Íslenski fáninn
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslenski fáninn er þjóðfáni Íslands. Hann var opinberlega tekinn í notkun þann 17. júní 1944. Fánalögin voru samþykkt sama dag sem lög 34/1944 og tóku gildi 24. ágúst, en þau voru fyrstu lögin sem samþykkt voru á eftir stjórnarskránni.
Fáninn er svokallaður krossfáni eins og fánar allra hinna Norðurlandanna eru. Hann er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum.
Hlutföllin í litum fánans eru, talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt 1. grein fánalaga.
Samkvæmt fánalögum verða allir fánar dregnir á fánastöng að vera í góðu ástandi, lögreglan má gera upptæka alla fána sjáanlega á opinberum stöðum sem ekki samræmast íslenskum fánareglum. Ströng lög gilda um þá virðingu sem sýna ber þjóðfána Íslendinga og getur það varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári að brjóta fánalögin.
Efnisyfirlit |
[breyta] Opinberir fánadagar
Samkvæmt forsetaúrskurði er opinberum stofnunum eingöngu heimilt að draga íslenska fánann á stöng eftirfarandi daga:
Draga skal fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, eftirgreinda daga:
- Fæðingardag forseta Íslands (núna 14. maí).
- Nýársdag.
- Föstudaginn langa (eingöngu dregið í hálfa stöng).
- Páskadag.
- Sumardaginn fyrsta.
- 1. maí (Verkalýðsdagurinn).
- Hvítasunnudag.
- Sjómannadaginn.
- 17. júní (þjóðhátíðardaginn).
- 1. desember (fullveldisdaginn).
- Jóladag.
Að auki mega opinberar stofnanir draga fánann að hún við sérstök tækifæri sem forsætisráðuneytið gefur tilskipun um. Almenningur má draga fánann að hún við sérstök tækifæri. Einnig er í reglum að fáninn skuli aldrei vera dreginn á stöng fyrir kl. 7 að morgni og sé að jafnaði ekki uppi lengur en til sólarlags en þó skal hann aldrei vera lengur uppi en til miðnættis.
[breyta] Fánalitir
Í fánalögunum segir að fánalitirnir séu „heiðblár", „eldrauður" og „mjallhvítur“. Með lagaviðbót frá 1991 eru litirnir nú miðaðir við alþjóðlega litastaðla. Litirnir miðast við SCOTDIC-litastigann (Standard Colour of Textile, — Dictionaire Internationale de la Couleur) þannig:
- Heiðblái liturinn: SCOTDIC nr. 693009.
- Mjallhvíti liturinn: SCOTDIC nr. 95.
- Eldrauði liturinn: SCOTDIC ICELAND FLAG RED.
Í lögunum er einungis tilgreint litakerfi við gerð vefnaðar. Engin opinber staðall er fyrir prentun eða önnur birtingarform. Þó má styðjast við eftirfarandi greiningu í alþjóðlegu stöðlunum Pantone og CMYK:
Pantone Matching System :
- Blár: PMS 287
- Rauður: PMS 1795
CMYK :
- Blár: CMYK 100-69-0-11.5
- Rauður: CMYK 0-94-100-0
Fyrir notkun á tölvuskjám umreiknað í hexadesimal:
- Blár: #00529B
- Rauður: #EE3423
[breyta] Heimildir
- Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. ( 1944 nr. 34 17. júní ).
- Náð í þann 14. maí 2004 af http://www.althingi.is/lagas/130a/1944034.html
- Forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma. ( 1991 nr. 5 23. janúar ).
- Náð í þann 14. maí 2004 af http://www.althingi.is/lagas/125b/1991005.html
- Auglýsing um liti íslenska fánans. ( 1991 nr. 6 23. janúar ).
- Náð í þann 14. maí 2004 af http://www.althingi.is/lagas/125b/1991006.html
- Lög um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga.
- Náð í þann 14. maí 2004 af http://www.althingi.is/altext/stjt/1998.067.html