Dauðarefsing
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dauðarefsing felst í því að taka af lífi dæmda sakamenn í refsingarskyni. Aftökur á glæpamönnum og pólitískum andstæðingum hafa verið hluti af nánast öllum samfélögum í gegnum tíðina en hafa nú verið afnumdar í mörgum löndum. Flest ríki í Evrópu, Ameríku og Eyjaálfu hafa afnumið dauðarefsingu úr lögum sínum, annaðhvort algjörlega eða fyrir glæpi sem ekki eru framdir við sérstakar aðstæður eins og t.d. á stríðstímum eða þá að þau hafa ekki tekið neinn af lífi í lengri tíma. Stærsta undantekningin eru Bandaríkin. Í Asíu halda flest ríki í dauðarefsingu og í Afríku eru ríkin álíka mörg sem að nota dauðarefsingu og þau sem gera það ekki.
Þar sem að dauðarefsing er notuð er það vegna þeirra glæpa sem metnir eru alvarlegastir í hverju samfélagi. Oft er það aðeins morð en í mörgum ríkjum einnig fyrir glæpi eins og: landráð, nauðganir, fíkniefnaglæpi, þjófnaði, spillingu, hryðjuverk, sjórán og íkveikjur. Ýmis hegðun tengd trúarbrögðum og kynlífi varðar ekki lengur við dauðarefsingu víðast hvar, þar má nefna galdra, villutrú, trúleysi, samkynhneigð og hórdóm. Í herjum eru oft sérstakir herdómstólar sem að dæma menn til dauða fyrir heigulshátt, liðhlaup, óhlýðni eða uppreisnir.
Þær aðferðir sem beitt hefur verið við fullnustu dauðarefsingar eru fjölmargar og takamarkast aðeins af hugmyndaauðgi þeirra sem í hlut eiga en einna algengast er að fólk sé skotið, hengt, hálshöggvið eða líflátið með eitri.