Spjall:Ágústus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ein spurning (sem reyndar hefur verið rætt um að hluta í greininni um Sesar), um þessa annars frábæru grein, sem ég hyggst tilnefna til úrvalsgreinar: Af hverju er ekki skrifað k í Oktavíanus? Ég hef einhvernvegin alltaf skrifað það þannig, og þykir það rökrétt fyrst við notum Á í stað Au o.þ.h. Er það ekki líka oftast gert, amk af almenningi, þegar verið er að skrifa latnesk nöfn upp á íslensku? --Sterio 9. maí 2006 kl. 21:04 (UTC)

Með fullri virðingu fyrir almenningi, þá hefur hann enga skýra hugmynd um hvernig á að fara með latnesk nöfn. Ég vil frekar að undantekningar séu undantekningar og að það sé hægt að fylgja einhverri meginreglu en að algjör ringulreið ríki. Spurningin er miklu heldur: Hvers vegna ættum við að skrifa k? Og ef við gerum það, ætlum við þá að gera það bara bara stundum og stundum ekki eða gerum við það að almennri reglu í meðferð latneskra nafna að skipta alltaf út c fyrir k (og skrifa þá Kaesar)? Hvers vegna ættum við að gera það? Við gerum það ekki í neinu öðru máli. Enginn heilvita maður skrifar t.d. Bill Klinton. Nei, við höldum c-inu af því að það er engin ástæða til annars. Á í stað au er undantekning en ekki meginreglan. Rithátturinn Augustus þekkist líka og flest nöfn með au- í latínu mættu vel vera skrifuð þannig og ættu sennilega helst að vera skrifuð þannig (Claudius, Claudia, Aulus Gellius o.s.frv.), þrátt fyrir framburð (enginn myndi skrifa Búsh á íslensku). --Cessator 9. maí 2006 kl. 22:28 (UTC)
Ég er sammála. Það fer fátt jafn mikið í pirrurnar á mér og það þegar verið er að skella íslenskri stafsetningu á erlend eiginnöfn. Ég heiti Smári McCarthy, ekki Smári Mak Karþí. Ef að þýða á hugtök, þá á að þýða þau almennilega, en nota ekki krafssléttur. Eiginnöfn á alls ekki að þýða (þó eru til dæmi um eiginnöfn sem er hefð fyrir að þýða í Íslensku, til dæmis Lúndúnir, Kænugarður og Nýja Jórvík. Reyndar er þetta síðasta byggt á mjög víðfrægum misskilningi; New York er nefnd eftir hertoganum í York, ekki eftir borginni York, og jafnvel þó svo væri, þá stendur York ekki við sjó, og því er engin vík.) ... --Smári McCarthy 9. maí 2006 kl. 22:34 (UTC)
Hehe, ég vissi ekki þetta með New York, skemmtilegt. Svo það fari ekki á milli mála, þá er ég fylgjandi því að fara eftir meginreglum svo ekki verði allsherjar ringulreið og allir geti vitað hvernig þeir eigi að fara með nöfn en um leið er ég fylgjandi því að virða hefðir sem brjóta meginreglur ef þær eru raunverulegar hefðir og svo rótfastar að það sé ekki hægt að uppræta þær. Það má deila um hvenær hefðir eru svo sterkar; Hómer og Esóp, Virgill og Eneas eru raunverulegar hefðir (ættu annars að vera Hómeros, Esópos, Vergilius og Æneas); hins vegar er ekki það sterk hefð fyrir Hórasi að ekki megi breyta honum í Hóratíus, og eins hefur örugglega einhvers staðar verið fjallað um Pindar og Anaxímander á íslensku en það er engin knýjandi ástæða til að kalla þá ekki samt Pindaros og Anaxímandros. Hér er þetta samt ekki spurning um mynd nafnsins heldur rithátt, stafsetningu; ég ætla ekki að andskotast í á-inu í Ágústusi en hvika þó ekki frá því að Augustus sé fullkomlega gott og gilt. En k fyrir c alls staðar er mér mjög á móti skapi. --Cessator 9. maí 2006 kl. 22:47 (UTC)
Jæja þá... mér finnst bara k í stað c (þar sem c-ið er borið fram með k-hljóði allavega) vera alveg eins og að setja inn broddstafi eða eitthvað. En það er þá bara ég :p --Sterio 9. maí 2006 kl. 23:29 (UTC)
Fyrst það skiptir ekki máli að koma því til skila hvernig framburðurinn er (nokkurnvegin), er þá ekki bara hægt að stíga skrefið til fulls og tala um ́Игорь Фёдорович Страв́инский í stað Igor Fyodorovich Stravinsky, sem er í sjálfu sér ekkert nema bölvuð enskusletta. --Satúrnus
Nei, við þurfum auðvitað að geta skrifað nöfn með okkar letri. Kyrillýskt letur er allt annað letur en það sem við notum en okkar letur er í gruninn latneskt letur. Það er mikill munur á þessu. --Cessator 21. júlí 2006 kl. 16:41 (UTC)
Ok. Væri þó ekki best að nota einhvers konar framburðarletur (líkt og maður sér í orðabókum) ef allir kynnu það? Núverandi ástand er hálfgert miðjumoð :/ Annars vona ég að þú takir þessu ekki sem útúrsnúningum eða kaldhæðni, er bara að átta mig hérna á síðunni. --Satúrnus
Ekkert mál, ég tek því ekki illa þótt þú viljir ræða málin :) Vandinn er hins vegar sá að þetta er Wikipedia á íslensku og íslenska er bara ekki skrifuð með hljóðritun, heldur íslensku stafrófi; ritháttur í íslensku miðast ekki einu sinni fyrst og fremst við framburð heldur uppruna. Að sjálfsögðu verðum við að geta skrifað rússnesk og grísk og kínversk nöfn o.s.frv. á íslensku og þá þarf að koma sér saman um einhverjar reglur um hvernig við skrifum með okkar letri það sem upphaflega var skrifað með öðru letri. Og þessar umritunarreglur (ólíkt íslenskri stafsetningu almennt) geta e.t.v. endurspeglað framburð. Til dæmis umritum við alfa og upsílon í grísku með -á- í íslensku. Við breytum hins vegar ekki nöfnum sem við þurfum ekki að umrita. Það er ekki almenn venja að breyta t.d. Clinton í Klinton og Blair í Bler til að ensurspegla hvernig á að bera nöfnin fram. Af hverju ættum við þá að gera það í latínu? Auðvitað mætti bæta við hljóðritun í sviga á eftir nafninu þegar það er óljóst hvernig á að bera það fram (og það er stundum gert, sjá t.d. Gregory Nagy) en það breytir ekki neinu um þá ákvörðun hvernig nafnið skal ritað í greininni. --Cessator 2. ágúst 2006 kl. 16:01 (UTC)