Tröllaskagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gervihnattamynd af Tröllaskaga
Enlarge
Gervihnattamynd af Tröllaskaga

Tröllaskagi er skagi fyrir miðju Norðurlandi Íslands á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Skaginn er fjöllóttur og ná margir fjallatindar yfir 1200 metra yfir sjávarmál, hæst er Kerling (1538 m). Nokkrir litlir jöklar eru í fjöllum Tröllaskaga.

Nokkrir djúpir dalir skerast inn í fjalllendi Tröllaskaga, þeirra stærstir eru: Hjaltadalur, Hörgárdalur, Norðurárdalur og Svarfaðardalur. Dalirnir mótuðust með framrás skriðjökla á ísöldum.

Byggð á svæðinu einskorðast við láglendi nálægt ströndum og í dölum, landbúnaður er þar nokkur og sjávarútvegur stundaður frá nokkrum þéttbýlisstöðum. Þéttbýlisstaðir í kringum Tröllaskaga eru: Hólar, Hofsós, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Árskógssandur, Hauganes, Hjalteyri, Akureyri og Hrafnagil.

Hálendi Tröllaskaga er nokkuð erfitt viðureignar fyrir samgöngur á svæðinu en tveir akvegir liggja nú í gegnum hann. Lágheiði liggur á milli Ólafsfjarðar og Fljóta í Skagafirði, sú leið er yfirleitt lokuð meirihluta árs vegna snjóa. Þjóðvegur 1 liggur um Öxnadalsheiði, þar fer vegurinn hæst í 540 metra yfir sjávarmál og er nokkuð snjóþungur að vetrum en þó kemur sjaldan til lokana þar sem mikið er lagt í að halda honum opnum. Tillögur eru uppi um jarðgöng sem gætu leyst veginn yfir heiðina af hólmi, annað hvort undir núverandi vegarstæði eða frá Hörgárdal yfir í Hjaltadal sem myndi stytta verulega vegalengdina milli Akureyrar og Sauðárkróks.

Á öðrum tungumálum