Menntaskólinn Hraðbraut
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
- Þessi grein fjallar um Menntaskólann Hraðbraut. Til að sjá greinina um vegi skaltu skoða Hraðbraut.
![]() |
|
Einkunnarorð | Comple gymnasium duobus annis. Latína: „Kláraðu menntaskólann á tveimur árum.“ Duobus annis prius. |
---|---|
Stofnaður | Ágúst 2003 |
Tegund | Einkaskóli |
Skólastjóri | Ólafur Haukur Johnson |
Nemendur | 150 |
Staðsetning | Faxafeni 10, í húsi Framtíðarinnar |
Sími | 517 5040 |
Gælunöfn | Hraðbraut |
Heimasíða | www.hradbraut.is |
Menntaskólinn Hraðbraut er íslenskur framhaldsskóli sem stofnsettur var árið 2003 og gerir nemendum kleift að ljúka stúdentsprófi á aðeins tveimur árum, í stað fjögurra eins og venjan er á Íslandi. Þar býðst nemendum að taka Náttúrufræðibraut og Málabraut, en báðar brautirnar leggja umtalsverða áherslu á raunvísindi svo sem stærðfræði og líffræði. Áfangalýsingar eru samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins. Við val á námsbrautum og námsgreinum er miðað að því að námið veiti sem bestan undirbúning undir fjölbreytt nám á háskólastigi. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á þeirri áherslu sem lögð er á tjáningu, ensku og stærðfræði en með því er reynt að leggja traustan grunn að góðri framhaldsmenntun.
Efnisyfirlit |
[breyta] Saga skólans

Segja má að fyrirmynd Menntaskólans Hraðbrautar sé Sumarskólinn sem hefur lengst af starfað í Háskóla Íslands. Þetta gildir aðallega um það hvernig náminu er hegðað, og ekki einungis hafa fjölmargir við Sumarskólann lokið 9 eininga námi í júní á hverju ári heldur hefur námsfyrirkomulagið gefist vel og námið reynst viðráðanlegt. Sumarskólinn hefur starfað í heil 10 ár.
Skólinn tók til starfa haustið 2003 og eru nemendur skólans eru um 130 talsins frá skólaárinu 2005-2006. Þetta er lítill fjöldi miðað við aðra íslenska framhaldsskóla, sem flestir hafa um 200-500 nemendur.
Nafnið Hraðbraut vísar til þess hve hratt nemendur geta klárað skólann. Skólinn er til húsa að Faxafeni 10 í húsi Framtíðarinnar og er Hraðbraut ehf., (kt. 490403-2210) í eigu Nýsis hf. og Gagns ehf.
[breyta] Um skólann og tilgangur hans
Alþjóðleg rannsókn (PISA) sýndi að Íslendingar stæðu sig ekki nógu vel í því að sinna þeim námsmönnum sem væru yfir meðaltali í námsárangri. Menntaskólinn Hraðbraut er því settur fram sem valkostur fyrir þá nemendur sem standa sig mjög vel í skóla og kjósa hraðari yfirferð í námi sínu til að halda áhuga sínum og til að ná fyrr markmiðum sínum. Námsskipulagið miðar við að skólaárið verður lengra og nemendur taka hvern áfanga á styttri tíma. Metnaðarfullir nemendur ná fyrr markmiðum sínum sem geta verið af öllu tagi, arkitektúr, verkfræði, tölvunarfræði, tungumálanám, kennsla, fatahönnun eða hjúkrunarfræði. Einnig hentar skólinn vel fyrir fólk sem hefur frestað því að fara í menntaskóla í langan tíma og vill fara snöggt í gegnum hann.
[breyta] Námsskipulag
- Aðalgrein um námsskipulag við Menntaskólann Hraðbraut: Námsskipulag við Menntaskólann Hraðbraut.
Námið allt fer fram í 15 törnum, og hver þeirra er sex vikur að lengd. Kenndir eru þrír þriggja eininga áfangar í senn. Hver törn er fjórar vikur í kennslu og svo taka við próf sem taka eina viku. Að því loknu er hlé í eina viku, nema nemandi hafi ekki staðist próf. Nemendur ljúka því oftast 9 einingum í hverri lotu að frátalinni síðustu lotu þar sem þeir klára aðeins 6 einingar.
Kennslutími er þannig að kennt er þrjá daga í viku, þ.e. mánudaga, miðvikudaga og föstudaga en hina dagana er yfirseta. Alltaf er kennt frá kl. 8:30 - 16:05.
