Dulið minni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dulið minni felst í því að fyrri reynsla gerir okkur kleift að framkvæma ákveðna hluti án þess að vera með hugann við upprifjun, e-ð sem við þurfum ekki að muna aðferðina við til að geta athafnað okkur, t.d. synda, hjóla, dansa o.s.frv. Í duldu minni býr sú þekking sem okkur reynist erfiðara að hafa meðvitaðan aðgang að, t.d. hreyfifærni og nám lært með viðbragðsskilyrðingu. Um er að ræða ómeðvitað minni þar sem venjulegri upprifjun verður ekki við komið. Dulið minni veldur því að börn geta jafnvel munað það sem henti þau þegar þau voru enn í móðurkviði.

Til eru þrjár tegundir dulins minnis: Aðferðaminni, viðbragðsskilyrðing og viðvani. Mest athygli hefur þó beinst að aðferðarminninu þegar talað er um dulið minni.

  • Aðferðaminni er það að vita hvernig maður framkvæmir ákveðna hluti. Hæfileikinn að halda jafnvægi á hjóli og keyra bíl krefjast flókinnar samhæfingar hreyfinga og skynjunar. Við lærum fyrst réttu hreyfingarnar og hvernig best er að eiga við hlutina þangað til að þetta fer allt saman að verða meira og minna ósjálfrátt. Í aðferðaminni er talað um að fyrri reynsla stýri síðari hegðun, t.d. getur lífvera lært að forðast ákveðna staði hafi hún slæma reynslu af honum úr fortíðinni. Hún þarf ekki að vera beinlínis meðvituð um það sem gerðist og meira að segja ekki endilega muna atburðinn, heldur verða viðbrögð hennar sjálfvirk. Sálfræðingurinn Endel Tulving álítur að aðferðaminnið sé elst í þróunarlegu tilliti en atburðarminnið yngst og viðkvæmast fyrir áföllum. Aðferðaminni getur líka tengst flóknara hugrænu atferli, t.d lestri, en þá reiðum við okkur á aðferðaminnið. Það sem einkennir nám af slíku tagi er að atferlið er hægt og hikandi í byrjun en þegar leikni er náð að fullu verður það sjálfvirkt og ómeðvitað.
  • Viðbragðsskilyrðingin felst í stuttu máli í því að parað er saman annars vegar óskilyrt áreiti, t.d. sem vekur meðfædda svörun sem ekki þarf að læra eins og að bregða við hávaða, og hins vegar svokallað skilyrt áreiti, sem vekur svörun sem ekki hefur tengst áður þessu áreiti t.d að óttast staðinn sem hávaðinn varð.
  • Viðvani felst í því að við hættum að taka eftir áreiti sem færir okkur engar nýjar upplýsingar, t.d tifi í klukku og umferðarhljóði.