Evklíð
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Evklíð (Gríska: Εὐκλείδης) var uppi um 300 f.Kr. Hann bjó í Alexandríu í Egyptalandi, sem þá var háborg vísinda og lista í heiminum. Af öllum stærðfræðingum fornaldar er hann langfrægastur og þekktur sem faðir rúmfræðinnar. Hann skrifaði bók (eða bækur), sem heitir Frumatriði. Sú bók var snemma þýdd á latínu og er mest notaða kennslubók allra tíma, því hún var notuð við stærðfræðikennslu allt fram á byrjun 20. aldar, eða í a. m. k. 2000 ár. Ekki er vitað að hve miklu leyti Frumatriði er frumsmíð hans, eða hvað hann hefur haft frá öðrum, en hvað sem því líður er bókin stórvirki. Sagt hefur verið um þessa bók að hún sé önnur áhrifamesta bók í vestrænni menningu. Lítið sem ekkert er að öðru leyti vitað um æviferil Evklíðs.