Norðurvegur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lega hugsanlegs Norðurvegar er hér sýnd með fjólubláum lit, vegurinn um Kaldadal með bláum og núverandi lega Þjóðvegar 1 með rauðum.
Enlarge
Lega hugsanlegs Norðurvegar er hér sýnd með fjólubláum lit, vegurinn um Kaldadal með bláum og núverandi lega Þjóðvegar 1 með rauðum.

Norðurvegur er heiti sem notað hefur verið um hugsanlegan hálendisveg sem lagður yrði á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar með það að markmiði að stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Vegurinn yrði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, Stórasand og sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð þar sem hann tengist núverandi Þjóðvegi 1 í Norðurárdal. Með veg frá Borgarfirði um Kaldadal að Þingvöllum styttist leiðin um aðra 40 km eða 82 kílómetra alls.

Einn helsti stuðningsmaður framkvæmdarinnar og sá sem stakk upp á heitinu „Norðurvegur“ er Halldór Blöndal sem ásamt fleiri þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu um verkefnið um vorið 2004. Gert er ráð fyrir að lagning vegarins á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar yrði einkaframkvæmd og að veggjald yrði innheimt á þeim kafla en kostnaðurinn við þann kafla er áætlaður 4,5 milljarðar króna. Vegurinn um Kaldadal yrði hinsvegar ríkisframkvæmd en sá vegur er reyndar nú þegar á vegaáætlun.

Stuðningsmenn framkvæmdarinnar benda einna helst á lækkun flutningskostnaðar fyrir fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu og allt austur til Austfjarða. Andstaða hefur komið fram við lagningu Norðurvegar, aðallega vegna umhverfissjónarmiða og hugsanlegra neikvæðra áhrifa fyrir ferðaþjónustu og byggð á Norðvesturlandi.