftast hefur þó verið litið framhjá henni eða þá að hún hefur verið bæld niður og gerð að refsiverðu athæfi. Í sumum tilfellum hefur samkynhneigðin verið tekið föstum tökum og úr henni hefur verið soðið saman einhverskonar kerfi sem hefur þá verið viðurkennt innan þess samfélags sem á í hlut. Þá hefur í 90% tilfella verið um samkynhneigð á milli karlmanna að ræða. Í þessari grein ætlum við að skoða nokkur skemmtileg dæmi.
Ríkar fjölskyldur í samfélagi Maya indíána sköffuðu ungum sonum sínum karlkyns kynlífsþræla til að koma í veg fyrir að þeir færu að hafa samfarir við ungar ógiftar Maya stúlkur. Með þessu móti gátu þeir semsagt enn verið “óspallaðir” áður en þeir gengju að eiga hina einu sönnu og það þótti mjög eftirsóknarvert. –Það er kannski spurning hvernig hjónabandið og samlíf þessara nýbökuðu Maya hjóna gekk eftir að búið var að “homma drengina upp”? Grikkir til forna voru frekar hrifnir af innilegum samböndum á milli karlmanna og hófu þau upp á sérstakan stall þó að þeir væru á lítt hrifnir af endaþarmsmökum. Um leið litu þeir svo á að þeir sem stunduðu slíkt kynlíf færu niður á stall til kvenna og innflytjenda, en það fólk þótti ekki eins göfugt og karlmaðurinn hvíti í öllu sínu veldi. Grikkir álitu að eina sambandið þar sem tveir jafningjar ættu í hlut væri samband á milli tveggja karla og var því skipt þannig að annar tók að sér að vera elskhuginn en hinn –elskandinn, eða The Lover and the Beloved eins og það heitir á ensku. Elskandinn var oftast töluvert eldri en elskhuginn og hlutverk hans var að gera elskhugann “siðferðislega fullkominn” með því að mennta hann og upplýsa um ýmsar göfugar dyggðir, m.a um töfraheima ástarinnar. Samfarir þeirra fóru þannig fram að annar klemmdi lim hins á milli læranna og horfðust félagarnir í augu á meðan. Þetta átti að lyfta báðum á háan stall og gera þá fullkomna í jafnræði sínu. Elskhuginn lét ekki undan vilja hins eldri og þó að honum gæti þótt ákaflega vænt um elskanda sinn þá var honum ekki ætlað að láta undan þeim stjórnlausa losta sem gæti fylgt í kjölfar væntumþykjunnar.
Plató leit svo á að samkynheigt samband á milli tveggja karlmanna myndi örva sál þeirra til að leita frekar inn á svið þekkingar og visku. Að þeir myndu sjálfkrafa verða fróðleiksfúsari fyrir vikið. Þá áttu þeir að vera samtímis elskhugi og elskandi og skipta þessum hlutverkum á milli sín. Plató var eins og aðrir samtímamenn sínir ekki eins hrifinn af því að þeir hefðu kynferðismök sem færu “alla leið”. Hann var alveg á því að karlarnir ættu ekkert að vera að láta undan kynlöngun sinni og taldi að með því myndi karlmennskan minnka og hugsanlega eiðast upp sem væri jú alveg hrikalegt.... “Líkaminn á undir öllum kringumstæðum að vera þræll skynseminnar og ástir á milli tveggja karlmanna ættu að vera til þess að frelsa sálir þeirra beggja,” sagði Plató annars hugar um leið og hann þuklaði upphandleggsvöðva elskhuga síns.
Drekka sæði til að breytast í karlmenn
Sambíu ættbálkurinn í Nýju Gíneu leit svo á að sæði karlmanna væri töfrasafi sem byggi í líkömum kynþroska karla og að þennan undravökva væri hvorki hægt að framleiða né glata. Af þessum ástæðum voru ungir drengir á aldrinum 7-10 ára látir hafa munnmök við kynþroska drengi eða eldri menn til þess að þeir fengju í sig sæði og gætu þar af leiðandi sjálfir orðið að karlmönnum. Um leið fengju þeir í sig göfugan anda forfeðranna, en þetta fólk trúði því að andar þeirra settust að í “töfrasafanum”. Það var samt ekkert eins og menn væru eitthvað að fíflast með þetta því eldri karlmenn sem reyndu að fá unga drengi til að drekka sæði sitt voru álitnir skrímsli og þurftu að sæta viðeigandi refsingu. Keraki ættbálkurinn í Nýju Gíneu hafði svipaðar hugmyndir um áhrifamátt sæðisins og trúðu þeir því að strákar yrðu að karlmönnum um leið og þroskaðir karlar hefðu við þá endaþarmsmök -plug and play... Þessum athöfnum var haldið mjög leyndum frá konum og börnum og ef upp komst um athæfið urðu vitin að gjalda með lífi sínu.
