Silfuraldarlatína
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Silfuraldarlatína, silfurlatína eða síðklassísk latína vísar til latínu latneskra bókmennta á 1. og 2. öld e.Kr. eða frá 14 - 180. Silfuraldarlatína er tímabilið á eftir gullaldarlatínu og á undan seinni tíma latínu.
Bókmenntir þessa tímabils hafa stundum verið álitnar verri eða ómerkilegri en bókmenntir gullaldarlatínunnar og því getur orðið „silfuraldarlatína“ haft neikvæðan blæ. Aftur á móti þykir mörgum gagnrýnin á höfunda silfuraldarinnar ósanngjörn og margir þeirra hafa fengið mikla athygli fræðimanna undanfarið.
Tímabili silfuraldarlatínu má skipta í tvennt: tímabil róttækra tilrauna á síðari hluta 1. aldar og „nýklassisissmi“ á 2. öld.
Á valdatímum Nerós og Domitianusar reyndu skáld á borð við Lucius Annaeus Seneca, Lucanus og Statius fyrir sér með nýjan stíl, sem hefur hefur verið lofaður og lastaður jafnt af gagnrýnendum síðari tíma.
Bókmenntir þessa tíma bera vitni um mælskufræði í menntun Rómverja. Höfundar eru oft háfleygir, framandi orðaforði og orðanotkun og fáguð orðatiltæki eru víða í ritum þeirra.
Verk frá síðari hluta 1. aldar bera oft merki um áhuga höfunda á ruddalegu ofbeldi, göldrum og öfgakenndum ástríðum. Vegna áhrifa frá stóuspeki dvínaði mikilvægi guðanna en geðshræringar og orsakir þeirra eru mikilvægt stef. Geðshræringar eins og reiði, stolt og öfund fá nánast líffærafræðilega meðhöndlun í formi bruna, bólgu og uppsöfnunar blóðs eða galls. Statius lýsir jafnvel innblæstri sönggyðjanna sem „hitasótt“.
Þótt aðdáendum klassískrar gullaldarlatínu, bæði í fornöld og á nýöld, hafi ekki líkað öfgar þessara skálda bæði í efnistökum og stíl voru þau eigi að síður í miklu uppáhaldi evrópskra menntamanna á endurreisnartímanum og meðal margra enskra skálda módernismans.
Við lok 1. aldar voru ýmsir höfundar farnir að bregðast við og Tacitus, Quintilianus og Juvenalis bera allir vitni um endurlífgun hófstilltari stíls undir áhrifum frá klassískri latínu á valdatíma Trajanusar og antonísku keisaranna.
Á silfuröldinni voru einnig samdar tvær skáldsögur á latínu sem eru varðveittar: Gullni asninn eftir Apuleius og Satyricon eftir Petronius.
Meðal höfunda silfuraldarinnar eru Petronius, Seneca, Phaedrus, Persius, Quintilianus, Lucanus, Statius, Tacitus, Martialis, Juvenalis, Plinius yngri, Suetonius, Aulus Gellius, og Apuleius.
[breyta] Heimild
- Greinin „Silver Age of Latin literature“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. apríl 2006.
[breyta] Frekari fróðleikur
Conte, Gian Biagio, Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1994).