Farið er hratt yfir námsefni og því brýnt að nemendur stundi nám sitt samviskusamlega. Sérstök áhersla er lögð á að hafa allar kennslustundir nákvæmlega skipulagðar, en hver kennslustund er 60 mínútur.
[breyta] Kennslustofur

Þráðlaust net og prentari er í hverri stofu. Kennslustofur skólans eru um sjö talsins, að meðtaldri einni raungreinastofu. Á veggjum allra skólastofa er texti; ljóð, brot eða úrtak úr sögum eða málsháttum, og var þetta sett upp við upphaf skólaársins 2006-2007.
[breyta] Aðrar stofur
[breyta] Kennarar
Viðverusvæði kennara eru ýmis, en þeir hafa kennarastofu sem þeir hafast við í á þeim dögum er heimalærdómur fer fram í skólanum (þriðjudögum og fimmtudögum) þar sem nemendur geta leitað til þeirra eftir hjálp og einnig koma kennarar saman á efri hæð skólans til snæðings á meðan á hádegishléi stendur.
[breyta] Raungreinastofan
Raungreinastofan er fjölnota stofa við skólann. Þar fer kennslan sjálf sjaldan fram nema við krufningar og tilraunir, en er hún annars notuð sem persónuleg rannsóknarstofa; þar sem þar eru nettengdar tölvur sem nemendur geta nýtt sér við upplýsingaöflun og vinnslu á verkefnum og oftar en ekki er stærðfræðikennari þar á heimalærdómsdögum til að hjálpa nemendum með vandamál.
[breyta] Fundarstofan
Fundarstofan er stofa númer 1 í Hraðbraut. Hún er stór og rúmgóð, inniheldur skjávarpa, hátalara; stóla og sófa og hentar því vel að nota hana undir fundi, samkomur, kynningar, leikrit o. s. frv. Þar geta nemendur líka beðið að próftöku lokinni.
[breyta] Nemendafélagsstofan
Nemendafélagsstofan er stofa þar sem kosnir nemendaformenn Autobahn vinna, og skipuleggja böll, uppákomur og aðra hluti.
[breyta] Heiðurslistinn
Menntaskólinn Hraðbraut hefur sett á laggirnar heiðurslista nemenda við skólann en listinn er nýjung í íslensku framhaldsskólastarfi þó þeir þekkjast víða erlendis. Þar eru að hverju sinni, eða einu sinni á skólaári, 8-12 nemendur sem hafa skarað fram úr í námsárangri, ástundun, samviskusemi og almennu viðhorfi til námsins.
[breyta] Tilgangur
Heiðurslistinn er stofnaður í ljósi þess metnaðarfulla anda sem skólinn starfar og í viðleitni til að þjóna afburðanemendum vel. Þetta eru skýr skilaboð um að vel sé tekið eftir nemendum sem sýna framúrskarandi árangur. Þetta þjónar bæði þeim tilgangi að ljá afburðanemendum sérstaka rödd, er snýr að skólastarfinu, og einnig að grunnskólanemendur og foreldrar þeirra, auk annarra sem hyggjast taka stúdentspróf og búa yfir góðum námshæfileikum, líti á skólann sem álitlegan valkost þar sem tekið er eftir og umbunað fyrir góðan árangur. Þetta skilar sér í bættri þjónustu við afburðanemendur og er til þess fallið að sýna í verki þann stuðning sem skólinn vill veita þessum hópi nemenda. Skólastjórn fundar reglulega með þessum hópi auk þess sem seta á listanum er viss virðingarsess sem kemur nemendum til góða við skóla- og atvinnuumsóknir þegar fram í sækir.
[breyta] Umbun
Nemendum, sem veljast á listann, er einnig veitt 25% endurgreiðsla af skólagjöldum viðkomandi skólaárs.
[breyta] Námsframboð
Menntaskólinn Hraðbraut er að vissu leiti tiltörulega óhefðbundinn bóknámsskóli, en hann bíður upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs. Skólinn er bekkjaskóli með bekkjakerfi og hefur fylgt þeirri skipan frá stofnun. Á fyrsta ári velja allir sér námsbraut (136 einingar hvor).
Á stundinni er hægt að velja á milli eftirfarandi námsbrauta:
Hugsanlegt er að fleiri brautir bætist við í framtíðinni.
[breyta] Íþróttir og Hreyfing

Nemendur á síðara ári við Menntaskólann Hraðbraut hafa aðgang að líkamsræktinni Hreyfingu sem er til húsa í Faxafeni 14 og er því stutt fyrir Hraðbrautlinga að fara auk þess að þurfa að sækja tíma þar tvisvar sinnum í viku á yfirsetudögum eða þriðjudögum og fimmtudögum. Nemendur á fyrra ári hafa einnig aðgang að Hreyfingu, en á fyrri helmingi fyrsta námsárs fara þeir aðeins í einn tíma á viku, þar sem þeir eru þá í bóklegum íþróttum þ.e. íþróttafræði.