Lítið um lesbískt írafár
Samkynhneigð á milli kvenna hefur sjaldnar verið hafin upp í einhverskonar samfélagslegar hæðir, en sumir Melanesíubúar hvetja til þess að ungar stúlkur eigi kynferðislegt samræði við sér eldri konur til þess að vígja sig inn í fullorðinsárin. Aþenubúar litu á aðlöðun Spörtukvenna að hver annari sem mjög eðlilegan hlut og Plutarch var á því að jafnvel virðulegustu konur yrðu hugfangnar af ungum stúlkum og hann gat ekki séð að það væri nokkuð að því. Gríska skáldið Sappho rak einskonar akademíu fyrir ungar stúlkur á eyjunni Lesbos á sjöundu öld fyrir kristsburð. Unaðsfull ljóð hennar fjölluðu oftar en ekki um hugástir, ástríður og afbrýðissemi. Sumir lærimenn halda því fram að þessi ljóð séu öll aðeins táknræn en fleiri hallast að því að þetta hafi verið raunveruleg ástarljóð til kvenna og Ovid lýsti þeim hreinlega sem leiðarvísi að samkynhneigðum ástum kvenna á milli.
Klæðskiptingar og tvítóla verur
Þegar fólk fæðist tvítóla á okkar tímum er því næstum því alltaf “kippt í liðinn” með viðeigandi skurðaðgerðum. Okkur mannfólkinu líkar það ekki að mannvera geti hvorki verið karl né kona þó svo að skapari okkar virðist sjá góða ástæðu til þess að láta fólk fæðast svoleiðis. Enska orðið yfir tvítóla manneskju er Hermafrodite, en Hermafródítus var afkvæmi guðanna Hermes og Afródítu og sá kappi taldist hvorki karl né kona. Það hefur lengi tíðkast í mörgum trúarbrögðum að viðurkenna tvíkynja verur sem guðlegar og virðingarverðar, en þegar þetta raunverulega gerist í mannheimum þá er oftast annað uppi á teningnum.
Týndir tvítóla hlekkir
Plató reyndi að útskýra undarlega togstreitu kynjanna í leikriti sínu Symposium. Þar lætur hann Aristophanes segja sögu frá því að í árdaga mannkyns hafi þrjár tegundir af verum gengið á jörðinni; karlkyns, kvenkyns og tvítóla. Allar þessar verur voru einskonar síamstvíburar, með fjóra fætur og fjóra handleggi. Þessar verur urðu svo valdamiklar að Seifur ákvað að skilja þær að í tvo hluta. Líkamshlutar karlkyns veranna urðu að hommum, líkamshlutar kvenkyns veranna urðu að lesbíum og tvíkynja verurnar sem voru klofnar í tvennt, breyttust annars vegar í karlmenn sem girnast konur og eru þeim um leið ótrúir og kvenhlutarnir urðu að samskonar kvenmönnum. Þetta átti að útskýra undarlega hegðun okkar í ástarmálum. -Við erum tvítóla verur að leita aftur í uppruna okkar!
Tvíkynja Kristur
Sú hugmynd að skapari okkar hafi sjálf/ur verið tvítóla er þekkt víða um heim, m.a í Norður og Suður Ameríku, Afríku, Ástralíu og á Miðjarðarhafs eyjum. Hér á vesturlöndum og í austurlöndum nær, hefur hugmyndin um tvíkynja Guð verið mikið til bæld niður og henni eytt með ýmsum ráðum, en þó má enn rekja þetta aftur í bækur gyðinga og dulspekifólks innan kristninnar. Í hebreskri frásögn um uppruna mannkyns, eða Genesis, stendur skrifað að Guð hafi skapað fyrsta manninn tvítóla. Þannig gat Adam fætt Evu af sér... og fyrst Guð var hvorki karl né kona og skapaði manninn í sinni mynd, þá hlaut Guð að vera tvíkynja. Rithöfundurinn og guðspekifræðingurinn Jakob Boheme (1575-1624) var mikill áhrifavaldur að síðar útbreiddri skoðun að Jesús Kristur, sonur Guðs, hefði sjálfur verið tvíkynja líkt og faðir hans, þar sem karlkyns og kvenkyns eðlisþættir mættust í fullkominni einingu í sál hans. Sjálf getum við dregið ályktanir af teikningum og málverkum sem gerð hafa verið af frelsaranum þar sem hann oftar en ekki, líkist meira fíngerðri konu með skegg en rúmlega þrítugum karlmanni sem var þar að auki smiður.
