Þingvellir
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á.
Þingvellir eru einn af mikilvægustu stöðunum í íslenskri sögu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega allt fram til ársins 1798. Það var árið 999 eða 1000 sem lögsögumaðurinn Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og lýsti íslendinga í kjölfarið kristna.
Það var einnig á Þingvöllum sem Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði þann 17. júní 1944.