[breyta] Mat á íþróttum
Þar sem nemendur við Menntaskólann Hraðbraut verja einungis tveimur árum við skólann þurfa þeir bara að taka íþróttir 101, 111, 201 og 211. Þetta gera 4 einingar. Aðrir menntaskólar á Íslandi þurfa að ljúka helmiki fleiri einingum í íþróttum sökum þess að þeir eru tveimur árum lengur í skólanum. Þessi 4 eininga mismunur er eina undantekningin sem menntamálaráðuneytið hefur leyft á námskrá skólans. Þar af leiðandi útskrifast nemendur Hraðbrautar einungis með 136 einingar í stað 140.
[breyta] Nemendafélag Hraðbrautar
Nemendafélag Menntaskólans Hraðbrautar heitir Autobahn (en þýðir það hraðbraut á þýsku) og hefur það verið starfrækt frá upphafi.
[breyta] Stjórn skólans

[breyta] Skólastjórn og skólastjóri
- Sjá lista yfir stjórnendur; Listi yfir stjórnendur við Menntaskólann Hraðbraut.
Skólastjóri er Ólafur Haukur Johnson. Hann ber ábyrgð á starfi og rekstri skólans og sér um að lögum og reglugerðum sé fylgt. Einnig ber hann ábyrgð á áætlanagerð, framkvæmdum og fjármálum skólans og ákveður nemendagjöld í samráði við skólastjórn. Hann ræður kennara og aðra starfsmenn skólans. Hann hefur yfirumsjón með gæðastjórnun innan skólans, starfi nemenda, kennara og annarra starfsmanna. Skólastjóri hefur kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Aðstoðarskólastýra skólanns er Jóhanna Magnúsdóttir. Skólastjórn er skipuð fjórum aðilum sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna nemenda, starfsmanna, foreldra og eigenda. Hlutverk skólastjórnar er að leggja áherslur í starfi skólans. Hún gerir árlega starfsáætlun fyrir skólann í samráði við skólastjóra. Skólastjórnin fylgist jafnframt með því að starfsáætluninni sé framfylgt og er að auki skólastjóra til aðstoðar við stjórnun skólans.
[breyta] Ádeilur og gagnrýni
Margir hafa gagnrýnt Menntaskólann Hraðbraut fyrir að fara yfir námsefnið á of skömmum tíma, og má þar nefna að formaður Ungra vinstri grænna Katrín Jakobsdóttir sem hefur gefið í skyn „að námið í [Menntaskólanum Hraðbraut] sé hraðsuða og fljótafgreitt, að skólinn sé hentiaðgerð kerfiskalla“ og gefur í skyn að „skólinn komi til með að skila af sér ofvitum sem eigi sér engan óskipulagðan frítíma.“ Katrín virðist samt sem áður hafa mikla trú á að Menntaskólinn Hraðbraut komi til með að setja sterkt fordæmi, svo sterkt að aðrir framhaldsskólar fylgi fljótt í kjölfarið og að háskólarnir komi til með að breyta sínu skipulagi og fara út í meiri mötun þekkingar.
Önnur ádeila er að vegna þess hve hratt skólinn er tekinn njóti nemendur ekki eins mikils félagslífs og nemendur við aðra menntaskóla.
[breyta] Sjá einnig
- Listi yfir kennara við Menntaskólann Hraðbraut
- Listi yfir yfirsetufólk við Menntaskólann Hraðbraut
- Listi yfir stjórnendur við Menntaskólann Hraðbraut
- Listi yfir starfsmenn skrifstofu við Menntaskólann Hraðbraut
[breyta] Tengill
[breyta] Heimildir
- „Frétt um Menntaskólann Hraðbraut tekið af síðinni www.tikin.is“. Sótt 13. nóvember 2006.
- „Námsbrautir“. Sótt 12. október 2006.
- „Um Menntaskólann Hraðbraut“. Sótt 12. október 2006.
- „Heiðurslisti“. Sótt 12. október 2006.
- „Húsnæði skólans“. Sótt 12. október 2006.
- „Stjórn skólans“. Sótt 12. október 2006.
- „Námið“. Sótt 12. október 2006.
- „Námsskipan“. Sótt 12. október 2006.
- „Algengar spurningar: Er virkilega hægt að ljúka stúdentsprófi á tveimur árum?“. Sótt 22. nóvember 2006.