Bannað að vera píkulegur
Þó að flest trúarbrögð líti á það sem ákaflega eftirsóknarvert að bera innra með sér eiginleika karls og konu, horfir aldrei eins við þegar börn fæðast hvorki af kven né karlkyni. Eins og áður segir, eru þau “leiðrétt” hér á vesturlöndum, en víða annarsstaðar eru svona börn drepinn í fæðingu. Að sama skapi eru kvenlegir karlmenn (hvað þá karlmenn sem vilja bregða sér í kvenmannsföt) ekki taldir miklir dáðadrengir og það telst ekki fínt að vera “stelpustrákur” eða “píkulegur” karlmaður. Madonna potaði þessum hugmyndum inn í texta hjá sér á nýlegri plötu þar sem hún segir orðrétt í laginu What it feels like for a girl:
Girls can wear jeans And cut their hair short Wear shirts and boots 'Cause it's OK to be a boy But for a boy to look like a girl is degrading 'Cause you think that being a girl is degrading But secretly you'd love to know what it's like Wouldn't you What it feels like for a girl
Snari maður þessum texta yfir á móðurmálið þá er hann nokkurnveginn svona:
Stelpur geta klæðst gallabuxum Og verið stuttklipptar Klætt sig í skyrtur og boli -Því það er allt í lagi að vera strákur En þegar strákur lítur út eins og stelpa þá telst það niðurlægjandi Því þér finnst það niðurlægjandi að vera stelpa En í laumi þá langar þig til að vita hvernig það er Er það ekki Hvernig það er að vera stelpa...
Þegar konur klæða sig eins og karlmenn og eru á einhvern hátt karlmannlegar, er oftar litið framhjá því og litlar athugasemdir gerðar við það. Þær eru í mesta lagi álitnar lesbíur en þá þurfa þær líka að vera afar karlmannlegar. Skýringuna á þessum mun má kannski finna hjá Grikkjum til forna, en menning okkar vesturlandabúa var jú í stórum dráttum mótuð af þessum mönnum sem álitu karlmanninn þá göfugustu og dásamlegustu veru sem fyrirfannst í gervöllu sólkerfi voru.
Sjamanar í kvenmannsgerfi
Í Norður Ameríku og Síberíu eru sjamanar nánast undantekningarlaust karlmenn, en sumir þeirra klæðast þó kvenfatnaði, eða gera sér upp blæðingar og barneignir í ákveðnum helgiathöfnum. Sumstaðar er að finna sjamana sem klæðast alltaf kvenfatnaði, “breytast” í kvenmenn og ganga loks að eiga aðra karlmenn. Þetta tíðkast til dæmis hjá Chukchi ættflokknum í Síberíu sem enn er í góðu stuði. Þegar andarnir ákalla þá sem unga menn og láta þá vita að nú skuli þeir verða þessi ákveðna tegund af sjaman, heltekur marga þeirra mikill ótti sem endar stundum með sjálfsvígi. Það þykja ekki góð örlög að verða “mjúkur maður” en aðallega mun það vera breytingarferlið sem hræðir. Breytingin gengur yfir á nokkrum stigum. Fyrsta stigið einkennist af því að hinn verðandi mjúki sjaman fer að greiða hár sitt líkt og kvenmaður og skreyta það með perlum og öðru punti. Á öðru stigi byrjar hann að klæðast kvenmannsfötum. Þegar gagnger umskipti eiga sér síðan stað og loka hnykkurinn gengur yfir, þá losar hann sig við veiðifæri sín og tekur upp kvenmannsstörf. Líkami hans mýkist og missir karlmannlegan styrk sinn og um þetta leyti er drengurinn sendur á á stefnumót með öðrum ungum karlmönnum. Stefnumótin ganga ofast príðilega þar sem “mjúki maðurinn” nýtur liðsauka Ke´le sem er eiginmaður hans í andaheimum. Eftir vissann tíma og ákveðið magn af stefnumótum þykir tímabært að “mjúki maðurinn” velji sér eiginmann úr mannheimum og gangi í það heilaga. Mjúkur maður úr Chuckchi ættbálki, maður að nafni E-Chuck, hélt því fram að hann hefði sjálfur fætt af sér syni sína, en þeir voru getnir af eiginmanni hans úr andaheimum. Annar maður af sama ættflokki giftist konu sem fæddi honum nokkra syni áður en hann fékk köllunina um að hann skyldi verða mjúkur maður. Hann skildi við konuna og gekk að eiga karlmann, tók svo synina með sér í hjónabandið og strákahópurinn óx og dafnaði á meðan hjónaband eiginmannanna entist í tuttugu ár. Þrátt fyrir að þessir sérstöku sjamanar hafi ekki sama styrk og sjamanar sem fá að vera af því kyni sem þeir fæddust með, eru flestir þó hræddir við krafta þeirra. Það stafar ekki af þeim sjálfum, heldur því að eiginmenn þeirra í andaheimum munu vera ákaflega afbrýðissamir og þar af leiðandi hefnigjarnir líka. Því njóta þessir hommar og klæðskiptingar ákveðinnar virðingar í hópi sjamana og enginn fettir fingur út í það að þeir lifi þessháttar lífi -hvorki sjamanar né aðrir.
