Rómverska keisaradæmið
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rómverska keisaradæmið nefnist það tímabil í sögu Rómaveldis þegar keisarar voru þar æðstu ráðamenn. Það er þriðja og síðasta stjórnarfyrikomulagið sem Rómaveldi gekk í gegn um. Ekki er hægt að staðfesta eitthvað eitt ártal sem upphaf keisaraveldisins en aðallega er talað um þrjú: 44 f. Kr., þegar Júlíus Caesar var útnefndur einræðisherra fyrir lífstíð, 31 f. Kr., þegar orrustan við Actíum átti sér stað, og árið 27 f.Kr. þegar Octavíanus hlaut titilinn Ágústus. Á fjórðu öld, yfir nokkurt tímabil, skiptist svo keisaradæmið upp í tvö, Vestrómverska keisaradæmið og Austrómverska keisaradæmið. Oftast er talað um að Rómverska keisaradæmið hafi hætt að vera til árið 476, þegar hið vestrómverska (sem var stjórnað frá Róm) hætti að vera til. Þó er mikilvægt að minnast á að hið austrómverska (sem var stjórnað frá Konstantínópel) lifði til ársins 1453. Nafnið rómverska keisaradæmið er einnig notað yfir landsvæðið sem Rómaveldi náði yfir þegar keisaraveldið var við lýði. Þegar það var stærst, náði það frá þar sem er í dag Skotland í norðri suður yfir alla norður Afríku. Vestast náði það á Íberíuskaga að Persaflóa í austri. Í Rómverska keisaradæminu aðhylltist fólk framan af rómverska goðafræði en Konstantín keisari tók Kristni og gerði hana árið 313 að „leyfðri trú“ í Rómaveldi. Upp frá því breiddist Kristni út um allt ríkið og varð algengasta trúin.
Rómaveldi | breyta |
Stofnun Rómar | Rómverska konungdæmið | Lýðveldistíminn | Keisaratíminn | Síðfornöld | |
Vestrómverska keisaradæmið | Austrómverska keisaradæmið | |
Öldungaráðið | Rómarkeisari | Skattlönd |