Uppreisnin í Ungverjalandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Uppreisnin í Ungverjalandi átti sér stað í október og nóvember árið 1956. Rauði herinn barði uppreisnina niður. Um 2500 ungverskir uppreisnarmenn og 720 sovéskir hermenn létust í átökunum og þúsundir annarra særðust. Ein afleiðing uppreisnarinnar var dvínandi fylgi við marxískar hugmyndir á Vesturlöndum.

[breyta] Yfirlit

Eftir heimstyrjöldina síðari lenti Ungverjaland undir stjórn Sovétríkjanna og árið 1949 var það gert að kommúnísku einræðisríki undir stjórn Mátyás Rákosi og Kommúnistaflokks Ungverjalands. Mátyás Rákosi var síðan neyddur til að leggja upp störf sín og tók þá Ernő Gerő við stjórnvalnum. Þann 23. október 1956 söfnuðust nemendur Tækniháskólans í Unverjalandi saman á Bem-torginu í Búdapest og settu á svið gjörning til stuðnings hugmyndum pólverjans Władysław Gomułka sem vöktu vonir meðal Austur-Evrópubúa um bætt kjör og meira sjálfstæði þjóðanna. Brátt bættust fleiri í hópinn og brátt snerist samkoman upp í mótmæli gegn Sovétstjórninni. Fleiri og fleiri Ungverjar flykktust að og brátt færðist stjórnlaus hópurinn, sem þá taldi yfir 100.000 manns, yfir Dóná og nálgaðist nú þinghúsið. Mótmælin fóru þó friðsamlega fram.

Mótmælin snerust þó upp í algjöra ringulreið þegar Ungverska öryggislögreglan (ÁVH) mætti á svæðið og dritaði blýkúlum í saklausa mótmælendurna. Yfirvegunin flaug út í veður og vind og starfsmenn vopnaframleiðslufyrirtækja dreifðu byssum meðal mótmælenda. Stjórnvöld reyndu að smygla aukaafli og vopnum inn í átakaskarann með sírenuvælandi sjúkrabílum en mótmælendurnir brutust inn í bílana og nýttu sér skotvopnin. Sovéska hernum, sem staðsettur hafði verið í Ungverjalandi síðan 1945, var einnig skipað að ráða niðurlögum mótmælendanna en hermennirnir sjálfir höfðu búið í Ungverjalandi síðan í byrjun síðari heimstyrjaldarinnar, unnu landinu og áttu því erfitt með að slátra Ungverjunum. Stjórnvöld sáu ekki fyrir sér að Ernő Gerő gæti risið gegn mótmælunum og gerðu því hinn vinsæla Imre Nagy að forsætisráðherra. Imre Nagy var í raun bara enn annar leppur Sovétanna.

Þann 4. nóvember voru plön sem hefðu verið í bígerð dagana á undan sett í framkvæmd. Nýir sovéskir herir sem ekki bjuggu í Ungverjalandi og sáu því ekki aumur á Ungverjunum réðust til atlögu. Ólíkt blóðsúthellingunni þann 23. október var þessi baráttan ekki aðeins háð með byssum og örfáum skriðdrekum, heldur komu Sovétar með 6000 skriðdreka, sprengjur og flugskeyti. Ungverski herinn brást óskipulega við, en almenningurinn sjálfur veitti þó harða og skipulagða mótspyrnu. Þar af leiðandi urðu það ekki miðstéttarhverfin sem urðu verst úti, heldur fátækra- og iðnaðarhverfin.

Þann 10. nóvember heimtuðu verkamanna- og stúdentafélög vopnahlé. Verkamannafélögin sömdu beint við Sovéska herinn dagana 10.-19. nóvember og fengu með því lausn nokkurra stríðsfanga, en ekki fram kröfu sinni að Sovétríkin slepptu taumnum lausum og færu frá Ungverjalandi.

Ný ríkistjórn var skipuð með stjórnmálamanni að nafni János Kádár, sem naut stuðnings Sovétríkjanna, í forystu og hann gegndi embætti forsætisráðherra allt til ársins 1988. Verkamenn og stúdentar reyndu að mótmæla með verkföllum og vopnaðri mótspyrnu fram á mitt árið 1957. Mótmælin skiluðu litlum árangri.

Á öðrum tungumálum