Siglufjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Byggðamerki Siglufjarðar
Enlarge
Byggðamerki Siglufjarðar
Siglufjarðarkaupstaður (til 2006), áður Hvanneyrarhreppur / Sigluneshreppur
Enlarge
Siglufjarðarkaupstaður (til 2006), áður Hvanneyrarhreppur / Sigluneshreppur

Siglufjörður er bær sem stendur við samnefndan fjörð á mið-Norðurlandi nyrst á Tröllaskaga í sveitarfélaginu Fjallabyggð.

Í bænum sem byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi búa nú rúmlega 1400 manns sem er mikil fækkun frá blómaskeiði bæjarins á fimmta og sjötta áratugnum en þá bjuggu allt að 3000 manns í bænum. Það blómaskeið var afleiðing mikilla síldveiða fyrir Norðurlandi sem fóru í gang á þessum tíma en afkastamesta síldarbræðsla landsins var þá á Siglufirði. Siglfirðingar minnast þessa tímabils enn í dag en í bænum er starfandi Síldarminjasafn og árlega er haldin „Síldarhátíðin á Sigló“ um verslunarmannahelgi.

Hinn forni Sigluneshreppur náði yfir bæði Siglufjörð og Héðinsfjörð og samsvaraði landnámi Þormóðs ramma. Var hann kenndur við bæ hans Siglunes, sem framan af var höfuðból sveitarinnar og síðar kirkjustaður. Árið 1614 var ný kirkja reist á Hvanneyri við Siglufjörð en nafnið Hvanneyrarhreppur mun ekki hafa verið tekið upp fyrr en á 18. öld. Verslun hófst í hreppnum 1788 og varð Siglufjörður að löggiltum verslunarstað árið 1818. Einni öld síðar, árið 1918, fékk Hvanneyrarhreppur kaupstaðarréttindi og hét eftir það Siglufjarðarkaupstaður.

Í janúar 2006 samþykktu Siglfirðingar og Ólafsfirðingar í sameiningarkosningum að sameina bæjarfélögin tvö. Sameiningin gekk í gildi 11. júní 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum 27. maí. Í kosningu um nafn á sameinað sveitarfélag varð tillagan Fjallabyggð ofaná.

Samgöngur við Siglufjörð voru lengst af mjög erfiðar þegar eina landleiðin þangað lá um Siglufjarðarskarð sem er hátt yfir sjávarmáli og lokað meiri hluta árs. Strákagöng voru grafin í gegnum fjallið Stráka vestan Siglufjarðar og voru opnuð 1967, þau opnuðu greiða leið yfir í Skagafjörð. Áætlanir gera ráð fyrir því að innan nokkurra ára verði ráðist í gerð Héðinsfjarðarganga sem eiga að tengja saman og stytta verulega vegalengdina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og þar með einnig til Eyjafjarðarsvæðisins.

[breyta] Tengill

Á öðrum tungumálum