Leyfilegt undir yfirskyni lista eða trúarbragða
Klæðskiptingar hafa löngum átt sinn fasta sess í leikhúsi. Í hefðbundnu Japönsku leikhúsi tíðkast það að karlmenn leiki konur. Þessir karlmenn eru kallaðir Onnagata. Því var haldið fram af frægasta Onnagata japana að kona gæti aldrei leikið konu eins vel og karlmaður því hún væri ómeðvituð um þá eiginleika sem gera hana fallega og aðlaðandi sem konu. Karlmaður ætti auðveldara með að líkja eftir henni og ýkja með því hreyfingarnar og þokkann sem hún hefði til að bera. Í mörgum leikritum Shakesbears er hefð fyrir því að konur leiki ákveðin hlutverk karlmanna og Pétur Pan hefur nánast undantekningarlaust verið leikinn af kvenmanni. Grínistar hafa líka ekki vílað það fyrir sér að vippa sér í kvenhlutverkin. M.a gerði Monthy Python hópurinn það á mjög skemmtilegan hátt og það sama má segja um Fóstbræður. Í dag er það einnig orðin vinsæl skemmtun hjá almenningi að venjulegir karlmenn bregði sér í drag á t.d árshátíðum og fáir sjá neitt athugavert við það. Allir sitja bara og berja sér á lær með tilheyrandi bakföllum því það þykir voða fyndið að sjá karlmann í kvenfatnaði. Raunin er þó önnur þegar menn vilja gera þetta að lífstíl sínum í daglegu athæfi og störfum. Þá verða þeir undantekningarlaust fyrir einelti og aðkasti og þykja svo skrítnir og afbrigðilegir að það hálfa væri nóg.
Óður til klæðskiptinga
Klæðskiptings tilfelli b-mynda leikstjórans Ed Wood er löngu orðið frægt og þá sérstaklega eftir að gerð var um hann samnefnd kvikmynd sem skartaði Johnny Depp í aðalhlutverki. Ed fannst gott að bregða sér í kvenmannsföt og þá sérstaklega angórupeysur. Togstreita hans varð svo mikil að hann gerði um þetta mynd sem hann kallaði Glen or Glenda og var hún einskonar óður til klæðskiptinga. Þar nýtti hann sér ýmis rök máli sínu til stuðnings. Meðal annars þau að ef Guð hefði ætlað manninum að fljúga þá hefði hann skapað okkur með vængi, en nú hefðum við smíðað flugvélar og allir væru meira en lítið sáttir við þær. Tímarnir breyttust og mennirnir með. Konur væru farnar að ganga í buxum og vinna karlmannsverk. Hvers vegna ættu þá ekki karlmenn að fá að klæðast kvenmannsfötum? Honum tókst það vel upp með áróður sinn að samstarfsfólk hans kippti sér ekki upp við það að hann mætti til vinnu í angórupeysu og með hárkollu, en það hefur þó eflaust verið umburðarlyndari hópur en sauðsvartur almúginn.
Manneskja en ekki “kyn”
Margir kynja og mannfræðingar nútímans halda því fram að klæðskiptihneigð og sú menning sem tíðkast í kringum í kringum klæðskiptinga af báðum kynjum, bæði í hinum “siðmenntaða” heimi og annarsstaðar, sé einskonar árás á þá hugmynd að mannleg hegðun verði að vera flokkuð sem annaðhvort karlmannleg eða kvenleg. Að eiginleikar manneskjunnar eigi ekki að þurfa að lúta að þessum flokkunum. Þetta útskýrir að mörgu leiti þá hefð að umbreyta kynjahlutverkunum í mörgum helgiathöfnum mismunandi trúarbragða, því um leið og kynjahlutverkið hefur verið tekið og því snúið við eða eytt, þá fær sjálfið að brjótast fram og vera frjálst. Þá er einstaklingurinn einfaldlega persóna, en ekki karlmaður eða kvenmaður sem neyðist til að lúta að þeim hegðunarlögmálum og þeim kröfum sem eru gerðar til okkar í þessu samhengi.
--Bjarki Sigursveinsson 17:44, 7 mar 2005 (UTC)